09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4381 í B-deild Alþingistíðinda. (3034)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Guðni Ágústsson:

Herra forseti. Ég óskaði eftir að verða settur á mælendaskrá í hita leiksins þann dag sem hv. flm. þessa ágæta frv. mælti fyrir því. Ég geri mér grein fyrir því að mér er ærinn vandi á höndum að tala á eftir hinum reyndasta bankaráðsmanni, manni sem hefur um langt skeið stjórnað ríkisbanka, banka sem hefur tekið þátt í þenslu og baráttu í landinu og er umsvifamikill á þenslusvæðinu hér syðra.

Um frumvarp hv. þm. Eggerts Haukdals er það að segja að mér finnst það virðingarverð tilraun. Það hefur kviknað á einni peru í viðbót sem skynjar að íslenskt þjóðfélag er í vanda statt. Það gefur manni vonir um að fleiri í hans flokki muni setjast niður og ráða sínum ráðum því að sannarlega er það svo að vandinn er stór sem við stöndum frammi fyrir. Mér finnst kannski að menn greini það að við vanda er að etja en skoðanirnar eru skiptar um hvernig á að taka á þeim vanda.

Ég gerði mér grein fyrir, þegar ég hafði litið fljótt yfir frv., að hér væri kannski ekki akkúrat lausnin. En mér sýnist þó að skákin sé nokkuð djúpt hugsuð og að menn eigi virkilega að skoða þennan kost sem bent er á. Ég geri mér grein fyrir að verðtryggingin er mikilvæg og hún yrði ekki lögð niður með frv. Peningastjórnunin í landinu hefur eigi að síður farið úr böndunum af ýmsum ástæðum. Ég hygg að margir hafi spáð því að svo færi. Ég minnist þess að um það leyti sem verðtrygging var tekin upp og ég gekk á fund bankastjóra míns til að fá lán sagði hann þá setningu sem ég gleymi aldrei. Hann sagði: Ég skal lána þér en verðtryggt lán færðu aldrei því að sá tími kemur að það verður aðaltekjulind bankanna í landinu að selja ofan af unga fólkinu húsin sem það er að kaupa. Nú hygg ég að það hafi ekki gerst verðtryggingarinnar einnar vegna, heldur vegna hins að allur sá vandi sem þessi þjóð á við að glíma er stjórnarfarslegur. Ég tel að við þurfum í heild sinni að taka sjúklinginn á borðið og nema burt meinið sem við er að etja. Ég hygg að ein meginógæfan liggi einmitt á þessum árum sem verðtryggingin er tekin upp, í kringum 1978–1979. Allmörg ár eftir það gekk mjög illa að ná stjórn á efnahagsmálum Íslendinga sem manni fannst nú að mjög væri að takast í lok hins síðasta kjörtímabils. En við sjáum eigi að síður að á þeim tíma og á tíma þessarar ríkisstjórnar hefur margt gerst sem gerir það að verkum að peningastjórnin fór úr böndunum.

Við höfum viljandi eða óviljandi sett þá þenslu í gang sem nú ríkir, aukið eftirspurnina eftir peningunum. Við höfum skapað nýtt bankakerfi í undirheimum þessa þjóðfélags sem kannski er ein aðalrótin að þeirri óraunsæju fjárfestingu sem einkageirinn, sem einstaklingarnir hafa farið út í á síðustu missirum. Síðan er það sem stjórnmálamönnum hefur í of ríkum mæli hætt til, það eru hinar stóru sveiflur, það eru hinar stóru ákvarðanir um ýmsa hluti. Við getum tekið sem dæmi að menn hafa prófað að setja kaupið fast, flest annað frjálst. Menn hafa prófað að setja gengið fast, allt annað frjálst. Því er það spurningin hvort næsta tilraun ætti ekki að vera fólgin í því að banna hækkanir á vöru og þjónustu. En ég held einmitt að þessar tilraunir, að taka á einum þætti en ekki alhliða á vandamálunum geri það hvernig farið hefur. Fyrir utan hitt að íslensk þjóð hefur í rauninni ekki kunnað með peninga að fara. Það tekur kynslóðir að læra það og það er örstutt síðan við fórum að handleika peninga. Við sjáum að eyðsluhugsunin er rík í okkur.

Ég hygg að með ýmsum ráðum hafi stjórnmálamennirnir átt þátt í því að auka á eyðsluhneigð þjóðarinnar sem hefur aukið eftirspurnina eftir peningunum sem hefur kannski einmitt eyðilagt lánskjaravísitöluna o.s.frv.

Snögg bílalækkun olli því að við eigum hér í landinu heimsmet, 143 000 bíla, og manni sýnist innflutningurinn á nýjum bílum rétt vera að fara í gang.

Við höfum tekið upp plastkort þar sem við kennum þjóðinni að skulda, sennilega til þess að einhverjir versli í hinum dýru húsum sem er verið að offjárfesta í í verslunargeiranum í landinu.

Við höfum hafið hina hrikalegu fjölmiðlabyltingu þar sem stöðvarnar skipta nú orðið sennilega tugum í landinu. Mér er sagt að það glymji yfir þessari fámennu þjóð einir fjórir, fimm ljósvakar á hverri nóttu.

Þetta er offjárfesting sem menn verða að taka á. Við erum svo fámennir Íslendingar.

