04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4244 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Mér fannst nú leiðinlegt að ungur maður eins og hæstv. forsrh. skuli alltaf halda sömu ræðuna, sérstaklega þegar fer að nálgast kjarasamninga. (Forsrh.: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.) Hann talar í rauninni alveg eins og þegar hann sat vestur í Vinnuveitendasambandi. Þá var kenningin: Launin mega ekki hækka. Þá fer allt úr böndunum, verðbólgan æðir yfir allt.

Laun hafa ekki hækkað hjá okkur núna síðan í október. Það hafa engin rauð strik verið. Það hefur engin hreyfing svo að segja verið á samningamálum. Samt hefur verðbólgan ætt upp svo að honum óaði við í janúar 1988. Það er nefnilega alls ekki einhlítt þó að fólk fái ekki launin sín hækkuð. Verðbólgan hefur oft hækkað fyrir það. En þetta er svipa á fólk þegar það sest að samningum vegna þess að það fólk sem lökust hefur kjörin veit að verðbólga bitnar illa á því. En ég skil það ekki, ef hann hefur svo mikinn áhuga fyrir því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, af hverju þeir byrja bara ekki heima hjá sér. Það fólk sem hefur einna lélegust laun í dag er á þeirra geira. Þar eru laun mjög algeng frá 31 þús. og upp í rúm 40 þús. og það er nú í febrúar. Langar þá sjálfa til að lifa af þessum launum? Og hvernig fer fólk að því að lifa á þessum launum? Það leggur á sig alveg ótrúlega vinnu. Það eru mörg dæmi, sem ég þekki núna síðustu 1–2 árin, um það að fólk vinnur ekki á einum vinnustað, það vinnur á tveimur og það vinnur jafnvel á þremur. Menn ættu allir að geta sagt sér það sjálfir hvernig svona vinnulag fer með heimilin, einkum þegar það er kona sem verður að leggja slíka vinnu á sig. Ef þið haldið að þetta sé ekki rétt get ég nokkurn veginn gefið ykkur upp hvernig þetta gengur til. Konan vinnur á barnaheimili, kannski ekki alveg hellan vinnudag, síðan fer hún út og skúrar og svo fer hún jafnvel út á veitingastað og uppvartar.

Og hvernig fer þetta svo með fólk? Ég hef fram að þessu verið í stjórn lífeyrissjóðs. Þar var árið 1987 áberandi fjölgun á fólki sem var á örorku. Nú fer heldur fækkandi í félaginu. Árið 1986 voru örorkuþegar 138, árið 1988 voru þeir komnir upp í 162. Þetta er fólk sem ekki er orðið 67 ára og þar af leiðandi ekki komið á ellilaun. Þetta er það sem fólk ber úr býtum í þessum vinnuþrældómi sem við búum við. Þetta er nú velferðarþjóðfélagið okkar í dag og mér skilst að kjör þessa fólks megi alls ekki batna.

Þegar laun voru hækkuð á Vestfjörðum um 13% sagði hæstv. forsrh.: Þessi laun mega ekki fara yfir allt. Það er allt of mikið. Hann segir það sama enn. Þetta segir hæstv. ráðherra þó að hann sé alþm. í kjördæmi þar sem nærri hver einasti launamaður vinnur á strípuðum töxtum, þar sem nær ekkert er til af hálaunafólki og þar sem er meira viðvarandi atvinnuleysi en kannski í nokkru kjördæmi öðru, einkum í Rangárvallasýslunni.

En þetta er það sem við heyrum í hvert einasta skipti sem samningar eru gerðir. Því er það að nú í seinni tíð og á seinni árum hef ég æ meir og meir komist á þá skoðun að löggjafinn verður að gera eitthvað sérstakt fyrir láglaunafólk. Þetta verður ekki lagað í kjarasamningum. Ég hef ekki trú á því og hef ekki haft það í nokkra hríð. Það er staðið yfir fólki, þegar verið er að semja, með svipuna í hendinni: Ef þú gerir þetta, ef þú gerir hitt, þá skal þér hegnt með verðbólgu eða atvinnuleysi. Það er alveg sama hvað forsrh. segir hér um frjálsa samninga. Samningar eru ekki frjálsir þegar svona hótanir dynja sífellt á fólki. Hann hlýtur að vita sjálfur hvað hann segir.

