04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4304 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Halldór Blöndal:

Frú forseti. Ég verð að segja fyrst að þau orð sem talsmaður Kvennalistans, hv. 7. þm. Norðurl. e., sagði áðan voru mjög eftirtektarverð og er nauðsynlegt að þm. Kvennalistans, annaðhvort við þessar umræður eða þá við annað tækifæri síðar, útskýri fyrir þingheimi frekar hvað við sé átt þegar talað er um að unnt eða gerlegt sé að bæta kjör þeirra sem verst eru settir með lagasetningu frá Alþingi. Fyrr í þessari umræðu minnti hæstv. sjútvrh. á að það hefði verið gert með lögum í febrúarmánuði 1978. Ég vil segja að það hafi verið djarfasta tilraun sem gerð hafi verið til þess að koma til móts við þá lægst launuðu og var þar gripið á ýmsum kjaraatriðum einmitt með þeirri löggjöf. Við munum að út úr því varð mikil sprenging. Upp úr því urðu til slagorð eins og „Kjarabarátta er kosningabarátta“, „Samningana í gildi“ og þar fram eftir götunum. Ég er alveg handviss um að sá hv. þm. sem er formaður þingflokks Kvennalistans hafi á þeim tíma snúist öndverður við þessari lagasetningu og hrópað ekki síður en aðrir félagar í Alþb. að samningana skyldi í gildi, að þessi lög um lágmarkslaun skyldu brotin niður. Það er þess vegna mjög bagalegt nú, þegar þessi rödd hefur heyrst hér frá Kvennalistanum, að ekki skuli vera hér inni neinir fulltrúar Kvennalistans sem geti útskýrt við umræðurnar hvort Kvennalistinn hafi nákvæmlega í huga að fara þá leið sem þá var farin til að bæta lægstu launin eða hvort Kvennalistinn hefur aðrar hugmyndir uppi. Auðvitað er tal af þessu tagi gagnslaust með öllu ef þeir sem bera hugmyndina fram eru ekki reiðubúnir að lýsa henni í einstökum atriðum að sínu leytinu eins og Alþfl. á sínum tíma þegar hann talaði um stóreignaskattinn og lagði fram um hann þáltill. hér á Alþingi en fékkst ekki til að skýra hvað fyrir honum vekti í lagafrv. þannig að þingið gæti formlega tekið afstöðu til hugmyndarinnar og velt því fyrir sér á hverjum sú skattheimta bitnaði fyrst og fremst og hvað var þar á ferðinni.

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur verið mjög athyglisverð í dag og ég hef verið að hugsa um það nú áður en ég tók til máls a.m.k. að það er synd að allur sá mikli fjöldi sem hefur tekið þátt í skoðanakönnunum að undanförnu skuli ekki hafa fengið tækifæri til að hlýða á þessa umræðu því það er greinilegt á þeim málflutningi sem hér hefur verið að það er alger vendipunktur í stjórnmálaumræðunni, í efnahagsumræðunni nú með þessari efnahagsumræðu. Ég er mjög þakklátur hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hann skyldi hafa átt upptökin að efnahagsog kjaraumræðunni núna, en ég vil líka segja að þessi langa og ítarlega umræða, sem fram fer í þinginu nú, vekur upp þá spurningu hvort ekki sé rétt að athuga um hvað það mundi kosta að á einhverri rás Ríkisútvarpsins yrði útvarpað öllum umræðum frá Alþingi þannig að fólkið sem kýs menn á þingið geti fylgst náið með þeim málflutningi sem hér fer fram, geti t.d. fylgst með því hvort málþófi hafi verið uppi haldið nú fyrir áramót og jól og hvort víst sé að allt sem þá t.d. var sagt hafi verið sagt af hjartans einlægni eða til að standa sem lengst í pontunni og má kannski segja að þagnarræðan hafi verið innihaldsríkust, a.m.k. á vissu stigi þeirrar málþófsumræðu sem þá fór fram.

