08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Þetta mál sem hér hefur verið tekið til umræðu er að mínum dómi allt hið hörmulegasta. Ég tel að það sé mikil afturför frá sjónarmiði hins almenna neytanda að framleiðendur í þessum greinum sem hér eru til umræðu skuli í raun óska eftir framleiðslustjórnun og kvótakerfi í framleiðslu kjúklinga og eggja. Ég tel raunar að það þjóni ekki hagsmunum þessara framleiðenda sjálfra þegar fram í sækir, enda er frjáls verðmyndun beggja hagur, framleiðenda og neytenda, þegar til lengri tíma er litið.

Það veldur miklum vonbrigðum að framleiðendur í þessum búgreinum, sem til þessa hafa fallið undir almenn verðlagsákvæði, skuli hafa séð sig til þess knúna, m.a. vegna mikillar skattheimtu, að leita sams konar verndar og hinar hefðbundnu landbúnaðargreinar njóta í krafti búvörulaganna á grundvelli sérstöðu sinnar.

Ég verð jafnframt að segja að ég tel algjörlega óeðlilega að því staðið að nota tækifærið við skattkerfisbreytingarnar um áramótin, þegar ákveðið var að lækka kjarnfóðurskattinn í því skyni að draga úr áhrifum söluskatts á verð þessara afurða, nota þá tækifærið og hneppa þessa framleiðslu í það kerfi sem ríkir í hefðbundnum landbúnaði. Er það ekki einmitt tilgangur slíkrar ráðstöfunar að halda uppi verðinu á þessum vörum þvert á það sem ætlunin var með því að lækka kjarnfóðurskattinn?

Síðan má auðvitað spyrja hvaða vit sé í því að innheimta sérstakt kjarnfóðurgjald, en endurgreiða það til tiltekinna framleiðenda að 75/80 hlutum. Hefur það nokkurn tilgang annan en þann að halda nýjum aðilum frá framleiðslu á þessu sviði?

Herra forseti. Það efast enginn um að búvörulögin veiti framleiðendum lagalega heimild til að óska eftir framleiðslustjórnun með þeim hætti sem nú er orðið. Hitt hljóta menn að vona að þær aðstæður skapist sem fyrst að framleiðendur geti náð samkomulagi um að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Það er ekki í þeirra þágu að eiga í stríði við neytendur og samtök þeirra, enda er það hagur allra góðra framleiðenda að gera viðskiptavinum sínum til geðs. En menn hljóta að skoða það í nokkurri alvöru hér á Alþingi hvort tilgangurinn með þeirri lagagrein sem hér er stuðst við í þessu máli hafi verið að fá fram þá stöðu sem nú er upp komin.