08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (3019)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Í fjarveru forsrh. bar hv. málshefjandi fram ákveðna spurningu þess efnis hvort reglugerð sú er hæstv. landbrh. hefur gefið út hafi verið borin undir ríkisstjórnina. Af því tilefni vil ég aðeins segja það að hún var kynnt ríkisstjórninni. Innan ríkisstjórnarinnar eru skiptar skoðanir, deildar meiningar, um þetta mál eins og komið hefur fram í umræðum um málið. Það er ekki venja í ríkisstjórn að bera undir atkvæði málefni á borð við þetta, enda leikur enginn vafi á því að hæstv. landbrh. fer með þetta mál samkvæmt íslenskum lögum.

Ég vil enn fremur að það komi hér fram að forsrh. hefur ekki úrskurðarvald um það í þessu máli eins og ætla mátti af ummælum hæstv. viðskrh. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands hefur hæstv. forsrh. úrskurðarvald um það undir hvert ráðuneyti málefni heyri, en ekki, eins og deilur voru hér um, um það hvort málið heyrði undir hæstv. viðskrh. eða hæstv. landbrh. því annar hæstv. ráðherra fer með verðlagsmál en hinn með landbúnaðarmál. Um þetta eru ekki deildar meiningar. Ríkislögmaður hefur skilað inn minnisblaði til hæstv. forsrh. og tekið þar skýrt fram að hæstv. landbrh. fari alfarið með þennan málaflokk.

Efnislega ætla ég ekki, herra forseti, að ræða mikið um þetta mál. Ég vil þó aðeins geta þess að það er mín von að í framtíðinni verði hægt að leita markaðslægari leiða til þess að leysa úr þeim vanda sem landbúnaðurinn á við að etja. Ég hef skilning á því að lögin sem nú eru í gildi og sá samningur sem gerður var við bændur er eðlilegur miðað við núverandi aðstæður. En það getur ekki verið keppikefli að halda í hann til allrar framtíðar. Ég vísa að öðru leyti til orða hv. 17. þm. Reykv. og tek undir hans sjónarmið.