04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4211 í B-deild Alþingistíðinda. (2959)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að segja örfá orð um þetta mál sem er hið þarfasta. Umhverfismál koma blessunarlega til umræðu annað veifið hér á hv. Alþingi og er það vel. Það er örugglega töluverður áhugi á þessum málum í öllum þingflokkum sem og víðar úti í þjóðfélaginu og vaxandi skilningur en því miður minna um framkvæmdir eins og fram kemur í þeirri grg. sem er með þessari tillögu og víkur að ýmsum málum sem vert er að skoða og veita athygli. Þetta framkvæmdaleysi er að hluta til afleiðing þess hvernig umhverfismálum er skipað í stjórnkerfi landsins þar sem umhverfismálin eru eins konar hornrekur í flestum ef ekki öllum ráðuneytunum. Þau mál hafa nú margoft verið rædd hér án þess að fengist hafi mikil viðbrögð eða úrbætur stjórnvalda, og væri ástæða til þess að minna enn og aftur á það og það geri ég hér með.

Þáltill. er að mínu viti ákaflega þörf og góð og ég lýsi eindregnum stuðningi við hana. Það er ekki nóg að ræða málin eins og við höfum sem betur fer gert öðru hverju hér í vetur og áður. Það verður líka að framkvæma og ég ætlaði aðeins að lýsa eindregnum stuðningi við till. og hvetja þm. til að skoða hana og styðja.