04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4322 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það var allt að því eins gaman að hlusta á síðasta ræðumann tala, hv. 14. þm. Reykv., og skemmtikraftana, Jónana tvo, fyrr í dag. Hv. 14. þm. Reykv. byrjar með því að undirstrika að menn verði að vera heiðarlegir og segja þjóðinni sannleikann og talaði eins og stjórnarandstæðingar geri það ekki, þeir séu alvondir og vilji allt það sem er neikvætt fyrir þjóðfélagið, en hann og hinir góðu englar stjórnarmanna vilji segja sannleikann og gera gott á móti vondu mönnunum í stjórnarandstöðunni.

Ég hef aldrei heyrt þennan ágæta fyrrv. flokksbróður minn og annars góða vin halda eins undirbúna blaðagreinaræðu og nú og mér er næst að spyrja hann: Er frumritið komið út á Morgunblað þegar? (GHG: Þetta er allt í bútum.) Er það allt í bútum úti í Morgunblaði? (GHG: Nei, nei.) Jæja, en þessi ræða var eins og samin blaðagrein. Hún sagði hvorki svart né hvítt.

Hann hóf ræðu sína með því að tala um erfiðleika sem steðja að útflutningsatvinnuvegunum og verið væri að athuga hvað hægt væri að gera þeim til bóta. Hann er nýbúinn að samþykkja launaskatt á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Hann er nýbúinn að samþykkja að endurgreiða ekki söluskatt af sjávarútveginum þó svo ríkisstjórnin hafi síðan hugsað sig um. En stjórnarandstaðan varaði við þessu öllu. Og svo koma menn á Alþingi rétt eftir að búið er að samþykkja slíkar ráðstafanir í efnahagsmálum og tala eins og englar og þykjast vera að segja sannleikann. Um hvað? Um hvað þeir voru að gera eða hvað þeir vildu hafa gert og hvað þeir eru að undirbúa að gera? Hvílíkur tvískinnungur. Ég held að það sé ekki nokkur annar maður sem hefur eins áberandi forðast að tala um aðalatriðin og kom hér þegar hann var að tala um verðbólguna og talar um að stjórnarsinnar, allir þeir sem styðja stjórnina, viti hvað verðbólga er, viti hvernig hún verður til, af hverju hún verður til, en stjórnarandstæðingar hafi ekki hugmynd um það. Þeir séu fáfróðir einstaklingar sem séu að reyna að þykjast vera þm. en vita ekkert hvað verðbólga er. Við verðum að reyna að læra af þessum hv. herrum. Allar þær ráðstafanir sem hv. þm. og stjórnarliðið í heild hefur verið að samþykkja sem efnahagsráðstafanir fyrir áramót eru verðbólguhvetjandi og stjórnarandstaðan, samstillt stjórnarandstaða þó hún hafi ólíkar stjórnmálaskoðanir, hefur varað við því sem er á leiðinni. Það er ekki vegna þess að það er farið að ráðum stjórnarandstöðunnar að hæstv. forsrh., efnahagsráðherrann, hlýtur að hafa fyrirskipað Þjóðhagsstofnun að gefa engar upplýsingar eða útreikninga. Það hlýtur að vera vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki láta fólkið í landinu sjá að verðbólgan er miklu hærri en jafnvel uppgefið er þegar talað er um 34–40% verðbólgu eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. áður og er hann þó stjórnarsinni. Eitthvað er ríkisstjórnin að fela. Og að tala svo um engla ríkisstjórnarinnar sem þykjast vilja vernda og verja fólkið í landinu frá verðbólgunni og sér í lagi láglaunafólkið.

Hv. þm. er búinn að eyða allri sinni starfsævi fram á þennan dag í þau 70 ár sem verkalýðshreyfingin hefur verið skipulögð og enn þann dag í dag þarf verkamaðurinn að vinna dag og nótt til að geta lifað sómasamlegu lífi í landinu. Átta stunda vinnudagur nægir ekki til að borða, að kaupa brauð fyrir börn og gamalmenni sem hann ætlar að leyfa sér að nota hér sem ástæðu fyrir því að hægt sé að gera vel við aldraða og sjúka, að réttlæta skattana. Ef þessir skattar væru ekki lagðir á væri velferðarríkið Ísland í hættu. Þá er hann að tala um viðbótarskattana því að fjárlögin hækkuðu um 50%. Niðurstaða, eyðsluniðurstaða fjárlaga er 65 milljarðar fyrir 1988, en var 43 milljarðar fyrir 1987. Það er um 50% hækkun. Að ætla svo að segja að sú hækkun, sú aukna eyðsla og þær tekjur sem þarf að ná inn í viðbótarskatta hafi ekkert að segja eða sé gert til að gamla fólkið og það sjúka geti haft það eins gott og það hafði áður, annars væri allt hrunið. Það hvarflar ekki að sjálfstæðismönnum nú að tala um að skera niður útgjöldin. Það hvarflar ekki að þeim. Það á bara að leggja á þjóðina. Þeir tala svo um að þeir séu að verja sjúka og aldraða, þeir séu að verja velferðina á Íslandi. Að viðhalda hverju? Fullri atvinnu með því að gera fjármagnsmarkaðinn svo dýran og fjármagnið, vinnutæki fyrirtækjanna og þjóðarinnar svo dýrt að fyrirtækin hrynja? Hvar er ullariðnaðurinn í dag?