Það er eitt sem vekur líka umhugsun þegar maður hlýðir á umræður eins og þessar, hversu hún fer út um víðan völl og hversu erfitt er að átta sig á því, þegar maður hlustar á alla þessa ráðherra og alla þessa þingmenn, hvað það sé í raun og veru sem meiri hluti þm. vill leggja höfuðáherslu á. Hvað er það sem við teljum brýnast, hvaða markmið eru það í efnahagsmálum sem við teljum nú brýnast að náð sé? Það var eftirtektarvert í því samhengi að ýmsir þm. töluðu annars vegar um að útflutningsatvinnuvegirnir væru í mikilli hættu, að samkeppnisiðnaðurinn væri í hættu og sumir sögðu að byggingariðnaðurinn úti á landi væri að stöðvast. Samt sem áður kom ekki fram hjá þessum sömu mönnum neinn ótti við að atvinnuleysi væri fram undan né heldur hitt að kjaraskerðing væri e.t.v. nauðsynleg til þess að við gætum haldið fyrirtækjunum gangandi. Kannski sýnir ekkert atriði jafnvel og þetta hversu vel hefur tekist til um stjórn landsins nú á síðustu missirum og árum að við umræðurnar núna skuli þessi þanki ekki koma upp þrátt fyrir öll stóru orðin. Og það er kannski enn merkilegra fyrir þá sök að þegar sú ríkisstjórn var mynduð sem var á undan þessari, ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, óttaðist þjóðin öll að til alvarlegs atvinnubrests kynni að koma vegna efnahagsástandsins þá og við munum að á þeim tíma beitti forseti Íslands sér fyrir því að hér yrðu hafðar hraðar hendur um myndun meiri hlutastjórnar og lá í loftinu að að öðrum kosti yrði mynduð utanþingsstjórn fyrir 1. júní 1983. Nú er þessi ótti ekki uppi. Þeir þm. sem hér hafa talað í stjórnarandstöðu nú hafa ekki uppi neinn ótta um þetta. Sá grundvöllur að atvinna sé í landinu er í hugum allra hv. þm. sem ég hef hlýtt á hér í dag. Ég þurfti að vísu að bregða mér einu sinni aðeins frá, en ég hygg að það hafi ekki komið fram þar heldur. Þeir hafa í stórum dráttum haldið sig við það að atvinnuástandið væri svo gott að ekki þyrfti að óttast atvinnubrest. Þetta er mjög athyglisvert.

