04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4275 í B-deild Alþingistíðinda. (2984)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa hafið þessa umræðu um efnahags- og kjaramál. Það var vissulega vel til fundið. Hann valdi líka rétt þegar hann valdi að vitna í nýlega greinargerð Þjóðhagsstofnunar þar sem boðað er að nú sé brýnast að koma á betra samræmi milli þjóðarútgjalda og þjóðartekna en verið hefur. Þetta var vissulega vel til fundið því það er mála sannast að eftir nokkur óvenjugjöful ár og mikla aukningu kaupmáttar er nú við verulegan jafnvægisvanda að etja í íslenskum efnahagsmálum því góðærinu fylgdi mikill knýr til þess að eyða og fjárfesta og knýrinn dettur ekki niður um leið og vaxtarskilyrði framleiðslunnar breytast til hins lakara. Þetta er auðvitað kjarni vandans.

Það kom upp náttúrufræðingurinn í hv. málshefjanda þegar hann valdi að vitna til forsögulegra skepna í sínu máli og sagði það til marks um hvað það borgaði sig illa að hugsa hægt að dínósárinn hefði orðið að lúta í lægra haldi fyrir týrannósárinum og seinna samkvæmt þróunarkenningunni fyrir öðrum skepnum yfirleitt. Ég veit ekki hverja á að velja í hlutverkin í þessu líffræðilega leikriti hv. þm. Ef hann líkir sjálfum sér við týrannósárusinn, þá dó hann nú líka út. En ég er ekki þar með að segja að ríkisstjórnin taki að sér hitt hlutverkið. Það gerir hún alls ekki.

Það er nefnilega kjarni málsins að það er ekki nóg að bregðast skjótt við, það er ekki nóg að hugsa hratt. Það þarf líka að hugsa rétt og bregðast rétt við. Það er kannski það sem hv. þm. hefur vanrækt því eftir hans skynsamlegu greiningu á eðli vandans dró hann ekki réttar ályktanir af henni því hann virtist helst vera að mæla með lægri sköttum, lægra gengi, lægri vöxtum. Allt þetta hlyti að stofna því tæpa jafnvægi, sem við þó erum að glíma við að halda, í mjög mikla hættu. Þetta er einmitt vandinn því að markmiðin eru eins og oftast nær áður einföld og skýr fyrir efnahagsstefnu þessarar stjórnar. Þau eru að ná niður verðbólgunni, að draga úr viðskiptahalla gagnvart útlöndum, að tryggja afkomu útflutningsatvinnuveganna, að bæta hag þeirra lægst launuðu og sem minnst hafa úr býtum borið á síðustu velgengnisárum.

Leiðin að þessu marki er hins vegar vandrötuð. Því miður eru horfur á að þjóðartekjur á þessu ári verði í besta falli þær sömu og þær voru í fyrra. Það er því ekki um annað að ræða en að veita þjóðarútgjöldunum strangt aðhald. Ríkisstjórnin hefur vissulega lagt sitt af mörkum með hallalausum fjárlögum fyrir þetta ár og með aðhaldi í peningamálum undanfarið missiri. Það er ekki nokkur leið að halda því fram að hún hafi ekki hafst að, eins og glöggt kom fram í máli fjmrh. Það er hið mesta öfugmæli. Hitt er svo annað að þessar aðgerðir hafa að sjálfsögðu bakað henni nokkrar óvinsældir um hríð, en þegar frá líður mun henni verða þetta þakkað. En með því að ríkisstjórnin hefur með þessu lagt sitt af mörkum að sinni er nú komið að aðilum vinnumarkaðarins að leggja fram sinn skerf. Það liggur í augum uppi að kröfur um almenna aukningu kaupmáttar eru út í hött eins og nú horfir í þjóðarbúskapnum. En á hinn bóginn er ákaflega brýnt að bæta kjör hinna lægst launuðu. Tilraunin sem gerð var til að hækka þetta kaup, þ.e. hjá hinum tekjulægstu, sem gerð var í desembermánuði árið 1986, að hækka þetta sérstaklega umfram önnur laun fór því miður að hluta til út um þúfur vegna þess að aðhald skorti í ríkisfjármálum og peningamálum í aðdraganda kosninganna í apríl í fyrra og fyrst að þeim loknum. En þótt þannig megi að nokkru leyti saka slaka efnahagsstjórn um það hvernig fór fyrir síðustu samningunum eiga aðilar vinnumarkaðarins einnig þar sína sök. Nú geta þeir hins vegar alls ekki bent á aðhaldsleysi í ríkisfjármálum og peningamálum því að slíku er ekki til að dreifa.