Hvar eru saumastofurnar í dag? Hvar eru frystihúsin sem var verið að benda á áðan? Eitt frystihús sagði upp 50 eða 60 manns í dag. Hvað er að ske? Er verið að verja fyrirtækin? Er verið að verja fólkið í landinu? Það er verið að ráðast á fólkið. Og þessi gríðarlegi árangur, sem ríkistjórnin er nú ekki búin að ná, við skulum sjá hvernig árið 1988 endar og vita hvort það hefur nægt að færa ríkissjóðshallann með matarskatti inn í bókhald eldhúsanna í landinu. Það eru eldhúsin sem hafa minna til ráðstöfunar. Það er fólkið. Það eru heimavinnandi matreiðslumanneskjurnar, sem eru að reyna að halda lífinu í fátæku fólki fyrir lítið eða ekki neitt, sem verða að borga 25% meira í dag en í gær. Svo komið þið upp í ræðustól á Alþingi, á þeim vettvangi þar sem þið eruð nýbúnir að samþykkja alla þessa skatta, og segið svo: Við erum að bjarga fólkinu. Þið skjótið ekki mann og segið: Við erum að gera þetta fyrir þig, vinur. Það er gamall brandari mafíunnar í Bandaríkjunum þegar þeir skjóta einhvern: Þú ert vinur minn. Ég skal skjóta þig fyrir ekki neitt. — Komið ekki hingað til að telja fólki trú um að þið séuð algóðir í öllu sem þið eruð að gera. Það er rangt. Það er mjög rangt.

Það er alveg rétt og því breytir þessi ríkisstjórn ekki að Íslendingar eru yfirleitt gott fólk og það hefur ekkert með efnahagsráðstafanir né heldur umræður á Alþingi um efnahagsmál að gera. Hv. 14. þm. Reykv. Jafnvel þó að forsrh. segi þetta eru þetta engar nýjar fréttir fyrir stjórnarandstöðuna. Við vissum það fyrir fram að Íslendingar eru gott fólk. En það er hægt að breyta góðu fólki með því að fara illa með það. Landið er harðbýlt. Það var viðvörun. Til hverra? Ég var ekki klár á því. Til hverra var viðvörun um að menn skyldu varast að rífa niður með óábyrgum launakröfum þetta góða kerfi sem ríkisstjórnin er að koma á? (GHG: Ég sagði aldrei orð um launakröfur. Ekki eitt orð.) Það var það sem ég skrifaði niður. (GHG: Ekki eitt orð.) Það er það sem ég skrifaði niður. Ég bið afsökunar ef það er rangt tekið eftir. En hvað var verið að rífa niður með því? Þú skalt athuga þína miða sem þú ert með, hvort þetta er ekki þar. Að segja svo að stjórnarandstaðan hafi krafist hærri ríkisútgjalda (GHG: Það sagði ég. Það er rétt.) og aukinna fjárfestinga (GHG: Það sagði ég, alveg rétt.) og aukinnar neyslu. (GHG: Það sagði ég líka.) og það hefði skapað óðaverðbólgu ef orðið hefði verið við þessum kröfum. Ég er alveg sammála. Það hefði kannski skapað atvinnuleysi. En það skapar ekki atvinnuleysi það sem er að ske núna, að fiskiðjuverin eru að segja upp fólki í dag svo tugum skiptir, að ullariðnaðurinn er búinn að loka sínum fyrirtækjum nema Álafossi sem gengur í ríkissjóð, sem gengur eitt fyrirtækja sem ég þekki í ríkissjóð, er ríkisfyrirtæki, og saumastofur eru þegar lokaðar. Er það ekki til að skapa atvinnuleysi?