Annað, sem mér þótti líka mjög athyglisvert, kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. áðan þegar hann hélt því fram í sínu máli að Íslendingar væru, sem er auðvitað rétt, háðari útflutningi og innflutningi, utanríkisviðskiptum, en aðrar þjóðir. Þetta er auðvitað rétt. Það er þetta sem veldur því að íslenska hagkerfið er viðkvæmara fyrir sveiflum en hin stóru hagkerfi þar sem viðskiptin eru meiri inn á við og hinar stóru sveiflur, sem við verðum t.d. fyrir í fiskafla eða verðum fyrir ef einhver einn meiri háttar markaður okkar bregst, verða ekki. Í máli forseta Alþýðusambands Íslands fyrir tveim dögum, þegar verið var að ræða um það hvernig við Íslendingar gætum aðlagað okkur hinum stóra markaði EBE eftir 1992, kom fram hjá honum í innskoti: Þessar náttúrlegu sveiflur eins og okkar íslenska þjóðfélag hlýtur alltaf að verða fyrir og við verðum að búa okkur undir. Það eru þessar náttúrlegu sveiflur sem hafa valdið okkur erfiðleikum að halda hér sama stöðugleika í efnahagslífinu og nauðsynlegur er til þess að við getum stefnt að því með öruggri vissu að halda verðbólgunni í skefjum jafnharkalega og gert er í þeim iðnvæddu stórþjóðum sem við berum okkur saman við. En ég komst hins vegar, alveg að annarri niðurstöðu en hv. 7. þm. Reykn. Ég mundi geta ímyndað mér að Rauða-Kína með múrinn í kringum sig, með öll milljónahundruðin innan múrsins, gæti byggt sér upp eitthvert sérstakt skattkerfi, einhvern sérstakan gjaldmiðil sem er óháður umhverfinu, eitthvert sérstakt Rauða-Kína skattkerfi. Á hinn bóginn held ég að við vegna þessara miklu utanríkisviðskipta séum nauðbeygðir til að haga skattheimtunni á atvinnuvegina hérna í sem mestu samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Og auðvitað mundi það vera mikil uppgjöf fyrir fram ef við mundum nú, þegar þessi stóri og sterki markaður er að styrkjast og myndast, gefast upp fyrir fram í þeirri samkeppni sem þar hlýtur að verða og sem við hljótum að reyna að gerast aðilar að. Þó við treystum okkur ekki til þess að ganga inn í Efnahagsbandalagið, eða Evrópubandalagið eins og það heitir nú, hljótum við að reyna að ná samningum einmitt við þetta bandalag um gagnkvæm tollfríðindi. Þess vegna held ég að sé nauðsynlegt að við búum okkur undir þetta ekki aðeins með því að lagfæra tekjuöflunarkerfið. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég hef aldrei séð neina útlistun á því sem kallað er söluskattur í tolli og bókhaldslegur virðisaukaskattur hjá þjónustuaðilum. Ég hef ekki séð þetta útfært og skal ekki um það ræða, en ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar almennt að við eigum að reyna að samræma skattkerfið hér á landi og af þeim sökum er ég mikill fylgismaður virðisaukaskatts.

Það er laukrétt hjá hæstv. fjmrh. að þessi ríkisstjórn hefur gert meira kannski en nokkur önnur ríkisstjórn í sambandi við tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs á stuttum tíma. En hitt er mikill misskilningur hjá honum ef hann heldur að þetta verk hafi allt verið unnið á þessum haustmánuðum. Það er mikill misskilningur. Það var búið að setja lögin um staðgreiðsluna. Tollalög var búið að setja og átti eftir að staðfesta tollskrána. Það var búið að leggja fram tvö frv. um virðisaukaskatt. Mér þykir nú leiðinlegt, eins fast og ég studdi formann Borgarafl. á sínum tíma sem fjmrh., ef hann er alveg fallinn frá þeim hugmyndum sem við þá höfðum um virðisaukaskattinn og ég hafði satt að segja vænst þess að hann mundi hjálpa okkur að koma því í gegnum þingið. En við sjáum nú til. Þegar hann les þessa pappíra á nýjan leik, þegar rifjast upp fyrir honum hans eigið handaverk á þeim skulum við vona að hann komi til liðs við okkur því við viljum alltaf fá góða liðsmenn, ekki neita ég því. En auðvitað var þetta allt saman meira og minna undirbúið, sumt að fullu unnið. En hitt er líka rétt að þegar nýr aðili kemur í ríkisstjórn er nauðsynlegt að fara yfir þetta allt saman aftur og þá koma upp viss atvik sem menn eru ekki algerlega sammála um og þurfa að semja um á nýjan leik. En niðurstaðan hjá hæstv. fjmrh. er rétt. Þessi ríkisstjórn hefur lyft grettistaki í sambandi við fjáröflunarkerfið og við eigum eftir að gera betur. Frv. um virðisaukaskatt verður lagt fram á þinginu nú á næstu vikum og það frv. verður afgreitt á vorþinginu þannig að virðisaukaskattur kemur í stað söluskatts um næstu áramót sem þýðir í fyrsta lagi að það bætir stöðu útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisiðnaðarins, það styrkir smáfyrirtækin í landinu vegna þess að margvísleg aðföng og þjónusta sem þau þurfa að kaupa en eru inni í stóru samsteypunum eins og SÍS verða ekki tvísköttuð eins og er samkvæmt núgildandi kerfi. Þess vegna mun virðisaukaskatturinn í fyrsta lagi styrkja okkur gagnvart erlendum innflutningi, í samkeppninni erlendis með okkar útflutningsvörur og hann mun styrkja frjálsa samkeppni og litlu fyrirtækin. Þessu hefðum við af lagatæknilegum ástæðum getað dembt inn um áramótin, en á hinn bóginn var ekki talið að skattkerfið mundi þola það samtímis öllu öðru sem var að gerast og sú er skýringin á að þetta var ekki lögfest.

