08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4356 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

52. mál, mótmæli gegn stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég fagna framgangi þessa máls hér á þingi og fagna því að þessi till. er komin í þessu formi fyrir Sþ. Ég vil jafnframt leyfa mér vegna þeirrar umræðu sem hér fer fram um mengunarhættuna frá Dounreay að þakka hæstv. iðnrh. fyrir það sem hann hefur sagt hér, en jafnframt vekja athygli á því gífurlega andvaraleysi sem hér á landi hefur viðgengist gagnvart mengun Norður-Atlantshafsins.

Á fundi vestnorræna þingmannaráðsins sem haldinn var fyrir nokkrum mánuðum flutti ég tillögu um að komið yrði á fót stofnun sem skipulegði og samræmdi mengunarrannsóknir og varnir gegn mengun Norður-Atlantshafsins og ætlaðist til þess að ríkisstjórnir allra Norðurlanda kæmu þar við sögu. Þessi tillaga var samþykkt lítið breytt, en eins og farið hefur um tillögur frá vestnorræna þingmannaráðinu, þá hafa þær ekki borist til ríkisstjórna viðkomandi landa eða mér virðist þær vera saltaðar í þeim löndum þar sem þessir fundir hafa farið fram og þeim er á engan hátt fylgt eftir.

Í þessari till. var einnig gert ráð fyrir því að þegar í stað yrði boðað til alþjóðlegrar ráðstefnu vísindamanna um ástand Norður-Atlantshafs, mengunarástand Norður-Atlantshafs. Þessa tillögu rökstuddi ég m.a. á þeim forsendum að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar ættu allt sitt undir því að Norður-Atlantshafið mengaðist ekki m.a. af völdum olíu, skipaumferðar og kjarnorku.

Ég hef haft af því vaxandi áhyggjur eftir því sem ég hef fengið meiri upplýsingar, m.a. um ferðir kjarnorkuknúinna skipa um Norður-Atlantshafið, að þar gæti orðið slys sem væri af þeirri stærðargráðu að efnahagsafkomu íslenskrar þjóðar, færeyskrar þjóðar og grænlenskrar þjóðar yrði ógnað í mjög verulegum mæli. Ég hef oft spurt eftir því þegar ég hef verið á fundum með herfróðum mönnum hversu mikil hætta væri á árekstrum, t.d. kafbáta og annarra herskipa sem m.a. sigla um Norður-Atlantshafið og hve mikil hætta gæti verið á því að þessi skip misstu út geislavirkt kælivatn. Ef slíkt gerðist í nágrenni við gotstöðvar eða hrygningarstöðvar, t.d. þorskstofns sem við byggjum að verulegu leyti afkomu okkar á, þá yrði ekki að sökum að spyrja, því að þá er sá stofn ónýtur til næstu 100 ára eða svo.

Mér finnst andvaraleysi okkar Íslendinga gagnvart þessum málaflokki vera alveg ótrúlegt. Herfróðir menn hafa tjáð mér að það sé lítil hætta á þessum slysum. Hins vegar átti ég kost á því fyrir mjög stuttu að ræða við fyrrverandi skipherra á breskum kjarnorkukafbáti. Ég spurði hann þessarar spurningar og spurði hann hvort það væri rétt að lítil hætta væri á því að geislavirkt kælivatn færi út, t.d. við árekstur tveggja skipa eða árekstur skips á rif, neðansjávarfjallgarð eða eitthvað slíkt og sagði honum jafnframt að ég hefði ævinlega fengið þau svör að slíkt gæti ekki gerst. Þessi skipherra var nú aldeilis á öðru máli. Hann sagði það fullum fetum að það gæti gerst að kjarnorkuknúið skip missti út geislavirkt kælivatn við árekstur. Og hans orð tek ég auðvitað trúanleg.

Það er annað sem ég hef áhyggjur af og þess vegna flutti ég þessa tillögu. Ég hef þær upplýsingar frá Hafrannsóknastofnun að þar, eða á milli stofnana innan Norðurlandanna, sé ekki fyrir hendi nein samvinna. Upplýsingaskipti eiga sér stað, en það er engin formleg samvinna á milli þeirra stofnana sem um mengunarmál Norður-Atlantshafsins fjalla, ekki á neinu sviði. Þær senda á milli sín upplýsingar um mengunarástandið. Og ég vil skjóta því inn í að auðvitað þyrftu allar þjóðir sem eiga land að Norður-Atlantshafi að koma inn í þessa samvinnu. Annað væri ekki vitrænt. Það eru til alþjóðlegir samningar um varnir gegn mengun sjávar sem eru kenndir við Osló og París en samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknastofnunar þá vinnur hver þjóð út af fyrir sig að þessum rannsóknum sem hafa undirritað samninginn. Þannig að samstarfið og samvinnuna skortir algjörlega.

Ég hygg, herra forseti, að þessi málaflokkur hafi raunverulega farið í glatkistuna hjá okkur hér á hinu háa Alþingi á undanförnum árum. Við höfum sáralítið eða ekkert fjallað um þetta og ef maður fer að hugsa um það þá er það argasti dónaskapur af stórveldunum í austri og vestri að haga sinni herskipaumferð um íslensk hafsvæði þannig að við höfum enga vitneskju um í raun og veru hvað þar fer fram. Það væri t.d. fróðlegt að heyra um það frá hæstv. utanrrh. hvort hann hefði einhverjar tölulegar upplýsingar um það hve mikil þessi umferð er t.d. á dag, viku eða á mánuði, bæði umferð kafbáta sem unnt er að greina og sú umferð annarra herskipa sem knúin eru með kjarnorku.

Ég vildi, herra forseti, vekja athygli á þessu vegna þess að ég hygg að hér sé á ferðinni mál sem snertir alla afkomu íslensku þjóðarinnar upp til hópa. Það yrði ekkert bundið um sárin ef eitthvert slys yrði á borð við það sem ég hef hér nefnt.