08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Það er furðulegt nokkuð að heyra hér hv. alþm. fara að gagnrýna að draga þurfi úr landbúnaðarframleiðslu hér á landi í samræmi við markaðsaðstæður eftir alla þá umræðu sem búin er að vera um þörf á því og rísa nú upp og mótmæla slíku.

Því miður hefur þörf fyrir þennan samdrátt verið mikil þar sem markaðir hafa hrunið erlendis og útflutningur er því ákaflega óhagstæður. Nú vilja framleiðendur eggja og kjúklinga koma í veg fyrir það að þeir séu að framleiða vöru sem enginn markaður er fyrir og verða því að sitja uppi með bótalaust. Því hafa þeir óskað eftir að nýta sér rétt búvörulaganna, sem veitir þeim heimild til að stjórna sjálfir endurgreiðslu á sérstöku fóðurgjaldi. En það er ekki aðeins réttur framleiðenda í þessum lögum sem þarna skiptir máli heldur eru það líka lagaákvæðin sem segja í 30. gr. búvörulaganna að þessa endurgreiðslu skuli miða við framleiðslumagn eftir þörf hins innlenda markaðar. En það er þó enn þá ríkari ástæða til þess að þarna sé hugsað um magnið sem innlendir neytendur þurfa þegar kemur að því að fara að greiða úr ríkissjóði nokkurn hluta af söluskatti eins og ákveðið var með síðustu breytingu á búvörulögum.

Ég get ómögulega skilið að það sé hagur neytenda að greiða úr ríkissjóði fjármagn til þess að framleiða vöru sem þeir ekki nota. Það er ofvaxið mínum skilningi. Ég held að það sé að sjálfsögðu hagsmunamál neytenda að fjármagnið sem þannig er ráðstafað úr ríkissjóði nýtist sem best til þess að greiða niður þá framleiðslu sem þeir þurfa á að halda. En í sambandi við verðlagninguna og verðlag á eggjum og kjúklingum, þá er rétt að benda á að það verð sem nú gildir hefur verið óbreytt síðustu vikur og það sama verð sem var í gildi áður en þessi reglugerð var gefin út og það er verð sem hin frjálsa samkeppni skóp. Þegar verið er að gagnrýna núna þetta verðlag þá er að sjálfsögðu verið að gagnrýna verð hinnar frjálsu samkeppni.

En nú telja kaupmenn að þeir geti selt innflutta framleiðslu á eggjum á svipuðu verði og smásöluálagningin er á innlendu framleiðslunni. Það er því óhjákvæmilegt að spyrja hvernig á því standi að þeir þurfi að fá svo miklu meira fyrir að selja innlenda framleiðslu en innflutta. Og af hverju hafa Neytendasamtökin ekki farið fram á það að lækka smásöluálagninguna eins og þau hafa farið fram á að lækka verðið til framleiðenda?

Það er að sjálfsögðu margt fleira í þessu, en tíminn leyfir ekki að ég ræði meira um það að þessu sinni. En ég mun þá svara hér fsp. síðar.