09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4393 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. sem er til umræðu lýsir áhyggjum flm., hv. 3. þm. Suðurl., af hækkun vaxta hér á landi á síðustu missirum. Þær áhyggjur eru vissulega skiljanlegar en úrræðin sem hann gerir tillögu um með frv. mundu að mínum dómi alls ekki bæta þar úr, heldur reyndar gera illt verra.

Það er víðtækt samkomulag um þá skoðun að vextir hér á landi séu nú hærri en staðist fái til lengdar og hærri en æskilegt er. Um það er ekki deilt. Menn greinir hins vegar á um það hvaða leiðir séu bestar til að lækka vextina. Til þess að nálgast þennan vanda er nauðsynlegt að menn átti sig sem gleggst á því hvað valdið hafi þeirri vaxtahækkun, bæði á nafnvöxtum og raunvöxtum, sem hér hefur orðið á síðustu missirum. Ég ætla að nefna þrjár ástæður, reyndar nefndi hv. 6. þm. Norðurl. e. þær flestar í sínu máli.

Í fyrsta lagi hefur mikill uppgangur og útgjaldaþensla í hagkerfinu sl. tvö ár valdið mikilli samkeppni um fjármagnið vegna halla á ríkisbúskapnum í fyrra og vegna aðhalds að peninga- og lánamálum á allra síðustu mánuðum en það er mjög mikilvægt að menn geri sér það ljóst að hert aðhald í peninga- og lánamálum hlýtur fyrsta kastið að leiða til hækkunar vaxta.

Í öðru lagi er það ómótmælanlegt að óvissa í efnahagsmálum fram yfir mitt sl. ár hafði í för með sér vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla. Því miður varð verðbólgan í fyrra miklu meiri en búist var við í upphafi ársins, líklega um það bil tvöfalt meiri en almenningur gerði ráð fyrir í lok ársins 1986. Reyndar eru fyrir þessari skoðun staðfestingar í skoðanakönnunum. Þetta er öðrum þræði vandinn sem við glímum við.

Í þriðja lagi er það auðvitað alveg rétt að vaxtafrelsið sem innleitt var með því að í gildi gengu lögin um Seðlabanka Íslands 1. nóv. 1986, fyrir 14 mánuðum, hefur leitt af sér jöfnun lánskjara sem á margan hátt var bæði nauðsynleg og eðlileg. Vegna þeirra þensluaðstæðna sem ríktu í þjóðarbúskapnum á þessu sama tímabili varð jöfnun lánskjaranna, þessi nauðsynlega leiðrétting á vaxtarófinu, því miður með því að meðalvextirnir hækkuðu verulega.

Þetta er í stuttu máli baksviðið fyrir þeirri löngu umræðu sem hér hefur farið fram og hefur reyndar farið víða um völl.

Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, áður en ég sný mér að frv. sjálfu og einstökum greinum þess, að fjalla í stuttu máli um sumt það sem fram hefur komið hér í þessum fróðlegu umræðum. Mig langar fyrst að víkja nokkuð að máli hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar.

Ég fagna því að hv. þm. talaði í dag af miklu meira raunsæi og ábyrgð en hann gerði síðast þegar efnahagsmál voru hér til umræðu sl. fimmtudag. Þessi breyting lýsti því vel að það er hægara um að tala en í að komast. Þetta á bæði við um vaxtamálin og launajafnréttið.

Hv. þm. nefndi að þörf væri á að samræma starfsskilyrðin á fjármagnsmarkaðinum fyrir alla sem þar starfa við sömu verkefni. Þetta er vissulega rétt. Það er einmitt í undirbúningi núna frv. um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan banka og sparisjóða sem hefur nákvæmlega þetta markmið. Menn skyldu þó varast að reikna með því að slíkt frv., þótt að lögum yrði, leysi vaxtavandann á auga lifandi bragði. Það að temja þessar nýju stofnanir undir sama aga og aðrir verða að sæta kynni í upphafi að þýða hækkun vaxta, ekki af því að vondir menn vilji það, heldur af því að veruleikinn er þannig. Það er ekki af því að menn óski sér þess arna, heldur hitt að meðan við ekki höfum ráðist að rótum vandans hlýtur að skeika að sköpuðu með það enn um sinn. En þetta er ekki til gamans gert.