Samningarnir, sem gerðir hafa verið á Vestfjörðum, eru lofsverð tilraun til að leysa kjaramálin við þær aðstæður sem þar ríkja. Þeir geta að vísu ekki orðið nein allsherjarfyrirmynd, en þeir lýsa því hugarfari, þeirri skynsemi sem þarf til að ná farsælli lendingu í kjaramálum þessa árs. Það þurfa fleiri hins vegar að sýna sínar lausnir áður en fram er haldið. Þegar slíkir samningar eru í sjónmáli mun ríkisstjórnin geta tekið af öll tvímæli um starfskjör atvinnuvega og beita frumkvæði sínu til að stuðla að lækkun vaxta. En ýmsir hafa einmitt gerst til þess að nefna vaxtamálin, málshefjandi meðal annarra, og ég vildi koma að þeim hér á eftir, en víkja fyrst nokkrum orðum að gengisstefnunni.

Það var rétt hjá málshefjanda og öðrum, sem rætt hafa gengismálin, að það er ekki skynsamlegt að hafa þar uppi stórar yfirlýsingar. Gengisstefna þessarar stjórnar hefur það að meginmarkmiði að skapa almennan stöðugleika í efnahagsmálum, vill gefa traustari viðmiðun bæði fyrir viðskiptalegar ákvarðanir atvinnulífsins og fyrir tekjuþróunina. Sú hækkun raungengis, sem hefur hér orðið á sl. ári og reyndar heldur enn áfram, er bein afleiðing af því að rauntekjur almennings hafa hækkað þar sem launahækkanir hafa farið langt umfram verðbólgu. Ef menn hugsa sér að lækka raungengið sem eitthvert úrræði í vanda atvinnuveganna er nauðsynlegt að þeir geri sér það ljóst að slík breyting er óframkvæmanleg nema með því að samtímis eigi sér stað raunlækkun á tekjum almennings. Lækkun gengisins, sem hefði eingöngu þau áhrif að peningalaun hækkuðu jafnharðan að sama skapi í kjölfar hennar, mundi í engu bæta afkomu atvinnurekstrarins í landinu heldur aðeins hafa í för með sér meiri verðbólgu með öllum þeim vandamálum sem henni fylgja. Við þennan vanda, sem er af innlendum rótum runninn, hefur svo bæst óhagstæð þróun í erlendum gjaldeyrismálum á erlendum gengismörkuðum þar sem dollarinn hefur lækkað verulega í samanburði við myntir Evrópulanda og Japans. Þetta hefur auðvitað valdið miklum vandræðum í mikilvægum útflutningsgreinum sem eru háðar dollaramörkuðunum og jafnframt valdið hækkun innflutningsverðlags frá Evrópu og Japan sem þyngst vega í okkar innflutningi. Sem betur fer eru nú nokkrar horfur á því að þessi óheillaþróun hafi snúist við um sinn. Ég ætla þó engu um það að spá hvernig þetta endist. Gengi dollarans virðist hafa komist í lágmark gagnvart íslensku krónunni um sl. áramót, en þá var kaupgengi hans hér á landi skráð á 35,60 kr. Síðan hefur hann hækkað verulega og var í morgun skráður á 37,17 kr. eða nærri 4,5% hærri en var um áramót.

Það er hins vegar rétt að benda á að þótt lækkun á dollara undanfarin tvö ár hafi reynst Íslendingum mjög óhagstæð hefur verulega dregið úr þeim áhrifum vegna þess að okkur hefur tekist á þessum árum að auka verulega útflutning til hágengissvæðanna, bæði í Evrópu og Asíu, og vinna þannig upp nokkurn hluta tekjutapsins í dollurum. Það var skynsamleg ábending hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að menn skyldu fara hæ t í yfirlýsingar í gengismálum við þessar aðstæður. Ég tel að þegar við lítum lengra fram eigum við að huga að því að tengja gengi íslensku krónunnar fastar við erlent myntsvæði, annaðhvort Evrópumyntsvæðið eða stærri blöndu af gjaldmiðlum. Við skyldum jafnan hafa það hugfast að gengið er og verður akkeri fyrir stöðugt verðlag í þessu landi.