Ég kannast ekki við þessar kröfur frá stjórnarandstöðunni. Hitt er annað mál að stjórnarandstaðan tekur þátt í umræðum, hún tekur þátt í störfum Alþingis og hún þarf ekki alltaf að hafa sömu meiningar um ráðstöfun ríkissjóðstekna og stjórnarliðar. Það veit ég ekki til að hafi nokkurn tíma skeð. En það er eins og stjórnin tali þannig að henni sé illa við að stjórnarandstaðan skuli vera eins áhrifamikil og hún er, fámenn eins og hún er. Ég veit ekki betur en stjórnarandstaðan hafi tekið efnahags- og launamál á dagskrá allan tímann sem efnahagsmál voru hér í umræðum. En hvorki þm. né ráðherrar höfðu eitt einasta orð að segja. Og þeir þakka alveg sérstaklega fyrir það núna þegar aðalafgreiðslutími efnahagsmála er liðinn hjá án þess að ráðherrar í ríkisstjórn eða stjórnarliðið hafi séð ástæðu til að taka til máls. Nú koma þeir og þakka fyrir að efnahagsmál skuli vera komin á dagskrá. Af hverju komu þeir ekki með það sjálfir á dagskrá? Af hverju voru þeir að bíða eftir því að stjórnarandstaðan kæmi með það? Er eitthvað sem bannar ykkur hverjum fyrir sig að taka til máls? Þarf stjórnarandstaðan að hvetja ykkur eitthvað? Er þessi hrærigrautur sem er kölluð ríkisstjórn, hrærigrautur ólíkra flokka, með eitthvert samstarf sín á milli eða samkomulag um að tala helst ekki? Ég veit ekki betur en hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. séu alltaf blaðrandi. Síðan kemur blessaður forsrh. í fjölmiðlana og hann er spurður: Er það rétt sem hinir segja? Þetta er alveg eins og þeir segðu við einhvern mann: Barðirðu konuna þína í morgun? Það er alveg sama hvort hann segir já eða nei. Hann viðurkennir að berja hana nokkuð reglulega. En forsrh. getur ekki svarað öðruvísi en: Ég er sammála hinum. Ef hann ekki gerir það er kominn upp opinber ágreiningur í ríkisstjórninni sjálfri. Það getur verið að það sé rétt ágiskun hjá mér að ríkisstjórnin megi ekki taka til máls og þess vegna þakkar hún stjórnarandstöðunni fyrir að taka upp umræðu um efnahags- og kjaramál til þess að geta kvatt sér hljóðs.

Látið okkur bara vita ef þið viljið ræða mál. Við skulum koma með það á dagskrá hvenær sem er. Við skulum gera það fyrir ekki neitt, það er alveg rétt, og láta það heita hvað sem hæstv. bankamálaráðherra vill. Þegar hv. 14. þm. Reykv. var að lesa upp „blaðagrein“ áðan datt mér í hug að hæstv. ráðherra hefði verið andvaka í nótt og samið ræðu um málin sem voru hér á dagskrá. Það er eins og hann hafi haft hugboð um eða vitað hvað átti að ræða hér utan dagskrár og samið það fyrir fram því það passaði stundum og passaði stundum alls ekki neitt. Hann var að tala um mál sem hafa verið hér á dagskrá frá degi til dags. Hann hringlaði frá einum fundi Alþingis til annars. En málin sem voru á dagskrá í dag koma ekki svo mikið inn í söguna. Það er eins og ræðan hafi verið samin í nótt vegna þess að ráðherra hafi verið andvaka eða eitthvað slíkt. Ég trúi því vel að hann hafi verið það. Það kemur mér ekkert á óvart þó ráðherrarnir séu mjög oft andvaka.

Nú segir hv. 14. þm. Reykv., ég tala mikið um hans mál vegna þess að hann kemur úr atvinnulífinu, hann hefur verið launþegi hjá útflutningsfyrirtæki eða samtökum, að ytri aðstæður hafi versnað mjög mikið frá því í fyrra vegna hækkandi innlends kostnaðar. Er það ekki rétt með farið? (Gripið fram í.) Já, en hver tók þátt í að greiða atkvæði með hækkununum? (Gripið fram í.) Innlendum kostnaði, já. Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að fá ekki endurgreiddan söluskatt? Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að 1% launaskattur er settur á? Haldið þið að það sé ekki kostnaðarhækkun að verslunar- og skrifstofuhúsnæði tekur 2% í staðinn fyrir 1% o.s.frv. og hægt að halda áfram? Hvað er þetta? Hvers lags fíflagangur er þetta? Auðvitað er þetta kostnaðarhækkun. Og þetta er innlend kostnaðarhækkun. Það kemur ekki utan að. Svo er talað um að lækkun dollarans sé alvond. Það á allt að lenda á aumingja dollaranum. Af hverju? Það er alveg ljóst að þið komist ekki hjá því að lækka gengið. Þið getið farið í burtu og látið næstu stjórn gera það. Það er kannski langbest. Reiknið út hvað gengislækkun gefur, mér er alveg sama hvaða prósenta það er af útflutningsverðmætum, hvað gefur hún ykkur margar viðbótarkrónur og hvað eykur hún skuldina af yfir 80 milljörðum eða meira sem eru í dollurum? Ég er ekki viss um að við töpum neitt á dollaranum. Og afurðirnar hafa hækkað. Verðið í erlendum gjaldeyri, í dollurum, hefur hækkað þó það hafi kannski hækkað minna en tilkostnaðurinn hefur hækkað innan lands. Á sama tíma hefur EURO-gjaldeyrir hækkað og við erum að selja í auknum mæli til Evrópu þannig að við erum að fá auknar tekjur þar svo það er ekki allt neikvætt. Það er eingöngu talað um það sem er neikvætt og ríkisstjórnin getur notað miðað við að enginn viti hvað er að ske nema hún. Ef dæmið er tekið í heild sinni efast ég um að gjaldeyrisviðskipti okkar séu okkur í óhag eins og málin standa.

