04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. síðasta ræðumanns, þá kannast ég vel við þær viðræður sem hann vitnar til. Það er ljóst að það eru ekki fjármunir á fjárlögum til þess að halda áfram þeirri athugun sem hafin er. Ég taldi mig hafa sagt við þá sem við mig töluðu að við mundum reyna að leita lausna á því að greiða þann hluta af kostnaði sem þegar hefur verð útlagður af sýslunefnd. (Gripið fram í.) Já, það var í haust. Það er rétt. Viðræðurnar fóru fram í haust og síðan töluðum við saman líka eftir áramótin. En ég kannast ekki við, og verð þá leiðréttur, að hafa sagt meira en það að reynt verði að finna lausn á því hvernig hægt sé að koma til móts við heimamenn sem hafa lagt út í talsverðan kostnað — reyndar án þess að hafa samráð við stjórnvöld. Mín hugmynd var sú að hugsanlega gætu Rafmagnsveitur ríkisins leyst til sín þá vinnu sem þarna hefur verið unnin og þá eignast hana. Hún getur síðan auðvitað orðið grundvöllur áframhaldandi starfs.

Því miður get ég ekki gefið yfirlýsingu um það hér og nú hvort hægt sé að finna fjármuni til þess að halda áfram þeirri áætlun og nýta þannig sumarið. Ég satt að segja efast um að svo geti orðið nema til komi nýtt fjármagn sem ákveðið yrði annaðhvort af Alþingi eða þá með sérstakri fjárveitingu til þessara máta. Aðalatriðið er hins vegar það að það verður tekið á þessu máli þannig að nægilega góð lausn finnist sem allra fyrst á þessum málum.