04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Skömmu eftir áramót, ef ég man rétt, gerðust þau tíðindi að sú lína, sem hér hefur verið til umræðu, bilaði. Staurar féllu og brotnuðu, reyndar ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar, líklega um 30 staurar. Ástæðan var auðvitað óveður, norðaustanátt og mikil ísing. Norðaustanáttin stendur þvert á þessa línu sem er orðin gömul og þarf auðvitað endurnýjunar við eins og skýrt og greinilega hefur komið fram í þessum umræðum. Þegar þetta gerðist höfðu þm. kjördæmisins samband við mig og töldu að gera þyrfti ráðstafanir til þess að auka öryggi þessa svæðis hvað varðar raforku.

Ég hef átt samtal við rafmagnsveitustjóra og beðið hann um að gera úttekt á þessu máli sérstaklega. Ég verð jafnframt að segja að ég tel það vera til bóta að þessi tillaga skuli vera flutt. Það er ekki síðra að Alþingi fái tækifæri til að fjalla um málið, jafnvel að gera sína samþykkt og mun það auðvitað styrkja iðnrn. í því að fara fram á að gerð verði sérstök áætlun fyrir þetta svæði innan þeirrar áætlunargerðar sem fer fram á vegum RARIK.

Það er rétt sem kemur fram að það eru fyrst og fremst tveir kostir sem koma til greina, annar er sá að virkja Sandá í Þistilfirði, en það mundi gerast á grundvelli heimildar í lögum frá 1956, þar sem segir að ríkisstjórnin hafi heimild til að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Sandá í Þistilfirði til raforkuvinnslu í allt að 2900 hestafla orkuveri og leggja frá því aðalorkuveitu til Þórshafnar og Raufarhafnar, og, eins og segir jafnframt í þessu ákvæði: eða leggja aðalorkuveitu frá Laxárvirkjun um Norður-Þingeyjarsýslu.

Það hefur verið álit þeirra aðila sem um þetta mál hafa fjallað, Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins, að þetta sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt, en mér finnst vera fyllsta ástæða til að skoða það enn á ný. Það ber þó að geta þess, sem ekki hefur komið fram kannski nægilega skýrt í þessum umræðum, að áætlun um virkjun sem nú liggur fyrir er áætlun um virkjun 2 mw. stöðvar en álagið í toppi á þessu svæði mun vera um 31/2 mw. Þannig að þó hægt væri að fresta línulögn um skeið þá er ljóst að virkjun mun ekki fullnægja þessu svæði, a.m.k. ekki að óbreyttri byggð og starfsemi á þessu svæði sem við að sjálfsögðu vonumst til að styrkist frekar en veikist á næstu árum.

Ég vil því aðeins segja að ég tel að það sé æskilegt að þessi könnun verði framkvæmd og áætlun gerð. Það verður þá gert innan marka Rafmagnsveitna ríkisins. Vonast ég til þess að einhver niðurstaða geti legið fyrir innan skamms tíma og þá á ég við að hægt sé að taka tillit til þeirra niðurstaðna þegar næst verður fjallað um málefni Rafmagnsveitnanna á Alþingi, sem varla verður fyrri en við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Ég vil ítreka það að ég sé enga ástæðu til að fara gegn þessari þáltill. Mér finnst hún vera fyllilega eðlileg og réttmæt og held að það geti verið að því styrkur að hún verði samþykkt hér á hv. Alþingi.