04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4251 í B-deild Alþingistíðinda. (2980)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Sigríður Lillý Baldursdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar til umræðu. Menn eru raunar ekki á eitt sáttir um að um stefnu sé að ræða. Sumir trúa því að fyrstu skref hæstv. ríkisstjórnar hafi verið mistök og framhaldið hljóti að verða á öðrum nótum. En ég hræðist að hér sé í raun um stefnu að ræða, stefnu þar sem réttur fjármagnsins og þeirra fáu sem það eiga er settur í forgang, en réttur fólksins settur í afgang.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á það áherslu að ríkissjóður verði hallalaus. Aðgerðir hennar eru við það miðaðar og það er vel í sjálfu sér, en aðferðin sem beitt er til að svo megi verða er ekki rétt. Á sama tíma og þeim sem ágætar tekjur hafa er enn léttur róðurinn með því að falla frá stighækkandi tekjuskatti nú þegar staðgreiðsla hans er tekin upp er seilst sérstaklega í léttar pyngjur láglaunafólks með því að leggja söluskatt á alla matvöru og hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert gert til að taka á þeirri hávaxtastefnu sem hefur verið við lýði undanfarin ár og gert mörg heimili og framleiðslufyrirtæki í landinu gjaldþrota.

Gerir hæstv. ríkisstjórn sér ekki grein fyrir því hvaðan fjármagnið í ríkiskassann er sprottið? Fjármagnið er sprottið frá vinnu fólksins í landinu og framleiðsla er grundvallaratriði hagkerfisins. Að fylla ríkiskassann á kostnað láglaunafólks og horfa fram hjá vanda framleiðslufyrirtækjanna er því skammgóður vermir.

Margt hefur verið rætt og ritað um 25% söluskattsálagningu hæstv. ríkisstjórnar á matvöru. Skattur þessi, sem nefndur hefur verið matarskattur, kemur misþungt niður. Verst bitnar hann á þeim sem hafa lægst launin eins og ég gat um áðan, en til að geta betur áttað sig á því ætla ég að setja upp dæmi.

Skoðum matarútgjöld tveggja fjögurra manna fjölskyldna og gerum ráð fyrir að þær hafi þurft 30 þús. kr. til matarkaupa í ágúst. Eftir áramótin þegar álagning matarskattsins var komin á að fullu hækkaði sú upphæð í 37 500 kr. Gerum nú ráð fyrir að tekjur annarrar fjölskyldunnar séu 150 000 kr. á mánuði. Hlutfall matarútgjalda af heildartekjum þessarar fjölskyldu fyrir álagningu söluskattsins var 20%, en eftir söluskatt á matvæli varð hlutfall matarkostnaðar af heildartekjum 25%. Gerum nú ráð fyrir að hin fjölskyldan hafi haft 50 000 kr. í tekjur. Fyrir áramótin var hlutfall matarkaupa af tekjum þessarar fjölskyldu 60%, en eftir matarskatt var hlutfallið orðið 75%. Hlutfall útgjalda vegna matarkaupa hækkaði um 5% hjá þeirri fjölskyldu sem hafði hærri tekjurnar, en um 15% hjá hinni fjölskyldunni sem hafði lægri tekjurnar með tilkomu matarskattsins. Þetta er fjölskyldustefna hæstv. ríkisstjórnar.

Ég veit að fátt er einfaldara en að setja upp sannfærandi töludæmi og fá hvað það fram sem viðkomandi þóknast. En mér er ómögulegt að koma auga á nokkra sanngirni með vangaveltum mínum um 25% söluskatt á matvæli. Skoðum aftur sömu fjölskyldurnar og í dæminu hér áðan, en í stað þess að skoða hlutfallslega hækkun matarútgjalda af tekjum, það lifir enginn á prósentunni í sjálfu sér, skulum við nú athuga hver afgangurinn af tekjum þessara fjölskyldna er þegar matarkaupunum sleppir, það fé sem þessar fjölskyldur eiga að nota í önnur nauðsynleg útgjöld, skatta og til kaupa á lágt tolluðum lúxusvarningi.

Sú fjölskylda sem hafði 150 000 kr. í tekjur hefur í afgang þegar hún er búinn að kaupa matinn sinn 120 000 fyrir matarskatt og 112 500 eftir matarskatt. Líklegast þurfum við ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessari fjölskyldu. Lítum á hina. Hún hefur 50 000 í tekjur þannig að fyrir matarskatt var afgangur tekna þegar matarkaupum sleppti 20 000 kr. Eftir matarskatt var afgangurinn einungis 12 500 kr.

Við í Kvennalistanum höfum verulegar áhyggjur af þessari fjölskyldu, en þær eru margar fjölskyldurnar í landinu sem eru líkt eða jafnvel enn verr settar. Hækkun barnabóta og lífeyrisgreiðslna er fjarri því að vega upp þá lífskjaraskerðingu sem matarskatturinn veldur og ég bið menn að athuga að fjölskyldurnar báðar sem ég nefndi áðan í dæmunum fá jafnháar barnabætur því að barnabætur eru ekki tekjutengdar. Að auki er fjöldi láglaunafólks sem nýtur þessara bóta í engu.

