27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

Stefnuræða forsætisráðherra

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ef litið er á stefnuskrá Borgaraflokksins má ljóst vera að við hljótum að vera andvíg þeirri stefnu sem núverandi ríkisstjórn boðar og hyggst beita í náinni framtíð. Sumt af því sem þegar er komið til framkvæmda er ómanneskjulegt og bitnar á þeim sem síst skyldi. Ég nefni nýja bifreiðaskattinn sem innheimtur er af þeim sem eru 67 ára og eldri, þó að þeir séu öryrkjar fyrir. Ég nefni að nú er verið að senda öldruðum einstaklingum, sem höfðu niðurfellingu á síma, reikninga að nýju. Þetta eru harðneskjulegar aðfarir og Borgaraflokkurinn, sem er málsvari þeirra sem minna mega sín, mun beita sér gegn þessu með hverjum sem er, hvar sem er og hvenær sem er.

Af stefnuræðunni má ráða að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við þá kjarasamninga sem enn eru í gildi, samninga sem þessir sömu menn kölluðu þjóðarsátt í eina tíð. Allt tal um að forsendur þeirra hafi breyst er út í hött, auk þess sem hægt er með rökum að vefengja kjararannsóknir sem lagðar eru til grundvallar þeim kaupmætti sem talað er um. Kauptaxtar eru óbreyttir frá því sem samið var um.

Það sem skeð hefur er að sumir verktakar og atvinnurekendur hafa verið með yfirborganir og fólk hefur unnið mikla yfirvinnu, bæði til að bæta sinn hag og líka oft af hollustu og samviskusemi. Svo er það m.a. á sjúkrahúsum, hælum og elliheimilum. Samt eru hópar fólks sem verða að láta sér nægja strípaða taxta. Á þeim getur enginn lifað, það viðurkenna allir. Því segi ég: Það er mál til komið að góðærið margrædda sé notað til að stöðva þann ljóta leik að fólk, sem vinnur 8 stunda vinnudag, skuli þurfa að leita sér opinberrar hjálpar til að lifa. Það er hrein móðgun við þetta fólk að ætla því 7% launahækkun nú þegar búið er að dengja yfir það öllum þeim hækkunum sem gert hefur verið síðustu mánuði.

Af öllum þeim ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú kynnt er matarskatturinn illræmdastur, einkum sá síðari. Mér er sagt að 10% matarskattur hækki lánskjaravísitölu um 1,33% og þar með skuldir íbúðaeigenda um 1 milljarð og að aðrar skuldir hækki eftir því. Það hefði nú verið nær að fallast á tillöguna hans Alberts Guðmundssonar í fyrri ríkisstjórn og svæfa lánskjaravísitöluna um leið og aðrar lánskjaravísitölur voru svæfðar. Þá stæðu kannski ekki eins margir frammi fyrir nauðungaruppboðum og í dag. Hæstv. fjmrh. virðist loks orðið það ljóst að hann stendur höllum fæti með matarskattinn. Því ýjar hann að því nú að hann geti kannski samið um að fresta skattinum ef launþegar verði þægir og góðir og geri ekki hærri kröfur en hann fellst á.

Ég minni enn á að samningar eru í fullu gildi. Alþýðusamband Íslands er stofnað til að vera baráttusamtök erfiðismanna á Íslandi. Það eða einstök aðildarfélög þess geta ekki samið um að klípa af bita þeirra sem hafa of lítið fyrir. Það væri að brjóta grundvallarhugsjón samtakanna. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að það gerist.

Á fjórða áratugnum í miðri heimskreppunni sat hér að völdum ríkisstjórn sem kölluð var stjórn hinna vinnandi stétta. Ráðherrar voru aðeins þrír. — Eru þeir ekki nú 11 plús 11, fyrir utan fræðingastóðið? — Ráðherrar þá hétu Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson og Haraldur Guðmundsson. Þessi ríkisstjórn vann það þrekvirki að koma á alþýðutryggingum árið 1936. Ráðherra jafnaðarmanna var Haraldur Guðmundsson. Á bak við hann stóðu kempur eins og Jóhanna Egilsdóttir, Sigurjón Á. Ólafsson, Jón Axel Pétursson, Héðinn Valdimarsson og fleiri og fleiri.

Nú eru tveir einna valdamestu ráðherrar í ríkisstjórn jafnaðarmenn. Hvað gera þeir í mesta góðæri sem gengið hefur yfir þjóðina? Jú, hæstv. fjmrh. hrifsar með matarsköttum bitann af diski fátækra og kastar til þeirra sem ofgnægtir hafa. Og hinn, hæstv. viðskrh., býður þeim með breiðu bökin að fara óttalausir til útlanda og braska þar í kauphöllum. Finnst nú ekki fleirum en mér stutt á milli frjálshyggjudrengjanna og rósariddaranna nýju?

Ég spái að þessi ríkisstjórn verði skammlíf. Og eitt veit ég: Þegar hún kveður verður ekki um hana sagt í eftirmælum: „Hún átti ævina skamma — en göfuga.“