04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (2988)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Málmfríður Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu um efnahags- og kjaramál er rétt að minnast þess að þrátt fyrir allt það tal um slæma afkomu þjóðarbúsins, sem heyrst hefur að undanförnu, erum við langt frá því að vera illa sett hvað ytri aðstæður varðar þó að þær séu e.t.v. ekki eins hagstæðar og á síðasta ári. Sjávarafli hefur aukist hin seinni ár og aldrei verið meiri útflutningstekjur en á síðasta ári. Við höfum ekki orðið fyrir neinum meiri háttar áföllum. Við höfum búið við einstakt góðæri. Og þó að einhver samdráttur verði nú á tekjum er hagur okkar betri en oft áður. Hvað er þá að? Þar kemur ýmislegt til.

Þeir sem ráða ferðinni í efnahags- og atvinnumálum okkar hafa sýnt ábyrgðarleysi. Þeir hafa magnað upp verðbólgu með gegndarlausum innflutningi og offjárfestingu og margfaldað launabilið í landinu með þvílíku launaskriði að meðaltalskaupmáttur hefur sjaldan verið hærri þó að fjöldi launafólks hafi tæpast fyrir nauðþurftum. En ráðamenn einblína sífellt á meðaltalið, sem ekki nokkur lifandi maður tekur upp úr umslaginu sínu mánaðarlega, og þeir telja að allt sé harla gott.

Um aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í peningamálum og áhrif þeirra má ýmislegt segja. Þær áttu að miða að því að auka sparnað og draga úr þenslu og fjárfestingu, en lítið bólar á því að svo muni verða, a.m.k. ef litið er til þess að Reykjavíkurborg hefur engan veginn undan að úthluta lóðum til húsbygginga.

Eitt er það sem enginn hefur vikið að í þessari umræðu en er afleiðing þenslunnar sem aðallega birtist hér á suðvesturhorninu. Vita menn hvað það kostar núna að leigja sér húsnæði? Vita menn að þriggja herbergja íbúð fæst nú ekki leigð í Reykjavík fyrir minna en 32–40 þús. kr. á mánuði? Það er hvergi tekið með þegar reiknað er hvílík blessuð tekjuaukning hefur fallið mönnum í skaut í kjölfar efnahagsráðstafana ríkisstjórnarinnar. Það er líka vitað mál að helst fæst ekki íbúð nema að borga 3–6 mánuði fram í tímann. Og hvernig á lágtekjufólk að komast af sem ekki á húsnæði? Það skyldi ekki vera að húseigendur hefðu möguleika á að skjóta leigutekjum undan skatti. Og það skyldi ekki vera að þeir sem eru að greiða niður skuldir vegna húsbygginga greiði mánaðarlega í vexti áþekkar upphæðir og það sem ég nefndi um húsaleiguna.

Háir vextir áttu að vera eitt hagstjórnartækið til að minnka eftirspurn eftir lánsfé og auka sparnað. En sú hefur ekki orðið raunin. Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar er aftur á móti að sliga atvinnureksturinn í landinu og er öllum þeim þung í skauti sem skuldabyrðar bera og þar á ég ekki síst við þá sem eru að kikna undan skuldum vegna húsbygginga. Þrátt fyrir allar hagfræðikenningar hefur aldrei sannast að háir vextir leiddu til sparnaðar. Og um þessa vaxtastefnu yfirleitt vísa ég til umræðna í gær þar sem hún var harðlega gagnrýnd af stjórnarliðum jafnt sem stjórnarandstæðingum og flestir töldu að hún ýtti undir verðbólguna sem nú er að aukast óhugnanlega. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er að lenda í ógöngum. Það er sama hvernig reiknað er.