Matarskatturinn er stórháskaleg tilraun, tilraun gerð á lifandi fólki, tilraun til að fækka möguleikum til undandráttar frá söluskatti, er okkur sagt. Tilraun þessi er verulega keimlík einni sem ég hef heyrt af. Þá tilraun gerði bóndi nokkur, að því er sagt er, á hrossi sínu. Hún var í því fólgin að smáminnka fóðrið við hrossið dag frá degi og freista þess að það vendist skortinum. Tilraunin gekk vel framan af, en því miður dó hesturinn daginn áður en fóðurskammturinn varð að engu. Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til að hætta nú tilraun sinni því mér segir svo hugur að hver dagur geti nú verið hinn síðasti. Skammturinn, sem stórum hluta þjóðarinnar er nú ætlað að lifa af, er að verða eða jafnvel er orðinn að engu. Þessu til áréttingar langar mig, með leyfi forseta, að lesa upp ályktun sem var samþykkt á fundi trúnaðarráðs verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði 28. jan. sl. Ályktunin er svohljóðandi:

„Fundur í trúnaðarráði verkamannafélagsins Hlífar mótmælir harðlega hvers konar skattálagningu á matvöru þar sem slík skattlagning hlýtur óhjákvæmilega að koma harðast niður á fólki með lágar tekjur. Fundurinn bendir á að nú er svo komið að dagvinnulaun verkamanns duga ekki lengur fyrir matarútgjöldum. Byrjunarlaun eru 27 577 kr. á mánuði, en útgjöld vísitölufjölskyldunnar til matarkaupa í janúar sl. voru 28 200 kr. Matarútgjöldin hafa hækkað um 5400 kr. á mánuði frá því í júlí sl. Á sama tíma hafa lágmarkslaunin hækkað um 2100 kr. Fundurinn skorar á alþm. að kynna sér betur launakjör verkafólks og fella niður matarskattinn nema þeir ætli sér vísvitandi í hungurstríð við lágtekjufólkið í landinu.

Þá lýsir fundurinn fyllsta stuðningi við Neytendasamtökin og baráttu þeirra gegn okri og óeðlilegum viðskiptaháttum.“

Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn hugsað sér að bregðast við tilmælum sem þessum og hver eru skilaboð hv. stjórnarþm. til láglaunafólksins í landinu? Einn þeirra, hv. 17. þm. Reykv. Geir Haarde, sá sérstaka ástæðu til þess að nota tækifærið í sjónvarpsþætti á dögunum. Hann benti viðstöddum og sjónvarpsáhorfendum á að gera sér grein fyrir því að ekki væri hægt að hækka laun hinna lægst launuðu nema til kæmu auknar tekjur þjóðarinnar og við því væri ekki að búast næstu missirin. Ævintýri á borð við þetta eru æ ofan í æ boðskapur þeirra sem þykjast vita til þeirra karla og fjölmörgu kvenna sem lægst launin hafa.

Ég bið menn að gera sér grein fyrir því að þjóðartekjurnar eru nægar. Kakan er nógu stór til að metta alla. Það þarf einungis að skipta henni með öðrum hætti. Ástandið hér er nú þannig að það er látið óátalið að sumir taki mettir hverja sneiðina á fætur annarri, eyði og spenni þannig að líkja má við það þegar hástéttin í Róm kastaði upp matnum svo að fyndist magarými fyrir einn bitann enn meðan stór hópur þjóðarinnar svalt. Þetta var upphaf hnignunar Rómaveldis og bið ég hæstv. ríkisstjórn að leiða að því hugann.

Fróðlegt er að rifja það upp í þessu sambandi að á þessum tíma í Rómaveldi byggðu menn glæsihallir og mikla minnisvarða. Einnig þetta er að gerast í höfuðborginni þessa dagana.

Í stjórnarmyndunarviðræðum Kvennalistans sl. vor gerðum við að úrslitaatriði að lágmarkslaun í landinu skyldu hækkuð og miðuð við framfærslu. Þá var okkur bent á að í fyrsta lagi væri ekki hægt að meta lágmarksþörf einstaklings eða fjölskyldna og í öðru lagi giltu aldagömul lögmál um innbyrðis hlutföll launa, lögmál sem giltu í Mesópótamíu til forna eigi við hér í dag, hafi í raun ætíð gilt og muni ætíð gilda. Því væri fráleitt að ætla að hækka lægstu launin, slík hækkun mundi skila sér upp allan launastigann. Fólkið sem næst lægstu launin hafi heimti sína hækkun og svo koll af kolli.

En hvað er nú að gerast í kjarasamningum? Frá Vestfjörðum berast þau tíðindi að samið hafi verið um heildarbónus í frystihúsunum. Allir sem í húsunum vinna fá jafnháa bónusgreiðslu í krónum talið allt frá móttöku og þar til fiskurinn er kominn í frysti. Þetta þýðir auðvitað að þeir sem næstlægst kaupið höfðu sætta sig við að þær sem höfðu lægsta kaupið hækki og allir fái sömu laun. Vissulega er hækkunin smánarleg. En þetta tekur af allan vafa um að lögmálið sem hagfræðingarnir sameinuðust um að fullvissa þjóðina um að væri lögmál er ekkert lögmál. Alla vega er það ekki láglaunafólkið sem kemur launaskriðunni af stað. Það skyldi þó ekki vera að þeir sem enn hærra kaup hafa standi á bak við og ýti við fyrstu steinunum, kannski til þess að viðhalda því sem þeir kalla lögmál sem þá er ekki annað en val þeirra sem valdið hafa á því launakerfi sem þeim þóknast.

Mesti og besti auður hvers lands er fólkið sjálft sem lifir þar, hugsar og starfar. Þetta er gullvæg setning fengin frá skáldinu Einari Benediktssyni. Má ég biðja um ríkisstjórn sem hefur hana að leiðarljósi. Við kvennalistakonur krefjumst ábyrgrar ríkisstjórnar, stjórnar sem vill axla ábyrgð. Og ég bendi hv. Alþingi á að slík stjórn þarf ekki að vera í meginatriðum gráteinótt. Hún gæti jafnvel eingöngu verið með mjúkum línum. Stjórn sem tæki allar sínar ákvarðanir út frá þorra fólks og bæri á höndum sér þá sem bera minnst úr býtum.