08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég nota tækifærið til að taka þátt í þessari umræðu. Þannig er mál með vexti að fyrir skömmu átti ég tal við orkuráðherra Bretlands, Cecil Parkinson, og lýsti þá áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna stækkunar endurvinnslustöðvarinnar í Dounreay og reyndar einnig vegna uppbyggingar kjarnorkuraforkuvera í Bretlandi. Núna um þetta leyti er verið að opna nýja stöð nálægt Edinborg og lítið lát virðist vera á því að Bretar muni framleiða raforku í kjarnorkuverum þótt segja megi að Frakkar séu kannski enn þá harðari í horn að taka, ef svo má að orði komast, því að andstaða í Frakklandi virðist vera mun minni en í Bretlandi gegn kjarnorkuverunum.

Það er kannski athyglisvert vegna þess fréttaflutnings sem kemur hingað til Íslands að átta sig á því að norður í Skotlandi virðist vera mun minni andstaða gegn kjarnorkuverunum en í Englandi og gagnrýnin virðist vera meiri eftir því sem sunnar dregur í landinu.

Í viðtölum mínum við forráðamenn skosku raforkufyrirtækjanna bæði norður-skoska og suðurskoska fyrirtækisins kom í ljós að þau munu beita athygli sinni í auknum mæli á næstunni að því að framleiða raforku úr gasi, einkum súru gasi, sem er erfitt að nota til húshitunar, og kemur úr Norðursjónum. Má þess vegna búast við því að tilraunastarf þeirra muni beinast frekar að slíku á næstunni til þess að sinna þeirri orkuþörf sem fyrir er á Bretlandseyjum. Í dag kaupir stærsta fyrirtækið sem framleiðir orku í Bretlandi, CEGB, verulega orku frá Frakklandi, allt að 2000 mw.

Í viðræðum mínum við Cecil Parkinson lét ég koma fram að Íslendingar hefðu haft forgöngu um, það var Matthías Bjarnason ráðherra, að flytja tillögu á fundinum í Cardiff sem haldinn var á grundvelli alþjóðasamþykktarinnar um siglingamál sem gerð var í París á sínum tíma. Einnig lét ég koma fram að enn fremur hefðu Íslendingar, þ.e. Ragnhildur Helgadóttir ráðherra, átt aðild að samþykkt Norðurlandaráðherra sem um þetta mál fjölluðu á sínum tíma.

Ég vil, herra forseti, láta það koma hér fram og ég fagna því að menn hafi náð saman um þessa tillögu, en vildi jafnframt fá tækifæri til þess að skýra frá að ég fyrir hönd íslenskra stjórnvalda lét koma fram áhyggjur okkar vegna stækkunarinnar í Dounreay og reyndar þeirrar stefnu sem birtist með raforkuframleiðslu Breta í kjarnorkuverum.