09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4384 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Um frv. þetta til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár á þskj. 279 hafa orðið langar umræður. Það sýnir að mál þetta er áhugavert og mikilvægt, en kannski ekki að sama skapi auðleyst á þann veg að öllum henti. Í raun og veru er málið þó svo brennandi ef svo má segja að það er varla hægt að láta slíkar umræður alveg fram hjá sér fara.

Í 1. gr. þessa frv. segir að Seðlabanki Íslands geti „að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að nafnvextir af útlánum verði eigi hærri en þeir eru í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.“ Og í 6. gr. er kveðið svo á að við gildistöku laga þessara hætti verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu gagnvart öllum nýjum fjárskuldbindingum og þar með séu úr gildi fallin ákvæði Vll. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála.

Hugmynd hv. flm. virðist m.a. byggja á tvennu: Annars vegar lögbindingu hámarksnafnvaxta miðað við vexti í helstu viðskiptalöndum Íslands og hins vegar að hætt verði verðtryggingu samkvæmt lánskjaravísitölu. Ég ætla að fara um hvort þessara atriða örfáum orðum.

Satt að segja er ýmislegt sem mælir á móti löggildingu nafnvaxta með þessum hætti. M.a. má benda á það að verðbólga hér á landi er mun meiri en í helstu viðskiptalöndum Íslands. Raunvextir yrðu því neikvæðir hér á landi á ný með afleiðingum sem við þekkjum frá síðasta áratug. Það er einnig ákaflega erfitt að skilgreina nafnvexti í viðskiptalöndunum með fullnægjandi hætti því þeir eru mjög mismunandi eftir löndum og tegundum lánsviðskipta. Loks má benda á það að skv. 9. gr. laga nr. 36 frá 1986, um Seðlabanka Íslands, hefur Seðlabankinn heimild með samþykki viðskrh. til að grípa inn í vaxtaákvarðanir banka til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána. Hvort sem litið er á raunvexti um þessar mundir eða vaxtamun leikur enginn vafi á því að peningayfirvöld gætu íhugað alvarlega að hafa afskipti af vöxtum, ef þau yfirleitt telja það skynsamlegt.

Þá er að víkja aðeins að lánskjaravísitölunni. Hún var lögfest með lögum nr. 13/1979. Í grg. segir að hún fái ekki staðist lengur, hún hafi sprengt gjaldþol þegnanna, ekki aðeins atvinnufyrirtækja og heimila, heldur einnig opinberra stofnana og ríkissjóðs sjálfs sem rekinn hafi verið með halla. Útflutningsframleiðslan eigi einkanlega undir högg að sækja, eins og hér hefur verið margbent á í þessum umræðum. Og vikið er að því að við höfum í raun og veru búið við vaxta- og verðlagsskrúfu sem ekki sé unnt að hemja og sem ekki verði búið við til lengdar.

Að því er varðar lánskjaravísitöluna má benda á ýmislegt sem mælir með því að notkun hennar verði a.m.k. takmörkuð. Almenn vísitölubinding fjárskuldbindinga takmarkar möguleika stjórnvalda til að beita peningamálum í hagstjórnartilgangi ef svo má segja. En benda má á í þessu sambandi að mér er kunnugt um það að ýmsar alþjóðastofnanir hafa þráfaldlega gagnrýnt þetta fyrirkomulag hér á landi og víðtæk vísitölubinding fjárskuldbindinga þekkist ekki í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við að því er ég best veit. Hins vegar orkar t.d. tvímælis að banna alveg viðmiðun við lánskjaravísitöluna að því er varðar lán til langs tíma, þ.e. lán lífeyrissjóða, húsnæðislán og ríkisskuldabréf. Það mætti því orða það svo að þarna þyrfti málamiðlun í þessu sambandi Sem gæti verið á þann hátt að takmarka vísitölubindingu fjárskuldbindinga við lán til lengri tíma en t.d. fimm ár eða svo.

Hvaða áhrif mundi það hafa? Takmörkun vísitölubindingar fjárskuldbindinga við lán til lengri tíma en fimm ára mundi fela í sér að öll almenn bankaviðskipti yrðu án vísitölubindingar. Það tel ég að mundi hafa veruleg áhrif á fjármagnsmarkaðinn utan bankanna.

VII. kafli laganna nr. 13/1979 geymir ákvæði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár en lögin fjölluðu, eins og ég nefndi áðan, um stjórn efnahagsmála og fleira.

Í 34. gr. laganna segir í upphafi að stefnt skuli að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Auðvitað skiptir meginmáli að efla innlendan sparnað og sjá til þess að sparifé þeirra sem geyma fé sitt í stað þess að eyða því rýrni ekki eða gufi upp. Af þessu höfum við bitra reynslu. Til þess að tryggja þessa hluti, þessa niðurstöðu, er bent á ráð í 4. og 5. gr. frv. á þskj. 279, þ.e. að gengistryggja spariinnlán sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur. Nánar er um þetta fjallað í 5. gr.

Hér tel ég bent á athyglisverða leið sem ég treysti mér þó ekki til að fara miklu nánar út í án undirbúnings en leiðin er virkilega þess virði að hún sé skoðuð og metin af þeim mönnum sem skoðað hafa tök málsins. Á hinn bóginn verður svo einnig að sjálfsögðu að hafa í huga að gæta hagsmuna þeirra sem þurfa á lánsfé að halda, ekki síst að því er atvinnuvegina varðar. Við höfum löngum búið við skort á fjármagni hér á landi og skömmtun á lánsfé í ýmsum myndum til þeirra sem þurfa á því að halda. Þess vegna dugar frelsið eitt skammt í þessum efnum. Þessum málum verður að stjórna. Okurvextir eða annar áskilnaður um óhóflegt endurgjald fyrir afnot fjármagns eða lánsfjár fær ekki staðist gagnrýni almennrar skynsemi.

Ríkisstjórn og ráðamenn þurfa nú enn og aftur eins og oft áður fyrr að glíma við verðbólgu og viðskiptahalla. Það skiptir miklu máli hvernig sú glíma tekst. Að því er peningamál og vexti varðar segir í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar m.a. að stjórn peningamála muni miða að jákvæðum en hóflegum raunvöxtum og að lánastofnanir muni njóta frjálsræðis en verði þó veitt aðhald frá ríki og Seðlabanka innan ramma gildandi laga. Enn fremur segir að ríkisstjórnin muni stuðla að jafnvægi á lánamarkaði og lækkun vaxta.

Öll þessi atriði tengjast því máli sem hér er til umræðu og þeirri tillögu sem hér hefur verið varpað fram og ég tel þess virði að skoðuð sé rækilega.