En ef við aðeins horfum á bankakerfið og á atvinnulífið finnst mér það stundum mjög einkennilegt að heyra hina lærðu menn sem virðast horfa blindum augum á vaxtaklukku Seðlabankans. Þeir gleyma undirheimabankakerfinu sem leikur lausum hala og hefur skapað þensluna. Þeir gleyma því að þeir frystu gengið og atvinnulífið stendur í talsverðri neyð. Bankakerfið bindur töluvert mikið af fjármagni sínu í Seðlabanka en undirheimakerfið leikur frjálst, þangað fer atvinnulífið í neyð eftir peningum og þar eru raunvextir að mér er sagt 12–18%. Og þarna sjá menn að þetta kann ekki að ganga upp. Við hljótum að aka með sama áframhaldi inn í blindgötu sem atvinnulífið þolir ekki. Útflutningsatvinnuvegirnir fá ekki að njóta sín, enda sjáum við að þeir eiga í mikilli neyð. Það hriktir í sjávarútveginum. Það brestur í atvinnulífinu á Vestfjörðum með ein bestu fiskimið við hliðina á sér, þar sem þrótturinn ætti að vera miðað við það ástand sem hefur ríkt: hækkandi fiskverð, lægsta olíuverð sem við munum eftir o.s.frv.

Hvert er arðurinn fluttur? Hvers vegna hefur störfum í ullariðnaði fækkað um fleiri hundruð? Hvers vegna er ekki lengur hægt að flytja þær afurðir til útlanda o.s.frv.? Hvers vegna eru nýgreinar eins og loðdýrarækt í vanda staddar? Verðið er ágætt á erlendum markaði, en krónurnar fáar sem koma þegar skipt er úr myntinni yfir í íslenskan gjaldmiðil. Ég hygg því að það færi nokkuð saman að skoða þessa tillögu flm. um að leggja niður lánskjaravísitölu en taka upp gengistryggingu af sparilánum um leið og við bindum okkar gengi í þágu útflutningsgreinanna en ekki þenslunnar. Ég held að það væri mjög mikilvægt.

En hvaða ráð á ríkisstjórnin? Hvað eiga opinberir aðilar að gera? Þeir geta auðvitað ýmislegt gert til þess að draga úr þenslunni, draga úr eftirspurninni. Við sjáum það að flugstöð og Kringlan eiga stóran þátt í þenslu síðasta árs og þeirri ógæfu sem fór í gang um leið og hinn mikli viðskiptahalli, sem er spáð 10–12 milljörðum á þessu ári, á sinn stóra þátt í þessari þróun. Þjóðin er að eyða um efni fram.

Ég hygg að ríkisstjórnin, sveitarfélögin, opinberar og hálfopinberar stofnanir geti í raun að hluta tekið á þessum vanda með því að draga úr fjárfestingum sínum. Varðandi fjárfestingar ríkis og sveitarfélaga á þessu ári skilst mér að spáð sé að þau muni fjárfesta fyrir 15–20 milljarða. Ég hygg að stjórnmálamenn verði hiklaust að þora að fara fram á heildarendurskoðun og að dregið verði úr þessum fjárfestingum.

Ríkisstjórnin verður að vera ábyrg og hún verður að krefjast þess af lýðkjörnum sveitarstjórnarmönnum um allt land að þeir verði einnig ábyrgir. Mér skilst að Reykjavíkurborg ein eigi 60% af heildarfjárfestingu sveitarfélaganna á þessu ári, sveitarfélag sem hefur þriðjung af fólkinu í landinu. Ég held því að menn verði mjög að horfa á þetta og draga úr fjárfestingunni þannig að eftirspurnin minnki.

Ég fagna þessari tillögu flm. og sé það við nánari athugun að hún er þess virði að menn skoði hana sem raunhæfan kost samfara ýmsum öðrum aðgerðum sem ég hef hér nefnt. Ég held að menn verði að taka á þjóðfélaginu í heild sinni og lúta kannski ekki um of úrræðum hinna lærðu manna sem hafa setið á skólabekk með milljónaþjóðum við allt aðrar aðstæður en okkar í rauninni vanþróaða þjóðfélag hvað peningamál snertir og hina öru framkvæmdaþrá og uppbyggingu. Við höfum séð það hér á síðustu missirum að lögmálin sem mennirnir trúa á og geta trúað á með ríku þjóðunum gilda ekki. Að hækka vexti hér þýðir aukna eftirspurn því það er nú svo að bæði er lítið um mjög mikla eignamenn hvað einstaklinga og fyrirtæki varðar á Íslandi þannig að þessi lögmál gilda þess vegna síður. Kannski er það rétt sem spakmælið segir að hagfræðingur er maður sem hefur lært álit um peninga en á ekkert af þeim sjálfur.

En ég mun taka þessari tillögu sem raunhæfum kosti og vil þakka flm. fyrir að hafa lagt vinnu í þetta verk. Ég trúi því að það muni kvikna á enn þá fleiri perum í hans húsi, mönnum sem vilja leggja sig fram mönnum sem kannski viðurkenna að peningamarkaðurinn á Íslandi er orðinn ófreskja. Ég hygg að það sé rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að hafi ríkisstjórnin ekki þor til þess að taka á efnahagsmálum í heild sinni nú á næstu vikum, þá mun hún ekki sofa sæl í rúmi sínu margar nætur eftir að góu er lokið.