Ég hlustaði með mikilli athygli á það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði þegar hann var að tala um þá miklu eignatilfærslu sem hefði verið vegna rangrar gengisskráningar og tók eftir því að hann sagði að hann mundi gera þá kröfu að ríkisstjórnin gripi til aðgerða til að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Nú er sá hv. þm. ekki hér inni, en væri fróðlegt að fá að vita nákvæmlega hvað hann var að fara með þessum ummælum.

En auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að gengi krónunnar er núna hátt skráð. Þetta vitum við. Við vitum líka að gengi krónunnar hefur oft áður verið hátt skráð. Það var t.d. mjög hátt skráð stundum á árum viðreisnarstjórnarinnar, en mikið hefur verið vitnað til þess tímabils, og væri fróðlegt að fá t.d. samanburð nú eða á árinu 1967 þegar mikla gengisfellingin var þá eða á árinu 1968. Auðvitað hafði þá myndast mikil spenna í gjaldeyrismálunum hér á landi, líka vegna þess að á þeim tíma voru verðskuldbindingar óverðtryggðar og ógengistryggðar þannig að gengisfellingin þýddi mikla eignatilfærslu innan lands og létti á augabragði af mikilli skuldabyrði, sérstaklega hjá þeim útflutningsfyrirtækjum sem höfðu staðið undir hallarekstri um hríð. Það er því ekki nýtt að slík spenna myndast í gengismálum. En ég vil út af segja að við erum búnir að reyna það sem kallað var gengissig. Ég man að þáv. viðskrh., hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson, kallaði þetta gengisaðlögun í einni ræðu og var gert grín að því. Við erum búnir að reyna þessa leið að láta aðila vinnumarkaðarins semja um kjarabætur sem atvinnuvegirnir og þjóðarbúið standa ekki undir og síðan hefur gengið sigið eða verið fellt og þetta hefur gengið svona jafnt og þétt. En menn eru svo fljótir að gleyma að jafnvel maður eins og hv. 7. þm. Reykn. talar nú um að rétt sé að taka upp launa- og lánavísitölu og slengja í eitt, eins og það mundi bæta eitthvað, sem auðvitað hefði í för með sér, ef aukinn hagvöxtur væri í landinu, að launþegarnir mundu ekki fá að njóta þess einir, en hugsunin var ekki sú. Auðvitað þýðir slík binding tveggja ólíkra þátta í þjóðfélagsgerðinni það að við verðum fyrir tapi fyrr eða síðar. Auðvitað er það svo. Auðvitað getum við ekki búið við þjóðfélag þar sem einn hópurinn, aðilar vinnumarkaðarins, á að hafa það fyrir sérstakt hlutverk að semja um launakjör og lífskjör í landinu sem næsti hópur, ríkisstjórnin, á svo sjálfkrafa að taka til baka og allt á þetta að gerast á kostnað krónunnar. Það er þess vegna ekki undarlegt þó að jafnlífsreynd kona og 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir skuli hafa sagt nú við umræðurnar að aðilar vinnumarkaðarins væru þess ekki megnugir að bæta kjörin í landinu. Það vekur þess vegna enga furðu.