Ég vona að það sé til að reyna að blekkja okkur þegar talað er um að ríkisstjórnin með aðgerðum sínum tryggi atvinnuöryggi og afkomu fólksins. Það er verra ef þeir eru að blekkja sig sjálfir, þeir sem nú ætla að senda öryggissveitir til þess að vera vissir um að fá inn eins mikið af tekjum og mögulegt er, eins og á að koma inn. En má ég spyrja hæstv. fjmrh. úr því hann er nú kominn í salinn: Eiga þessar öryggissveitir að vera í sérstökum búningum? Verða þær auðþekkjanlegar þegar þær ganga um göturnar, þegar þær marsera um göturnar? Verða þær merktar eitthvað? Er Sjálfstfl. búinn að samþykkja þessar öryggissveitir? (GHG: Gömlu búningarnir eru allir tíndir.) Er ekki hægt að kalla þær eitthvað? Þurfa þær ekki að heita eitthvað? Þurfa þær ekki að heita skattaskoðunarsveitir? Það er auðvelt að skammstafa það. Það væri gaman að sjá þegar þetta er komið í framkvæmd hjá ykkur.

Það þarf ekki hv. 14. þm. Reykv. til að segja okkur í stjórnarandstöðu eða nokkrum Íslendingi og heldur ekki þeim sem standa í forustu verkalýðsins að Íslendingar vilja ekki verkföll. Það vill enginn. Það þýðir ekkert að tala um að þjóðinni sé skipt í fólk sem vill verkföll og aðra sem vilja þau ekki. Það vill enginn verkföll, ekki einu sinni þeir sem verða að boða til þeirra ef nauðsyn krefur. Það veit enginn betur en einmitt hv. 14. þm. Reykv., svo lengi hefur hann staðið í forustuliði verkalýðsins í Reykjavík. Þess vegna eru það heldur engin ný sannindi að íslenska þjóðin vill lifa við frið. Þetta er aðalinntak stjórnarliða í efnahagsumræðum, í umræðum á Alþingi Íslendinga um efnahagsmál og kjarabætur. Þetta er bara til að drepa kjarna málsins á dreif. Og að fara svo að bera saman við ástandið á Englandi. Hefur það eitthvað breyst við stjórnarskiptin? Hefur ástandið í Englandi eða í Efnahagsbandalagslöndunum eða Kanada eitthvað breyst við að þessi ríkisstjórn tók við? Á þetta eitthvert erindi í efnahagsumræður okkar hér þó svo að við höfum viðskiptasambönd við þessar þjóðir? Þetta er rugl! Guði sé lof að við höfum ekki haft atvinnuleysi. Ég man atvinnuleysi hér og ætla ekki að fara út í þá sálma. Guð almáttugur, það var þá orðið til þess að ljúka ræðu hérna að menn verði að vera heiðarlegir og segja þjóðinni sannleikann. Það kom þá úr réttri átt. Það kom þá úr réttri átt hjá frummælanda þegar hann talaði um hvað ráðstafanirnar sem gerðar hafa verið hafa haft að segja fyrir kerfið sem við búum við. Tollþjónustan er óvirk í dag. Ég kalla það óvirkt þegar það tekur margar vikur sem áður tók engan tíma. Ég var búinn að setja á sem fjármálaráðherra hraðafgreiðslu. Það er búið að taka hana af og nú tekur margar vikur að fá tollafgreiðslu. Það er vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið að hringla með kerfið. Tryggingastofnun ríkisins biður fólk með auglýsingum í fjölmiðlum að hafa ekki samband við stofnunina vegna þess að hún sé upptekin við nýja kerfið sem var þegar auglýst var að senda út ávísanir. Gjaldheimtan er ekki tilbúin að taka við skattpeningunum. Ríkisstjórnin er nýbúin að hækka, eins og ég gat um áðan, útgjaldahlið fjárlaga um 50%, úr 43 milljörðum í 65 milljarða, og verður það eflaust enn þá hærra þegar upp er staðið. Og það er búið að sprengja efnahagsstefnu þjóðarinnar. Þjóðhagsstofnun, forstjóri hennar lýsir því yfir að hann hafi engar forsendur. Það er búið að taka frá honum allt sem hann þarf til að vinna með. Hann hefur engar forsendur til að vinna fyrir ríkisstjórnina lengur og þjóðina. Hann getur ekki gert þjóðhagsspá. Ég held að hann megi ekki gera hana. Það segir mér enginn að Þjóðhagsstofnun hafi ekki einhverjar tölur. Hún hefur tölur en hún má ekki vinna þær. Það er mín skoðun vegna þess að ríkisstjórnin kærir sig ekkert um að láta fólkið sjá árangurinn af starfi sínu þó ekki lengra sé.