Það er vonandi að það gangi eitthvað þegar þeir tala saman á morgun. En ef það er of mikið að það fólk sem nú hefur um 30 þús. kr. tekjur fái bættar tekjur sínar með 13% launahækkun yfir árið get ég ekki óskað neinum til hamingju sem ætlar að fara að gera þá kjarasamninga.

Það er sjálfsagt nokkuð sem við vildum helst öll að fólk geti sjálft gert út um sín mál, sest niður og samið sjálft og gert út um sín mál sjálft, en þetta hefur bara ekki tekist. Það er alltaf spiluð þessi sama plata: Það má ekkert hækka, þá fer allt úr böndunum. Atvinnurekendum hefur tekist að halda launum niðri með góðri hjálp ríkisvaldsins og opinbera geirans og síðan er blekið varla þornað á samningunum þegar farið er að yfirborga og koma með alls konar aukasporslur handa þeim sem þeir vilja sjálfir. Ég hef setið á móti atvinnurekanda við samningaborð og hann hefur alveg sett hnefann í borðið og harðneitað að semja um þá launahækkun sem við vorum að fara fram á, en hann sagði okkur hins vegar hlæjandi: Mér dettur ekki í hug að borga þessi laun í mínu fyrirtæki. Ég borga meira. Það er svo gott að vera góður strákur og geta látið kenna þessum vondu verkalýðsrekendum, eins og þeir sögðu þá, um. Hann sagði þetta ekki. Þetta eru mín orð. En svona hafa þeir unnið.

Það væri hægt að segja afskaplega mikið um efnahagsmálin ef fólk vissi bara hvernig þau eru eða hvert þau stefna. Róm er að brenna, segir utanrrh. og síðan fer hann í sólbað til Tælands, held ég.

Það vita allir að við búum við viðskiptahalla. Við vitum ekkert hvað mikinn. Það vita allir að við búum við vaxtastefnu sem er smátt og smátt að beygja fleiri og fleiri niður í duftið, sem er að gera fleiri og fleiri að öreigum. Það hefði einhvern tíma ekki átt að vera stefna þess flokks sem hæstv. forsrh. er formaður fyrir. Nauðungaruppboðum fjölgar svo mikið að borgardómari hefur ekki orðið við og hefur hann þó bætt við sig miklu starfsliði, að hann segir. Auðvitað eru sum þessi nauðungaruppboð á fyrirtækjum, en þau eru kannski einna mest á íbúðarhúsnæði fólks. Það rís nefnilega enginn undir skuldum af íbúðarhúsnæði sem það hefur keypt eða byggt í seinni tíð og verður að búa við þessa óréttlátu vaxtastefnu.

Gengið er fallið og það á eftir að falla meira. Það er áreiðanlegt að það á eftir að falla. Staða útflutningsatvinnuveganna er slæm, segja þeir a.m.k., og ég geri ráð fyrir að það sé mikið til í því þó það sé hins vegar venja líka, ég verð að segja það, að menn bera sig ekki vel þegar líður að kjarasamningum. Það kemur alltaf einkennilegur fjörkippur í menn þegar búið er að semja. Það er eins og menn eigi þá alltaf meira í buddunni. Ég minnist þess ekki síðan ég kom til vits og ára að það hafi ekki verið ákaflega neðarlega hljóðið í mönnum um það leyti sem það átti að semja. En það breytist oft um leið og staðið er upp.

Ég verð að segja að að einu leyti get ég verið sammála þeim þarna í Garðastrætinu og það er að ég hef ekki trú á kjarasamningum til þriggja eða fjögurra mánaða vegna þess að þeir þýða samninga a.m.k. til hausts. Við vitum að ef samið er t.d. fram að 1. maí verða engir frekari samningar gerðir fyrr en í haust. Ég held að það sé þess vegna betra að taka samninga til lengri tíma, en þá er alveg öruggt að það verður að opna pyngjuna betur. Það semur enginn við þessa ríkisstjórn upp á von og óvon. Það treystir henni enginn orðið, a.m.k. ekki launþegastéttin. Fólk gerir það bara ekki. Enginn veit upp á hverju hún tekur. Það duttu engum í hug, held ég, í fyrra þegar gengið var til kosninga þær efnahagsráðstafanir sem nú hefur verið gripið til. Það datt engum í hug, þegar hann hlustaði á orðin „Hverjir eiga Ísland?", að lagður yrði á matarskattur t.d. Ég skal ekki fara meira út í hann í bili. En ég held að engum hafi dottið það í hug.