Þá sný ég mér nokkuð að vaxtamálunum sem mjög hafa verið til umræðu. Þá er nauðsynlegt að menn geri sér ljósa grein fyrir því hvað valdið hafi þeirri hækkun nafnvaxta og raunvaxta sem orðið hefur hér á landi frá miðju síðasta ári. Þessi hækkun á sér margvíslegar orsakir.

Í fyrsta lagi hefur verðbólga farið vaxandi á þessu tímabili og um leið, því miður, óvissa um framvindu efnahagsmála bæði hið ytra og hið innra. Nýlegar skoðanakannanir Hagvangs, sem hann hefur gert fyrir Seðlabankann, sýna að nú býst almenningur og fyrirtæki við því, að verðbólga verði á þessu ári, 1988, um eða yfir 30% að meðaltali, en í desember 1986, fyrir rúmu ári, bjuggust menn við helmingi lægri verðbólgu á næstliðnu ári. Þetta er hugarfar sem við verðum að reyna að breyta. Það er á þessu sem við berum ábyrgð sameiginlega, ríkisstjórn og stjórnarandstaða.

Í öðru lagi hefur svo samkeppnin á markaðnum um fjármagnið aukist mikið að undanförnu, bæði vegna aukinnar lánsfjáröflunar opinberra aðila vegna hallareksturs í fyrra og óhjákvæmilegs aðhalds í peningamálum.

Í þriðja lagi hefur svo hækkun raunvaxta innlánsstofnana falið í sér jöfnun kjara við hinn frjálsa verðbréfamarkað, en þar höfðu raunvextir farið hækkandi um sinn, en þeir höfðu alls ekki hækkað á sl. ári heldur fóru þeir fremur lækkandi. Það er nauðsynlegt að menn geri sér ljóst að fram til nóvember 1986 greiddi besti lántakandinn á markaðnum, ríkið, hæstu vextina á hinum opinberlega skráða markaði. Einstaklingar, sem tóku lán í bönkum, greiddu mun lægri vexti en ríkið. Þetta var fullkomlega óeðlilegt ástand. Nú hefur vaxtarófið rést við. Því miður hefur það gerst með verulegri meðalhækkun vaxta, en þetta var samt nauðsynleg breyting til að hreinsa til á markaðnum þannig að hann geti starfað eðlilega síðar og lækkað með bættum stöðugleika í efnahagsmálum.

Ég segi það hiklaust að tilraunir til að lækka vexti við núverandi óvissuskilyrði með einföldum yfirlýsingum stjórnvalda mundu hafa mjög neikvæð áhrif á peningalegan sparnað, sérstaklega í innlánsstofnunum, og auka þannig á eftirspurnarspennu og innflutning. Það er enginn vafi á því að jafnframt hafa hinir háu vextir, sem menn gera sér tíðrætt um, dregið úr lánsfjáreftirspurn, a.m.k. miðað við það sem ella mundi vera, en óttinn við vaxandi verðbólgu hefur ýtt mjög undir fjárfestingu. Við þurfum betri upplýsingar um lánsskilmála, betri skilning fólks og fyrirtækja á því hvað felist í skilmálum. Raunvaxtaskilningurinn síast smám saman inn. Við þurfum betri og betur virkan fjármagnsmarkað en ekki lögþvinganir. Það er enginn vafi á því að mikilvægasta skilyrðið fyrir því að raunvextir geti farið lækkandi er aukinn stöðugleiki í efnahagsmálum og þá sérstaklega raunhæfir kjarasamningar til alllangs tíma. Tilraun til að grípa nú inn í vaxtaþróunina með stjórnvaldsákvörðun við skilyrði fullkominnar óvissu í kjaramálum væri dæmd til að mistakast.

Ég minni líka á að það er ekki eins og vaxtaákvörðunarvaldið sé í höndum einhverra óvalinna manna. Bankaráð ríkisbankanna t.d. eru í reynd sá aðili sem ákveður vextina að réttum lögum, þeim lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem samþykkt voru 1985. Það er þess vegna næsta kyndugt að hlusta hér á formann bankaráðs eins stærsta ríkisbankans, Búnaðarbankans, berja sér yfir háum vöxtum. Hann hefur ákveðið þá sjálfur. Hann hefur líka talað hér af miklum skilningi á kjörum hinna lægst launuðu. Ég er honum sammála um það að við þurfum að bæta kjör þessa fólks. Hann hefur sýnt að hann er svo mikill jafnréttismaður að hann hefur enn betri skilning á kjörum hinna hæst launuðu því hann hefur sem formaður í bankaráðinu hækkað kaupið hjá þeim sem hæst hafa launin í hinu opinbera kerfi. Þannig er víðsýnið fyrir norðan. Þannig er skilningurinn á kjörum fólksins í landinu.