En í mínum huga stendur þessi barátta ekki um hvort ríkisstjórnin vikunni fyrr eða síðar kýs að láta gengið síga. Þessi spurning er að verða miklu alvarlegri. Ef þessi alvarlega tilraun, sem nú er gerð til þess að fylgja stöðugleika í gengismálum, fer út um þúfur, er þá ekki skammt í það að við hrösum líka úr því vígi að geta sagt að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil? Þessi þanki er svo ofarlega í hugum manna að jafnvel hv. 7. þm. Reykn. talaði um það áðan að við tækjum t.d. upp þýska markið. En vaninn við að Íslendingar gætu ekki búið við alvörugjaldmiðil var svo sterkur að hann bætti við: En auðvitað yrði íslenska markið verðminna en þýska markið undir eins. Það er þessi þankagangur, það er þessi hugsun sem við verðum að uppræta í okkur Íslendingum. Við verðum að taka upp þann þjóðernismetnað og það stolt að berjast fyrir því til þrautar að við getum verið menn, ekki aðeins fyrir okkar tungu, ekki aðeins fyrir okkar sögu heldur að við getum líka verið menn fyrir okkar eigin gjaldmiðli og við höfum þrek til þess að standa svo að stjórn okkar efnahagsmála að við getum stjórnað landinu með íslenskri krónu. Um það stendur stríðið nú. Það er svo alvarlegt. Sumir halda því fram að ríkisstjórnin hefði átt að vera búin að grípa inn í og fella gengið. Hvað eru þeir í raun og veru að segja? Það sem þeir eru í raun og veru að segja er að aðilum vinnumarkaðarins sé ekki treystandi. Þeir eru að segja að ríkisstjórnin hafi átt að grípa inn í nú þegar samningalotan stóð sem hæst og segja við aðila vinnumarkaðarins: Hættið að tala saman. Það sem þið eruð að gera verður áreiðanlega vitleysa. Við nennum ekki að bíða eftir því að sjá hvað þið eruð að gera og nú skulið þið bara snauta heim til ykkar í miðjum samningaviðræðunum. Og haldið þið að því hefði verið tekið þegjandi? Haldið þið að það sé leiðin til þess að stjórna landi og bera ábyrgð á þegnum sínum að haga sér með þeim hætti að virða ekki þær leikreglur sem settar hafa verið og láta ekki á það reyna hvort aðilar vinnumarkaðarins geti staðið undir þeirri ábyrgð að semja um laun og kjör fyrir þá umbjóðendur sem þeir standa fyrir? Þetta held ég að sé laukrétt. Ég held að orð gamals fyrrv. forsrh. séu líka rétt: Ef menn hugsa sér að gripið verði til alvarlegra efnahagsráðstafana, ef það er hugmyndin, verður þjóðin auðvitað að hafa fundið að til þess bar brýna nauðsyn og að önnur þau ráð sem tiltæk voru höfðu brugðist. Mitt mat er að svo sé ekki komið. Ég er sammála því í öllum meginatriðum sem ríkisstjórnin hefur gert í þessu efni fram til dagsins í dag. Auðvitað geta menn talað um eitthvert minni háttar atriði sem skiptir ekki máli þegar maður horfir á atburðarásina í heild. Ég er mjög ánægður yfir því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á kjara- og gengismálunum og hef þá trú að aðrir stjórnmálaflokkar hefðu ekki staðið betur að því þannig að ég er mjög ánægður yfir þessu.

