08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni að ég er algjörlega andvígur framleiðslustýringu á kjúklingakjöti og eggjum. Ég held að Íslendingar verði að fara að gæta sín á því að festast ekki í þessum kvótakerfum og stýringum. Ég held að það sé verið að hneppa þjóðfélagið í viðjar með þessu, alveg tvímælalaust.

Það er vel skiljanlegt að menn þurfi að grípa til slíkra aðgerða í hefðbundnum landbúnaði þar sem vandinn er mikill og markaðurinn dregst saman. Í öðrum greinum megum við ekki fara inn á þessa braut. Ég vil bara nefna dæmi: Hvað með húsgagnaframleiðendur þegar þeir áttu í sínum vanda? Af hverju fengu þeir ekki bara kvóta á ákveðna framleiðslu? Hvað með verkfræðistofurnar? Af hverju fá þær ekki bara kvóta á sitt? Það er þá kannski lítil spurning um að halda í verkefni, það er lítil spurning um gæðin eða verðið ef menn koma slíkum kvótum á. Hvað með innflutningsfyrirtækin? Eiga þau líka að fá kvóta? Hvað með fjármagnsleigurnar sem menn eru mikið að tala um núna? Ætti að skipta verkefnunum upp á milli þeirra í kvótum?

Ég held að við séum á villigötum með þessa framleiðslustýringu þarna. Það er mikill munur á því hvort gripið er inn í stór vandamál eins og í hefðbundnum landbúnaði eða stýringu auðlindar eins og í sjávarútvegi og þá helst tímabundið eða hvort menn grípa til slíkra aðgerða sem þarna er gert. Og þá kemur spurningin: Hvar ætla menn að enda? Það er auðvelt að horfa til fleiri atvinnuvega og slíkur samanburður hlýtur að sýna okkur að kerfi sem þetta gengur ekki upp.