Ég get ekki látið hjá líða að segja eitthvað um þessa endalausu hræsni sem hér veður uppi í þingsölum. (GuðmÁ: Er ekki ráð að kalla manninn í salinn?) Hann verður að lesa þetta í þingtíðindunum.

En ég vildi að lokum segja um vextina áður en ég hverf að langtímasjónarmiðum um ákvörðun þeirra að um leið og skynsamlegir kjarasamningar eru í sjónmáli mun ríkisstjórnin ekki hika við að beita sér af alefli til þess að vextirnir geti lækkað samstiga verðbólgunni. Það er okkar stefna í vaxtamálum. Og lækkun vaxta er vissulega verðugt og brýnt viðfangsefni. En menn verða að halda ró sinni. Vextirnir verða ekki hrópaðir niður, hvorki úr þessari pontu né nokkurri annarri. Að baki háum vöxtum liggja efnahagslegar forsendur sem verður að breyta eigi vextirnir að lækka. Háir raunvextir stafa einfaldlega af því að framboð á lánsfé er lítið í samanburði við eftirspurn eftir lánum. Nafnvextir eru hins vegar ekkert annað en raunvextirnir að viðbættri verðbólgu. Það eru fyrst og fremst auðvitað raunvextirnir sem skipta máli og vænlegasta leiðin til að lækka þá er þessi einfalda en erfiða leið að koma á betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á lánámarkaðnum. Allar fullyrðingar, sem hér eru síendurteknar þess efnis að lögmál hagfræðinnar gildi ekki hér á landi, eiga ekki við nein rök að styðjast. Það er t.d. engum blöðum um það að fletta að lækkun raunvaxta mundi auka eftirspurn eftir lánsfé. Menn þurfa ekki annað en líta á ásóknina eftir lánum úr íbúðalánasjóðunum til að sannfærast um þennan einfalda hlut. Þá leikur heldur enginn vafi á að verðtrygging sparifjár og hækkun raunvaxta hefur leitt til aukins sparnaðar á undanförnum árum í okkar peningastofnunum.

Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að á undanförnum vikum og mánuðum hefur komist á betra jafnvægi milli innlána og útlána í mikilvægum lánastofnunum. Við höfum líka þær fréttir af hinum nýju stofnunum á lánsmarkaðnum hér á landi að þar sé að komast á betri jöfnuður milli eftirsóknar eftir lánsfé og framboðs á því. Afnám verðtryggingar og lækkun raunvaxta, t.d. að tillögu hv. 3. þm. Suðurl. sem hér var rædd í gær, en við þá umræðu gat ég því miður ekki verið nærstaddur vegna þess að ég var í nokkrum skilningi í fangelsi, þ.e. ég var að ræða fangelsismál í Ed. — slík tillaga hlyti að leiða til þess að tekin yrði upp að nýju víðtæk skömmtun á takmörkuðu lánsfé. Slíkt yrði engum til hagsbóta nema þeim fáu sem sérstakrar velvildar njóta í lánastofnunum landsins.

Ég vil leyfa mér að hrósa hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hóf þessa umræðu hér í dag, fyrir að hafa áttað sig á því að málið er flóknara en svo að vextirnir verði með góðu móti lækkaðir með valdboði einu saman. Hann sagði við umræðurnar í gær sem rétt er — því miður heyrði ég bara síðustu fimm mínúturnar af þessum umræðum — að lækkun vaxta verði ekki ákveðin með lögum frekar en verðbólgan verði bönnuð með lögum. Það þyrfti til samræmdar aðgerðir í efnahagsmálum til þess að ná vöxtunum niður. Og það er alveg rétt. Það þarf til samræmdar ráðstafanir af því tagi sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir, er að beita sér fyrir og mun beita sér fyrir.