En erfiðleikarnir eru þessir: Hv. síðasti ræðumaður, glögg og greind kona norðan úr landi sem hefur fengist við ýmislegt, hefur bæði fengist við búskap og unnið að ýmsu öðru, komst að þeirri niðurstöðu hér í ræðu sinni að fyrirtækin og heimilin væru bæði jafnilla stödd. Sami tónn var frá ýmsum öðrum. Sá hv. þm. sem á undan henni talaði, hv. 7. þm. Reykn., hafði þá framtíðarsýn að fyrirtækin upp til hópa þyldu ekki vaxtaþungann og heimilin ekki heldur og sá fyrir sér lítinn hóp manna sem stæði uppi með allar, eignir Íslendinga. Þannig virðist umræðan vera á þeim nótum að að sé ekki svigrúm fyrir frekari kjarabætur en nú er og þm. í stórum dráttum því sammála því, sem við höfum sagt, að nú sé kominn sá tími að nauðsynlegt sé að standa vörð um kaupmáttinn en ekki stefna að því að hækka hann, sem er það sem við Íslendingar höfum alltaf orðið að gera, menn sem eiga allt sitt undir stopulum sjávarafla. Þjóð sem þekkir þá lífsbaráttu jafnvel og við Íslendingar veit það og er jafnviss um það og tvisvar tveir eru fjórir að ef aukin aflabrögð eru og verð hækkar á mörkuðum má hún vænta betri daga, en ef aflabrögðin dragast saman og ef harðnar á mörkuðunum þýðir það minni tekjur fyrir hvern og einn hér á landi. Þetta vita allir Íslendingar, hver einasti maður.

Ég veit ekki hvort ég á aðeins að víkja að þessu með vextina. Það er laukrétt að raunvextir eru hér of háir og þegar ég tala um að raunvextir séu of háir á ég við að ósköp væri notalegt að þeir væru lægri. En spurningin er á hinn bóginn: Hvernig ætlum við að ná því marki að lækka vextina? Við vitum það, sem höfum talað við fólk á ýmsum stöðum á landinu, að það var mikill framtaks- og framfarahugur í mönnum á sl. ári og menn voru óhræddir við að steypa sér í mikla fjárfestingu. Þeir sem hafa lesið yfir þær beiðnir sem sveitarfélögin sendu fjvn. um margvíslegar framkvæmdir víðs vegar um landið vita líka að sveitarfélögin treysta sér til að standa undir þungum byrðum vegna fjárfestingar. Það er alveg ljóst. Ekki aðeins Reykjavíkurborg heldur ýmis önnur sveitarfélög. Ég veit ekki hvort ég á að skjóta því inn í að gamni mínu að hæstv. samgrh. bætti við, þegar hann talaði um miklu fjárfestinguna, húsnæðisráðherranum, en ég tók eftir að þegar fjmrh. talaði um borgarstjórann bætti hann ekki húsnæðisráðherranum við. Og við vitum auðvitað af hverju það er. Það er af því að hann er alþýðuflokksmaður og auðvitað var Reykjavík tekin út úr vegna þess að henni er svo vel stjórnað. Það þótti mér líka vænt um að heyra hjá þeim, framsóknarmanninum og alþýðuflokksmanninum, því að alltaf erum við nú pínulítið í þessum pólitíska leik, en auðvitað er hitt jafnrétt að öll þessi mikla krafa um fjárfestingu um allt land frá opinberum aðilum, frá þm. ef við horfum á brtt. við fjárlagafrv., frá okkur stuðningsmönnum stjórnarinnar þegar við lágum í ráðherrunum og vorum að reyna að knýja fram aukið framkvæmdafjármagn í okkar kjördæmi, frá einstökum sveitarstjórnarmönnum eins og ég sagði áðan, frá forstöðumönnum opinberra stofnana, frá stúdentaráði, frá verkalýðsfélögum, m.a.s. kaup ríkisins á eignum SÍS, þessari ljótu skrifstofubyggingu þarna upp frá, kallar á nýja fjárfestingu á þenslusvæðinu í Reykjavík. Menn eru ekkert feimnir við að berjast fyrir þessu, sömu mennirnir og koma upp í pontuna og tala um að vextir séu of háir ætlast til fyrirgreiðslu ráðherra um að sveitarfélög úti á landi geti fengið fé úr Framkvæmdasjóði til sinna þarfa og bætast þannig í biðröðina um fjármagnið.