Og ofan á allt þetta er svo kjarabarátta í fullum gangi og ef eitthvað er að marka yfirlýsingar stefnir allt í hörð verkföll. Ég vona að svo verði ekki. Ég segi af gefnu tilefni af árásum á stjórnarandstöðuna í sambandi við kjaramál og þá deilu sem er og er að harðna að Borgarafl. er reiðubúinn að gera allt sem í hans valdi stendur til að hjálpa ríkisstjórninni ef hún þarf á því að halda og það getur orðið til þess að komast hjá verkföllum. Mér er næst að halda, ég jafnvel fullyrði hér, að stjórnarandstöðuflokkarnir allir séu reiðubúnir að hjálpa ríkisstjórninni til þess að komast hjá verkföllum, að það verði ekki ríkisstjórninni að falli. En það furðulega við þetta allt saman er að varla hafði ríkisstjórnin samþykkt þær ráðstafanir sem nú gandríða þjóðinni en yfirlýsing kemur frá formanni eins af stjórnarflokkunum um að hann hafi alls ekki viljað þessar ráðstafanir. Hann átti við að hér væri allt að brenna í kalda kol þegar hann tók lýsinguna af Róm. Að sjálfsögðu meinti hann það. Og hann sá í efnahagsráðstöfunum, sérstaklega í vaxtamálum, ófreskju. Við vitum öll hvað ófreskja er. Það er ekkert grín. Ófreskja er ekkert grín. Það er formaður Framsfl. sem segir þetta um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum skömmu eftir að hann sjálfur og hans flokkur hefur samþykkt þær. Og það staðfestist í dag. Þegar hv. 10. þm. Reykv. kemur hér upp og talar eins og hann talaði staðfestir hann nákvæmlega það sem formaður hans var búinn að segja.

Ég er ekkert hræddur við að taka höndum saman við ríkisstjórnina og bæta laun þeirra lægst launuðu með lögboði. Ég skal taka þátt í því. Það er í framhaldi af því sem hæstv. forsrh. talaði um, að ráðstöfunartekjur hefðu aukist um 18% og þjóðartekjur um 8%. Hann segir svo: Það er eðlilegt að bæta kjör þeirra sem lægst eru settir. Og ég er honum sammála. Ég lýsi stuðningi mínum við þessa hugsun. Og ég er líka sammála hv. 16. þm. Reykv. þegar hún segir að lægstu laun verði ekki leiðrétt með kjarasamningum. Ég hlýt að vera henni sammála. Þið hljótið öll að vera henni sammála vegna þess að kjarabarátta verkalýðshreyfingarinnar hefur staðið í 70 eða 80 ár og enn þann dag í dag lifir ekki verkamaðurinn, sá lægst launaði í þjóðfélaginu, af átta stunda dagvinnulaunum og fimm daga vinnuviku. Ég segi: Ég skal koma í samstarf með ríkisstjórninni ef við viljið lögfesta það sem er niðurstaða eftir ítarlega könnun af ábyrgum aðila hvað eiga að vera algjör lágmarkslaun til þess að einstaklingur geti lifað sómasamlega á Íslandi. Það er alrangt hjá hv. 14. þm. Reykv. að það hafi aldrei komið tillaga um leiðréttingu á þessu frá stjórnarandstöðunni. Það kom fram hjá hv. talsmanni Kvennalistans að vegna þess að núverandi stjórnarliðar höfnuðu einmitt þessum ráðstöfunum fóru þær ekki í stjórnarsamstarf. Það er ekki hægt að haga sér þannig að það verði að leiðrétta alla daga og á öllum fundum stjórnarliða. (GHG: Mætti ég spyrja hv. þm. hver séu lágmarkskjörin?) Ég sagði: Það verður að kanna af ábyrgum aðilum. Ég er ekki reiðubúinn til að segja það. Ég veit það ekki. En þeir sem gerst þekkja hafa verið að tala um í kringum 45 og allt upp í 55 þús. á mánuði sem lágmark. Ég veit ekki hvort það er rétt, hvort það er of hátt eða hvort það er of lágt. Ég sagði, eftir könnun ábyrgra aðila, þeirra aðila sem við getum treyst, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, skulum við taka saman höndum og hækka laun við þá lægst launuðu og hætta að tala um það allan tímann að við viljum þetta og við viljum hitt en greiðum svo atkvæði öðruvísi þegar á hólminn er komið. Við skulum vera menn til að breyta þessu.