Ég vildi líka taka það sérstaklega fram vegna ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. að ég er honum algerlega ósammála og ýmsum öðrum sem hér hafa talað um að á Íslandi gildi lögmál hagfræðinnar alls ekki. Hv. þm. talaði um það að þessir vesalings menn sem hafi lært þetta í útlöndum séu að reyna að láta þetta gilda hér á Íslandi þar sem þetta eigi alls ekki við. Þetta er víðs fjarri. Eins og öll skynsamleg athugun á málinu sýnir gildir það vissulega hér á landi eins og í öðrum löndum að eftirspurn eftir lánsfé ræðst að nokkru af vöxtunum. Það þarf ekki á annað að benda en eftirsóknina eftir hinu niðurgreidda lánsfé húsnæðislánasjóðanna eða eftirsókn eftir niðurgreiddu lánsfé hvenær sem það hefur verið í boði. Hitt er svo annað mál að það kann að taka alllangan tíma að slá á eftirspurnina eftir lánsfé yfirleitt, en ég er þó sannfærður um það að einmitt hagþróun allra síðustu mánaða sýni það að nú sé þetta að snúast við. Þetta er ekki hlutur sem er ákaflega auðvelt að festa hendur á, en þó sýna allar vandaðar hagrannsóknir frá öðrum löndum að þetta er kjarni málsins.

Ég vildi líka benda á, fyrir þá sem eru fælnir á hagfræðikenningar, að vaxtastefna þessarar stjórnar og sú vaxtastefna sem skynsamlegt er að fylgja styðst ekki eingöngu við þessa gráu og þurru kennisetningu, sem kannski er komin frá útlöndum, um jafnvægi framboðs og eftirspurnar á lánamarkaðinum. Hún styðst nefnilega líka við ríka siðferðisvitund. Þyngsti áfellisdómurinn sem kveða má upp yfir hagstjórn á Íslandi á liðnum áratugum eru e.t.v. áhrif neikvæðra raunvaxta sem hér ríktu lengi. Því miður er hætt við að frv., sem hér er til umræðu, ef að lögum yrði, mundi innleiða þá að nýju. Hvernig er það verjandi að láta sparifé almennings, ekki síst hinnar eldri kynslóðar, brenna upp á báli verðbólgunnar? Af öllu því tjái og tundri sem verðbólgunni fylgdi var þetta verst. Þetta eru sannindi sem ekki byggjast á hagfræðibókum. Þetta er ekki eingöngu lögmál hagsýni og hagfræði. Þetta er lögmál sanngirni og réttsýni. Þetta er ekki þurr kennisetning. Þetta er ávöxtur af lífsreynslu í þessu landi. Við megum aldrei láta yfir okkur ganga að nýju slíkt ástand og ég vona að flm. frv. stefni ekki að því. Við þurfum að gefa þeim sem vilja spara kost á því að verja sinn geymda eyri. Það er hættan við þetta frv., og ég kem að því nánar hér á eftir, að við færum þá í sama gamla farið sem var okkur til ævarandi skammar.

Hv. 2. þm. Vesturl. Friðjón Þórðarson fjallaði hófsamlega og skynsamlega um þetta mál og benti á að í frv. væru tveir efnisþættir, í fyrsta lagi lögbinding hámarks nafnvaxta og hins vegar afnám lánskjaravísitölu. Hann benti líka á að í fyrra atriðinu fælist það sem ég nefndi áðan, hættan á því að hér væri verið að stofna enn á ný til neikvæðra raunvaxta á sparifé almennings og almenningssjóða. Hann benti líka á að með því að ráðast að lánskjaravísitölunni á þennan hátt gætum við verið að stefna í hættu sparnaði þegar til lengdar lætur. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Vesturl. að það er vel til athugunar hvort verðtryggingarskilmálar með lánskjaravísitölu henti á stystu skuldbindingu. Það er ugglaust rétt að þar þurfi menn að fara varlega í sakirnar og það kom reyndar líka fram hér hjá öðrum ræðumönnum. En hann benti líka á að til þess að tryggja hagsmuni sjóða, bæði ríkissjóðs og almannasjóða, geti varla verið önnur leið en lánskjaravísitölutrygging eða eitthvað henni líkt. Ég kem kannski svolítið nánar að því á eftir hvað um lánskjaravísitöluna megi segja.