Svo spyrjum við: Hvernig stendur á því að við Íslendingar getum ekki staðið undir þessari fjárfestingu, þessari lánsfjárþörf? Það er auðvitað sú eðlilega skýring á því að vöxtunum var pólitískt stjórnað, sérstaklega þó á áttunda áratugnum. Það voru neikvæðir vextir sérstaklega á fyrri hluta þessa áratugs með þeim afleiðingum að peningar sjóðanna, peningar bankanna urðu að engu, en þeir sem voru að byggja eignuðust fyrir lítið sín híbýli.

Það er enginn vandi að telja upp stórfyrirtæki sem voru í vandræðum á árunum 1970 og 1971, en voru orðin forrík 4–5 árum síðar. Eitt gleggsta dæmið um þetta er t.d. Slippstöðin á Akureyri og það er hægt að benda á fleiri, fleiri dæmi um þetta. Á þessum tíma hrundi spariféð. Síðan höfum við verið að reyna að byggja þetta upp. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens kom með lánskjaravísitöluna eða var það næsta ríkisstjórn á undan? (ÓÞG: Það var 1979.) Var það 1979? En sú ríkisstjórn bætti þá um betur því að hún kom inn á þetta sama. (SJS: Ólafslög.) Já, ég bið afsökunar á þessu. Rétt skal vera rétt. Þá var gerð tilraun til að snúa við. Síðan höfum við um leið og við höfum verið að byggja upp íslenska spariféð verið að berjast á móti því að safna of miklum erlendum skuldum. Það er auðvitað rétt sem sumir hafa sagt á sl. ári: Ef lán mín hefðu verið í dollurum en ekki verðtryggðum krónum hefði greiðslubyrðin orðið minni og þeir hefðu heldur viljað hafa dollara. En við erum að reyna að komast út úr því og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að styrkja sparifjáröflunina í landinu.

Núna eru vextir svo háir sem raun ber vitni. Eru alþm. þeirrar skoðunar að það sé vegna þess að við séum með óeðlilegum hætti að byggja upp innlendan sparnað? Ætli nokkur trúi því? (AG: Já.) Einn. Ég held að það séu ekki fleiri. Ég held að hinir skilji það, hv. þm., að það sem veldur háu vöxtunum er óstöðugleikinn í efnahagslífinu og þess vegna er það kjarni málsins nú, þegar við horfum fram á þetta ár, að okkur takist að byggja upp þá trú á það sem við erum að gera, þann stöðugleika, að vextirnir lækki, að verðbólgan verði viðráðanleg og að meiri bjartsýni gæti í landinu. Ég hygg að við þurfum ekki að hafa mikið fyrir því að byggja þá bjartsýni upp. Ég hygg að fólk almennt trúi því og viti það að ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir þörfum og góðum hlutum og ég held að menn finni það þegar verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum hefur tekist að ná samkomulagi, sem ég vil leyfa mér að trúa að verði innan þess ramma sem þjóðfélagið þolir, að okkur mun takast að ná stöðugleikanum. Ég vil á hinn bóginn vona að allar þær hrakspár sem stjórnarandstæðingarnir hafa verið með lýsi ekki þeirra hugarfari, að á bak við þessar hrakspár sé ekki ósk um að hrakspáin rætist. Ég vona að stjórnarandstæðingar í málflutningi sínum hafi ekki verið með þá von, en sakna þess á hinn bóginn að málflutningur þeirra hefur verið svo út um víðan völl órökvís og órökstuddur að óhjákvæmilegt er annað en ljúka þessari ræðu eins og hún byrjaði með því að segja að nú hafa orðið þáttaskil í efnahagsumræðum. Það liggur ljóst fyrir að stjórnarandstaðan hefur ekkert fram að færa, hefur engan málstað. Og það sem verra er: Það sem stjórnarandstaðan hefur þó verið að reyna að segja er sagt af slíkri linku að auðfundið er að hún trúir ekki á það sem hún er þó að reyna að segja.