Ég er sannfærð um að sú varfærni og sú tregða sem nú er á kjarasamningum byggist að miklu leyti á þessu vantrausti, þessu algera vantrausti og þessari vantrú sem er á ríkisstjórninni. Hún hefur á sínum tiltölulega stutta ferli gert hverja aðförina af annarri í vasa launafólks og ráðist verst á þá sem verst eru settir. Það verður fróðlegt að vita upp á hvað þeim verður boðið á morgun í viðræðum. Ætla þeir t.d. að bjóða láglaunafólki með undir 45 þús. kr. á mánuði — ég nefni ekki lægri tölu, ég skil ekki hvernig fólk á að geta lifað á lægra mánaðarkaupi — einhverja afkomutryggingu sem ríkisstjórnin ábyrgist? Ætla þeir að gera það? Eða ætla þeir að halda sig við þetta að bjóða fólki allt niður í 31 þús. kr. á mánuði í mánaðarlaun og kannski mest upp í rúmlega 40 þús. kr.?

Það er rétt að verkalýðshreyfingin stendur dálítið illa að vígi til að fara í hörku í kjarasamningum. Það er rétt að það er svo margur sem baslar við skuldir og á erfitt þar af leiðandi með að leggja frá sér verk og taka á. En ég er sannfærð um það, ég held það ekki, ég er sannfærð um það að það kemur að því að ef þeir sem stjórna málefnum þjóðarinnar ætla að halda áfram að haga sér eins og þessi stjórn hefur gert hlýtur fólk að taka hraustlega á móti. Það getur ekkert annað skeð. Það ræður engin ríkisstjórn á Íslandi við alþýðuhreyfinguna eða launþegahreyfinguna ef hún stendur saman og ef hún virkilega snýr sér að því að krefjast síns réttar.

Ég hef aldrei verið mikill talsmaður verkfalla. Ég fór í gegnum þau mörg á mínum yngri árum og ég veit alveg hvernig þau léku mig en samt sem áður er ég ekki alveg samþykk því þegar fólk talar um að þá hafi verið svo auðvelt að fara í verkfall. Við fórum í verkfall með vikukaupið í vasanum. Við vissum ekkert hve langt þetta verkfall varð. Það gat verið — ja, ég man eftir sex vikna verkfalli. Kaupmaðurinn á horninu hélt í manni lífinu á meðan þetta gekk yfir þrátt fyrir það að maður rifist við hann daglega og hefði ólík sjónarmið. Tíminn fram að verkfalli fór í það að borga skuldirnar. En í gegnum þessi verkföll vannst þó ýmislegt. Það vannst ýmislegt sem hefur orðið verkalýðnum að hvað mestu liði síðan. Og verkalýðurinn hann hélt sinni reisn.

Ég held að launþegahreyfingin íslenska hafi orðið mikla þörf fyrir að eignast aftur þá reisn sem hún hafði þá. Mér þykir nógu vænt um hana til að óska þess að hún eignist hana á ný.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það sem ég sagði áðan um efnahagsmálin. Þau eru í afskaplegri óvissu og ég er sannfærð um að fólk veit ekkert hvert ríkisstjórnin ætlar í þeim málum. Ég get reyndar bætt því við að þeir hafa ekki hugmynd um það sjálfir hvert þeir ætla. Öll þeirra verk núna upp á síðkastið hafa sýnt það að þeir vita kannski hvaðan þeir leggja upp, en þeir vita ekkert hvar þeir enda, hafa ekki hugmynd um það.

Ég var að lesa blöðin áður en ég fór hérna í þingið í morgun. Hvernig er með tollana? Hvernig er með skattana? Það kváðu vera einir þrír mánuðir í það að tollurinn komist í lag svo að hægt sé að vinna tollskjölin. Skatturinn fer einhvers staðar ofan í skúffu því að þar er ekkert komið í lag.

Það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er svo sannarlega ekki traustvekjandi. Ég sé að hæstv. fjmrh. brosir. Honum finnst svo gaman að þessu, sjálfsagt. En ég held að það séu margir, og þeim fer fjölgandi í hans eigin flokki þó að honum takist að heilaþvo þá stundum, sem hafa ekkert gaman af þessu, ekki neitt.