Ærið margt af því sem sagt hefur verið um vexti að undanförnu virðist mér fremur til þess ætlað að koma mönnum í pláss í fréttatímum útvarps, sjónvarps og blaða en til að stuðla að skynsamlegri umræðu um vaxtamál. Þær vaxtatölur sem iðulega hafa heyrst í þessum umræðum eru fjarri öllu lagi, fjarri öllum sanni. Almennt talað eru raunvextir hér á landi nú á bilinu 3,5–12% eftir því um hvernig lánsviðskipti er að ræða, en ekki 20–30% eða þaðan af hærri tölur eins og oft eru nefndar. Það er vissulega rétt að á jaðri viðskiptalífsins, þar sem menn hafa lent í vandræðum, ekki vegna hárra vaxta heldur vegna þess að þeir hafa lagt í vafasaman rekstur þar sem tekjur ná ekki gjöldum eða steypt sér út í framkvæmdir án fyrirhyggju, hafa menn lent í vandræðum og neyðst til að taka lán með ofurkjörum. Það er oft sjálfskaparvíti og þau eru verst.

Að því marki sem innlent lánsfé er hér á ferðinni eru raunvextir svipaðir og gerast í nálægum löndum. Hins vegar verðum við líka að gæta að því að stór hluti þess lánsfjármagns sem er hjá íslenskum fyrirtækjum, sérstaklega þeim sem eru í útflutningsstarfseminni, er erlent að uppruna og er fengið að láni á kjörum sem tíðkast á erlendum fjármagnsmarkaði. Hér hefur áður verið talað um að íslenskt atvinnulíf ætti rétt á því að fá fjármagnið á alheimsverði. Það var m. a. hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson sem lýsti eftir þessu. Þetta er reyndar svona. Langstærstur hluti fjármagnsins er fenginn á þennan hátt. Og raunar er það svo að raunvextir á þessum gengistryggðu lánum, sem bera venjulega erlenda nafnvexti, eru stórlega neikvæðir þegar svo háttar eins og á sl. ári og háttar reyndar enn, því miður, að innlent verðlag hækkar meira en erlendis og genginu er haldið föstu. Þótt almennt séu þannig raunvextir af lánum síst hærri hér á landi en erlendis verður því ekki neitað að þeir eru hærri en áður var og hærri en við verður búið til lengdar. Áframhaldandi fjárfesting í þjóðhagslega arðbærum framkvæmdum og ýmis rekstur eru undir því komin að raunvextirnir geti lækkað. Jafnframt er sú tilfærsla á fjármunum frá skuldurum til lánardrottna sem hlýst af óæskilega háum raunvöxtum óþolandi þegar til lengdar lætur. Hins vegar verða raunvextirnir áfram að haldast nægilega háir til þess að sparnaðarviðleitni fólks sé ekki slævð eða dregið úr aðhaldi að fjárfestingu, þ.e. að menn neyðist til að velja það eitt sem rís undir raunverulegum vöxtum. En ákvörðun vaxta með valdboði mun engri góðri lukku stýra. Við höfum af því langa reynslu að skömmtun á fjármagni í verðbólgu er forskrift að sóun fjármuna og misskiptingu auðs og valda í þessu landi.

En hvernig á þá að lækka vextina? Til skamms tíma litið verður að leggja höfuðáherslu á að koma á betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum en verið hefur.

Eins og nú horfir um þjóðartekjur á þessu ári verðum við að veita þjóðarútgjöldunum ýtrasta aðhald. Hallalaus fjárlög voru fyrsta skrefið í þessa átt. Frestun á ýmsum meiri háttar framkvæmdum kemur einnig til greina. Ég tek undir það með hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh. að nú sé þörf á því að fara vandlega yfir áform opinberra aðila og allra þeirra sem hið opinbera getur haft áhrif á um framkvæmdir á þessu og næstu árum. Um leið og í sjónmáli eru samningar um starfskjör almennings og fyrirtækja þá og þá fyrst er ástæða til þess fyrir stjórnvöld að beita stefnu til lækkunar vaxta með ákveðnu frumkvæði sínu. En það er hins vegar fjarstæðukennt að tala í sömu andránni, eins og margir gera, um aðhald í peningamálum og lækkun vaxta. Hvoru tveggja verður ekki bæði haldið og sleppt, en það er líka nauðsynlegt að gera margvíslegar umbætur á fjármagnsmarkaðnum. Annars vegar verðum við að setja lög um fjármagns- og lánastarfsemi utan bankakerfisins, hinn svonefnda gráa markað, þannig að sambærilegar reglur gildi um skylda starfsemi. Hins vegar, og það er enn mikilvægara verkefni, verðum við að endurskipuleggja bankakerfið.