Hæstv. sjútvrh. er farinn svo að ég ætla ekki að tala til hans. Það hefðu orðið eins konar borgarmálefni að tala við hann að mestu leyti vegna þeirra orða sem hann lét falla um borgarstjórn Reykjavíkur. Þó ég sé ekki alsæll með allt það sem borgarstjórn Reykjavíkur er að fara út í núna held ég að borginni hafi yfirleitt verið nokkuð vel stjórnað. Og sú þensla sem hefur verið á byggingarmarkaði eða vinnumarkaði í Reykjavík er ekki bara vegna framkvæmda borgarstjórnarinnar. Auðvitað vill borgarstjóri, ungur og frískur maður, gera ýmsa hluti og gera þá í hvelli. Hann verður að halda sinni reisn og hann verður að stjórna sinni borg og sínum flokki og það verða allir að skilja. Og ég hef bæði gaman af því og styð hann í mörgu af því sem hann er að gera þó að það sé ekki í öllu.

En hvaða fjárfestingar hafa verið hérna í Reykjavík? Hver byggði Mjólkurstöðina? Hver byggði báknið, SÍS-báknið, ég veit ekki hvað það er kallað, inni á Ártúnshöfða? Hver er að byggja Sláturfélag Suðurlands? Það er fjöldinn allur af byggingum sem hér hafa risið og langstærstu húsin í Reykjavík eru byggð af aðilum sem ekki hafa heimilisfesti í Reykjavík. Ef við tökum þær framkvæmdir í burtu og skiljum bara eftir það sem er byggt á vegum Reykjavíkurborgar verð ég að segja það að þótt ég hefði viljað gera ýmislegt annað, og þá er ég kannski með gömul baráttumál mín í huga, meira fyrir aldraða og á annan hátt en gert er í augnablikinu, er Reykjavík, ekki bara frá ári til árs, heldur frá mánuði til mánaðar, fallegri og betri borg en hún var. Og það hlýtur að vera eitthvert stolt til handa Reykjavík frá öðrum en Reykvíkingum, bara sem höfuðborg. Það þarf hins vegar að fara varlega í allt.

Nú er ég ekki að halda og ætla mér ekki að halda frekari kosningaræðu fyrir Sjálfstfl. eða borgarstjórann í Reykjavík, en ég held að við verðum að meta það sem vel er gert. Við skulum fara í gegnum borgina einhvern tímann saman og sjá hvað er byggt af öðrum en fyrirtækjum heimilisföstum í Reykjavík. Þetta hefði ég viljað, svona með öðru, segja við hæstv. sjútvrh. og náttúrlega er ég búinn að segja það svo oft. Þegar menn eru að fagna hallalausum ríkissjóði, eins og að er staðið, eru það eldhúsin í landinu sem standa undir hallanum. Það er búið að færa halla ríkissjóðs inn í eldhúsin, m.a. með matarskattinum, og svo er talað um að við þurfum á sama hátt í næstu lotu að koma viðskiptahallanum niður í núll. En í guðanna bænum gerið þið það fyrir mig sem fyrrverandi félaga að reyna ekki að koma því yfir á eldhúsin eða heimilin líka, reynið þið að finna eitthvað nýtt. Ég hefði viljað sjá myndarlega skorin niður útgjöldin í staðinn fyrir að hækka þau um 50%.

Þegar ég var fjármálaráðherra á vegum Sjálfstfl. þótti það ekki nóg niður skorið sem þá var á fjárlögum fyrir 1986, en til þess að fá þau fjárlög samþykkt þurfti ég að fá samþykki núv. forsrh., þáv. og núv. formanns Sjálfstfl., og þingflokksins til þess að hóta stjórnarsliti þann sama dag. En strax og fjárlögin voru samþykkt sneri flokkurinn við mér baki. En það er önnur vinnuaðferð í dag.

Ég var að vona að hæstv. fjmrh. hefði eirð í sér að sitja svolítið lengur og kannski skemmta okkur svolítið meira seinna í kvöld. (SJS: Hann skrapp heim til að borða ýsuna.) Já, ég veit það. Hann hefur líklega verið nýbúinn að fá barnabæturnar, þær gefa honum líklega 11/2 til 2 kg af ýsuflökum. En ríkisstjórnin hefur verið upptekin við að leiðrétta mistök síðustu ríkisstjórnar. Hvað segir hæstv. forsrh. við þessu? Að hæstv. núv. fjmrh. hefur þurft að eyða öllum sínum tíma frá því hann varð ráðherra í að leiðrétta mistök forvera síns. Hann hefur ekki verið svo upptekinn, það veit hæstv. forsrh., við að undirbúa skattalögin eða undirbúa staðgreiðslukerfið eða undirbúa virðisaukaskattinn vegna þess að öll þessi frv. voru þegar í undirbúningi hjá hæstv. fjmrh. þess tíma, á undan mér í embætti, Ragnari Arnalds. Mér er næst að halda að fjmrh. á undan honum hafi líka unnið að þessu frv. þannig að það eru margir fjmrh. en oftast nær sömu embættismennirnir í ráðuneytinu sem hafa unnið að þessum málum. Svo að við skulum ekkert hæla okkur af þrekvirki í þeim málum.

