04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4345 í B-deild Alþingistíðinda. (3001)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar löngu umræðu um efnahags- og kjaramál langar mig að þakka forseta fyrir þolinmæði hans við okkur þm. í dag. Mig langar að endingu að svara þótt í litlu sé orðum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. og málshefjandi hafði í sinni síðustu ræðu um vaxtastefnu stjórnarinnar og kenninguna sem hún er á byggð. Reyndar vék hv. síðasti ræðumaður einnig að þessu sama máli í sinni ræðu.

Þeim þótti það báðum og mörgum öðrum, sem eru gagnrýnir á það sem gert hefur verið í vaxtamálum hér á síðustu árum, að þetta byggist á grárri, þurri kennisetningu um jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lánamarkaði og styðjist ekki, eins og það er stundum orðað, við íslenskan veruleik. Ég get ekki á mér setið að minna þá sem þannig tala á það að e.t.v. hafa verið öflugustu talsmenn raunvaxta á Íslandi tveir þm. sem nú eru allir, þeir Magnús Kjartansson og Vilmundur Gylfason, sem báðir töluðu fyrir jákvæðum raunvöxtum út frá siðferðilegu sjónarmiði fremur en hagsýni eða hagfræði. Þeir spurðu: Hvernig er það verjandi að láta sparifé almennings og oft hinnar eldri kynslóðar brenna upp á báli verðbólgunnar? Af öllu því tjái og tundri sem óðaverðbólgunni fylgdi væri þetta verst. Þetta eru sannindi sem við eigum að hafa hugföst. Þetta er ekki þurr kennisetning. Þetta er ávöxtur á lífsins tré sem við eigum að nema okkur til skilnings. Þetta vil ég biðja hv. 4. þm. Norðurl. e. að hafa hugfast þegar hann hugleiðir vaxtastefnuna og minni hann á um leið að sennilega hefur nýsköpunin á fjármagnsmarkaðnum með öllum sínum göllum haft þá kosti í för með sér að gefa hinni eldri kynslóð og þeim sem vilja spara kost á að verja sinn geymda eyri þannig að hann verði græddur. Þetta vildi ég biðja hv. þm. að hafa hugfast þegar þeir gagnrýna vaxtastefnu þessarar stjórnar.