Á vegum ríkisstjórnarinnar er nú verið að ljúka smíði á frv. um fjármagnsmarkaðinn utan bankanna. Þessi frv. eru samin í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar og voru reyndar boðuð með stefnuræðu forsrh. Í þessum frv. verða ákvæði um starfsemi verðbréfasjóða og fjármögnunarfyrirtækja, um afborganaviðskipti og greiðslukort. Þessi frv. munu m.a. fela í sér tillögur um að þessi nýju fyrirtæki hafi í fyrsta lagi lágmarksstofnfé, í öðru lagi að krafist verði nafnskráningar allra þessara viðskipta, í þriðja lagi að skattskylda þeirra verði samræmd, í fjórða lagi að áskilið verði starfsleyfi, í fimmta lagi að reiknings- og upplýsingaskylda til bankaeftirlitsins verði skýrt áskilin, að þessum fyrirtækjum verði í sjötta lagi settar lausafjárkvaðir og í sjöunda lagi að tryggt verði að óháðar ákvarðanir séu teknar um kaup og sölu verðbréfa þessara sjóða. Þessari löggjöf er ætlað að tryggja hagsmuni viðskiptavinanna og betri hagstjórn í landinu. En þessi frv. eru ekki til þess hugsuð að kæfa í fæðingu nýjabrum í okkar atvinnulífi því það er fjármagnsmarkaðurinn vissulega.

Þá sný ég mér með örfáum orðum að íslenska bankakerfinu. Það er barn síns tíma, en sá tími var því miður ekki hollur uppvexti peningastofnana. Íslenska bankakerfið er því óhagkvæmt sem kemur fram í því að vaxtamunur virðist almennt vera meiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Að þessu vék hv. 4. þm. Norðurl. e. í sínu máli. Ég tel að með minni afskiptum ríkisins af rekstri bankanna, með samruna banka og sparisjóða í færri og öflugri lánastofnanir en nú eru, sé von til þess að vaxtamunur geti farið lækkandi. Það er raunhæfasta aðferðin til þess að lækka vextina. En róttækasta leiðin til þess að tryggja samkeppni í slíku bankakerfi og þar með aðhald að vaxtamun er að leyfa erlendum fjármálastofnunum starfsemi hér á landi, ýmist gegnum umboðsskrifstofur eða með þátttöku í íslenskum hlutafjárbönkum. Þetta er í rauninni eina skynsamlega leiðin til þess að gera hvort tveggja í senn: að bæta ávöxtun sparifjár í bönkum og stuðla að lækkun útlánsvaxta.

Ábending formanns Alþb., sem nýlega hefur fram komið um það að verðgildi sparifjár á óverðtryggðum reikningum hafi rýrnað á síðasta ári, var næsta þörf. Hún var nú reyndar eingöngu í því fólgin að benda á það að tvisvar sinnum tveir væru fjórir og að Seðlabankinn hefði staðfest það. Það er hins vegar um tómt mál að tala að hækka vexti á innlánum og lækka þá á útlánum nema til komi róttæk endurskipulagning á íslenska bankakerfinu. Ég tel það meðal allra brýnustu verkefna þessarar ríkisstjórnar að vinna að slíkri endurskipulagningu og mér þykir gott til þess að hugsa að eiga liðsmenn í röðum stjórnarandstæðinga, m.a. hv. málshefjanda.

Allt sem ég hef nú rakið er að því marki stefnt að koma á betra búskaparlagi í landinu, að draga úr þeim einkennum óráðsíu og þenslu sem vekja hér jafnan verðbólgu. Hv. 18. þm. Reykv. óskaði sér þess í sinni jómfrúrræðu hér áðan, sem var haglega samin, en þó ekki um kjarna málsins. (AG: Það var ekki jómfrúrræða.) Jú, víst var hún það hjá hv. 18. þm. Reykv. Þú passar þitt fólk ekki nógu vel. Þín er hin 16. Hv. 18. þm. Reykv. óskaði sér þess í sinni jómfrúrræðu, sem var fróm og falleg ósk, að þetta land fengi ábyrga ríkisstjórn. Það vill nú svo vel til að þetta land hefur slíka ríkisstjórn. En ég vil leyfa mér að ljúka máli mínu með því að óska mér þess fyrir landsins hönd að það eignist líka jafnábyrga stjórnarandstöðu.