Eitt vil ég segja að gefnu tilefni frá hv. 14. þm. Reykv., eða var það hv. 2. þm. Norðurl. e., að þegar ég lagði virðisaukafrv. fram í Ed. Alþingis á sínum tíma sem fjmrh. kom ég því ekki í gegnum Ed. Ég lagði það fram og formaður fjh.- og viðskn., sem þá var hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sagði mér að það væri alls ekki stuðningur í nefndinni fyrir frv. þannig að hann ráðlagði mér að fá það ekki út úr nefndinni. Það getur verið að Sjálfstfl. hafi breytt um skoðun núna. Ég fékk ekki stuðningsyfirlýsingu þegar ég lagði það fram, heldur heimild til að leggja það fram til skoðunar, til kynningar, svo að það getur verið að það sé breytt.

Þessi ummæli og það sem við vorum áhorfendur og áheyrendur að hér í þessu virðulega sameinaða Alþingi og í deildum Alþingis líka við afgreiðslu þeirra frv. sem stjórnin lagði fram var sundurþykkja, óánægja og jafnvel rifrildi á milli stjórnarliða og ráðherrar hæstv. gefandi yfirlýsingar fram og til baka eins og þeir væru að verja sig, verja sinn flokk, og svona skapa fyrirvara fyrir jákvæðri afstöðu sem þeir urðu að taka en voru ekki reiðubúnir til að gera með glöðu geði. Þetta er að koma aftur. Þegar hæstv. fjmrh. færir yfir á forvera sinn alla ábyrgð á öllu því sem illa hefur verið gert kalla ég það ódrengilegt. En það sýnir að það er ekki samstaða í ríkisstjórninni. Þessi ummæli benda til vissrar ástæðu til að ætla að fram undan geti verið stjórnarkreppa. Þessi ummæli eru svo ódrengileg að þrátt fyrir persónulegan ágreining okkar, hæstv. forsrh. og mín, vil ég verja hann gegn svona ummælum. Og ég vara hæstv. fjmrh. við að tala svona.

Fjmrh. hæstv. talaði um það óvissuástand sem hann tók við og gerði lítið úr stjórnarandstöðunni og að stjórnarandstaðan hefði vart mátt mæla þegar stjórnarfrv. komu fram, en á sama tíma var kvartað undan málþófi. Ætli það verði ekki kvartað undan málþófi, hæstv. forseti, vegna þess að ég tala í máli sem er á dagskrá núna, í máli sem hæstv. fjmrh. tók einn og hálfan tíma á miðjum degi til að ræða? Það skyldi þó aldrei vera. Þegar við töluðum var kvartað undan því að við töluðum, en ríkisstjórnin þagði þá þó svo að nú telji hann nauðsynlegt, þegar þessar ráðstafanir hafa sýnt hve vondar þær eru, að tala í einn og hálfan tíma. Hann hefði betur gert það þegar hann þurfti að skýra málin betur og þegar hann var að fá spurningar frá okkur, þegar við vorum að vara hann við til þess að þjóðfélagið liði ekki fyrir það sem hann var þá að kokka.

Hann talaði mikið um að ríkisstjórnin hefði ekki setið aðgerðalaus. Ég verð að segja að þetta er alveg rétt. Ég vil bæta við: Því miður, hún hefði betur gert það. Hún hefði betur setið aðgerðalaus en að halda svona áfram eins og hún hefur gert. Ég kalla það ekki aðhald í útgjöldum eða vinnu gegn verðbólgu að auka útgjöld ríkissjóðs um 50% og þurfa að hækka tekjuhliðina á móti um 22–25 milljarða og segja svo við fólkið í landinu: Þetta skiptir engu máli. Matarskatturinn skiptir ykkur engu mali. Þessir 65 milljarðar sem voru áður 43 fyrir ári síðan, þeir skipta ykkur engu máli. Bíðið þið bara, kjánarnir ykkar, og sjáið þið að eftir nokkra mánuði, kannski ár, eitt og hálft ár, fer verðbólgan niður. Ef það er leiðin að setja á 25% matarskatt og hækka útgjaldalið fjárlaga um 50% og svo tekjuhliðina eða skatta til að mæta því og með þessari ráðstöfun taki það u.þ.b. ár, skulum við segja, nokkra mánuði til eitt og hálft ár, af hverju hækkuðuð þið þetta ekki enn þá meira til þess að ná niður verðbólgunni á skemmri tíma? Ef þetta er sú trú sem þið hafið? Það er alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli láta sér detta í hug að fólkið í landinu sé ekki betur upplýst en þetta.