Undirstöðuatvinnuvegirnir verða að hafa skilyrði til að greiða mannsæmandi laun og fyrsta og síðasta skilyrðið til þess að þeir hafi það er að lækka verðbólguna. Ríkið á að fara sér hægt í samkeppni á lánsfjármarkaðnum. Verðlagi verður að halda í skefjum, ekki láta það æða upp eins og nú er greinilega að gerast. Það verður að hafa hemil á þenslunni og viðskiptahallanum og það verður að hamla móti hinum gegndarlausa innflutningi og koma jafnvægi á utanríkisviðskiptin. Vanhugsaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa blásið að verðbólgunni og valda því að nú krefst verkafólk leiðréttingar á kjörum sínum. Halda menn að aðgerðir eins og matarskatturinn verði ekki til þess að auka launakröfur? Veit hæstv. fjmrh. að mánaðarlegar barnabætur með þrem börnum nægja varla til að greiða dagvist fyrir eitt barn? Halda menn yfirleitt að fólk geti lifað einhverju lífi á launum sem eru á bilinu 33–40 þús. ?

Hæstv. fjmrh. beindi áðan þeirri fsp. til Kvennalistans hvað væri lúxus. Ég get upplýst hann um að þegar blessun matarskattsins hefur fallið á það sem enginn maður getur án verið, daglegt fæði, og fólk hefur reitt af höndum greiðslu fyrir það er svo lítið eftir af launum þess, hvernig svo sem spekingar hagræða því með reiknikúnstum, að flest annað sem menn þurfa er orðið lúxus. Ein af orsökunum til hinnar margumtöluðu upplausnar fjölskyldunnar í nútímaþjóðfélagi er sú að það kostar óhóflegt vinnuálag að framfleyta henni. Við höfum nóg til skiptanna í þessu þjóðfélagi til að allir hafi nóg á milli handanna, en skiptingin er ekki réttlát. Það verður að tryggja að lægstu laun nægi til framfærslu og tryggja atvinnuvegunum skilyrði til að geta greitt þau.

Ég vil í því sambandi minna á að á tveim síðustu þingum hafa þingkonur Kvennalistans borið fram frv. um lágmarkslaun sem dugi til framfærslu einstaklings, en þau hlutu ekki náð fyrir augum hv. þm. Í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sl. vor sem við kvennalistakonur tókum þátt í með nokkrum núverandi ráðherrum snerist umræðan að miklu leyti um afkomu heimilanna og fyrst og fremst þeirra sem lægstu tekjurnar hafa. Öll vorum við sammála um að engir gætu lifað af lægstu launum sem viðgangast í landinu, en við gátum hins vegar ekki sameinast um leiðir til að leiðrétta það ranglæti og því fór sem fór. En krafa okkar var sú að fest væri í lög að laun væru ekki lægri en svo að þau dygðu til framfærslu einstaklings. Er það ósvífin krafa? Viðmælendur okkur héldu hins vegar fast við Mesópótamíulögmálið svokallaða, sem hagfræðingar þeirra töldu óumbreytanlegt, og töldu að þeir gætu lagfært kjör lágtekjufólks á annan veg og varanlegri en að lögbinda lágmarkstekjur við framfærslukostnað. Úrræði þeirra höfum við nú séð og þau hafa ekki reynst betur en svo að nú rís fólk upp og krefst kjaraleiðréttinga og hærri launa.

Út af fyrir sig er afstaða hagfræðinga mjög einkennileg. Þrátt fyrir framfarir um aldir, iðnbyltingu og tæknibyltingu virðast þeir sáttir við það launabil sem þeir telja að haldist hafi óbreytt síðustu 3000 árin og virðist ekki koma til hugar að rétt sé að breyta því né heldur að það sé hægt. Þeir sýnast haldnir einhverri stöðnun sem hindrar skapandi hugsun. Hvernig væri að þeir tækju sig saman og hættu nú að láta glamra í kvörnunum en fyndu leiðir til að hindra að hækkanir á lægstu laun gangi sífellt sjálfkrafa upp allan launastigann og fyndu leiðir til að minnka launabilið? Ég set þessa uppástungu fram hér af því að augljóst er að af sjálfsdáðum fara þessir vísu menn ekki að nota menntun sína og færni á þennan hátt. Hugsanir þeirra og hugmyndir eru skorðaðar í öðru fari.