Virðulegi forseti. Ég veit að það vilja eflaust allir, ekki bara forseti, komast hjá löngum kvöldfundi eða frestun svo að ég skal reyna að stytta mál mitt.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að það þyrfti að útvarpa frá Alþingi öllum umræðum til þess að fólkið í landinu fengi að fylgjast með því sem gerist á Alþingi. Ég vil eindregið taka undir þessi orð og engum trúi ég betur til þess að ná árangri í því sem getur verið Alþingi fyrir góðu en einmitt forseta sameinaðs Alþingis. Ég beini því þessum orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. til forseta vors og bið hann um að koma þessu í framkvæmd og hans mun verða minnst í sögu Alþingis svo lengi sem Alþingi starfar, það fer ekki á milli mála, svo mikil og góð breyting yrði það.

Það er verst að virðulegur þm. er farinn, en hann talaði um að þessi ríkisstjórn hefði gert meira en nokkrar aðrar í tekjuaukningu. Ég held að ég þurfi ekki að endurtaka það sem ég er búinn að segja. Ég vil taka undir þessi orð. Ég held að það sé öllum ljóst og fólkið er farið að finna fyrir því að þessi ríkisstjórn hefur gert meira en nokkur önnur í tekjuöflun. En það er bara þetta sem ég hefði gjarnan viljað vita, hvort þessu grettistaki í fjáröflunarkerfi, eins og hann orðaði það, verður fylgt eftir með þessum eftirlitssveitum og hvernig þær eiga að starfa. Því það er alvarlegt mál, það er miklu stærra og alvarlegra mál en hæstv. fjmrh. kannski gerir sér ljóst, ef það bíður okkar og íslensku þjóðarinnar að helmingurinn af þjóðinni eigi eftir að elta hinn til þess að vita hvort seinni helmingurinn er þjófur eða ekki þjófur. Þetta er miklu stærra mál en hann áttar sig kannski á. Það getur verið og ég vona að hann hafi þarna troðið á tungunni á sér, en ekki verið að upplýsa samþykktir ríkisstjórnarinnar.

Þá vil ég segja það að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur misskilið hv. 7. þm. Reykn. Hann var að tala gegn því að festa íslensku krónuna við einhvern erlendan gjaldeyri en ekki með því. Hann var að tala gegn því. Þetta mál sem nú er uppi eða hugmynd sem hér hefur komið fram á Alþingi í, að ég held, frumvarpsformi, að íslenska krónan verði lögð niður og samstarf verði tekið upp við erlendan aðila er ekki ný hugmynd. Hún kom upp hjá Jónasi Jónssyni á sínum tíma. Þegar rætt var um það fyrst að Bandaríkjamenn fengju hér aðstöðu á Keflavíkurflugvelli með hersetu var talað um að tryggja alls konar framkvæmdir á vegum og á kostnað Bandaríkjamanna. Það var talað um að Bandaríkjamenn tryggðu sölu á öllum okkar afurðum á hámarksheimsmarkaðsverði meðan þeir væru hér og ekki minna en til 99 ára ef ég man rétt. Og það var talað um að gullfótur dollarans tryggði jafnframt íslensku krónuna eða jafnvel yrði tekinn upp dollari á Íslandi á meðan samningarnir væru í gildi svo að þetta er ekkert nýtt mál. En ég er jafnmikið á móti því nú eins og þegar Jónas Jónsson sagði mér frá þessu löngu eftir að hann hafði borið það fram.

Ég ætla ekki að fara að ræða í fjarveru hv. 2. þm. Austurl. fullyrðingar hans í sambandi við þátttöku ríkisins í að spenna upp vexti og verðbréf og verðbréfamarkaðinn. Það sér hins vegar hver heilvita maður að þegar ríkisstjórnin þarf að bjóða hærri vexti og betri kjör í hverf skipti sem einhver verðbréfaflokkur fellur í gjalddaga og ríkissjóður þarf að standa í skilum þarf hann alltaf að selja ákveðið magn til þess að geta staðið í skilum. Og með því að hækka vextina og jafnvel bjóða afföll líka tekst honum að brúa bilið frá einum gjalddaga til annars. Þetta er ljótur leikur sem hlýtur að enda með skelfingu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að þessu sinni, en ég vona að þó ég hafi tekið þátt í þessum umræðum verði það ekki skrifað á málþóf.