Hins vegar vildi ég taka fram að ég er ekki sammála hv. 2. þm. Vesturl. um að nú séu ástæður til staðar til þess, hvort sem litið er á erlenda vexti eða vaxtamun, að Seðlabankinn hlutist til um hæð vaxtanna á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabankann. Það er ekki skoðun bankans og ég held að svo sé enn ekki komið, a.m.k. ekki hvað varðar hina erlendu vexti. Það er víðs fjarri sem haldið var fram hér af hv. 3. þm. Norðurl. v. að á Íslandi séu vextirnir þeir hæstu í heimi. Það eru þeir alls ekki þegar litið er á raunvextina.

Guðmundur G. Þórarinsson komst í sínu máli að sömu niðurstöðu og ég hef komist að, þ.e. að þetta frv. leysi ekki vaxtavandann í landinu, að vextirnir verði ekki lækkaðir eða ákveðnir með lagaboði. Hér hafi vaxið fram fjármagnsmarkaður sem ekki verði kæfður eða við snúið. Frv. eins og þetta mundi fyrst og fremst draga máttinn úr bönkunum, úr þeim stofnunum sem helst sinna þörfum atvinnulífsins.

Ég er hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni sammála um þetta álit. Hann benti á það í máli sínu að það eina róttæka úrræði sem dygði til að lækka vextina væri að opna íslenska fjármagnsmarkaðinn meira. Ég held að hann hafi nokkuð til síns máls þar, en vara þó við því að gína allt of mikið við þeirri einföldu aðferð því hér hljóta sem jafnan fyrr að togast á sjónarmið frjálsræðis og hagkvæmni þegar til lengdar lætur og þörfin fyrir að koma hér á betra jafnvægi á þessu og næstu árum. Ég vona þó að þarna megi finna hið gullna meðalhóf. Við þurfum að feta okkur í áföngum í þá átt að gera fjármagnsviðskiptin frjálslegri. M.a. greiðslufrest við vörukaup frá útlöndum sem hann nefndi. Ég er sammála honum um að það fyrirkomulag séu leifar frá liðinni tíð og megi ef rétt er á haldið færa til betri vegar og þá muni það líka létta nokkuð af þrýstingnum á íslenskum lánamarkaði. Ég hef reyndar í hyggju að skipa nefnd til þess að gera tillögur um það hvernig megi nálgast frjálsræði í þessu efni í áföngum á nokkrum næstu árum.

Ég vildi að lokum segja um mál Guðmundar G. Þórarinssonar að ég tel að samanburður hans á þróun lánskjaravísitölu annars vegar og gengisvísitölu hins vegar sé ekki alls kostar réttvísandi. Þar vantar á milli erlendu verðbreytingarnar til að gera þessa tvo mælikvarða sambærilega. Ég vildi líka benda honum á í allri hófsemd og vinsemd að hefði hans sjónarmið verið tekið bókstaflega, um að hafa tekjuþátt í lánskjaravísitölunni, þá hefði hún nú hækkað æðimikið meira á liðnu ári en um þau 22,2% sem raun bar vitni, því þá hefðu þar áreiðanlega bæst við á að giska 15 eða 20% vegna þess hversu mikið tekjurnar hækkuðu á árinu 1987 í peningum en verðlagið. Þannig væri nú ekki allt fengið með því að breyta skilgreiningunni í þá átt sem hann lýsti, en kannski gefst mér tækifæri til að koma aftur að lánskjaravísitölunni.

Þá sný ég mér að frv. hv. 3. þm. Suðurl. Ég verð að segja það að ég tel að þetta frv. lýsi alls ekki þeim skilningi á vaxtaþróuninni og ástæðunum fyrir vaxtahækkuninni sem er frumskilyrði þess að á því máli verði tekið þannig að árangurs sé að vænta. Frv. er því miður að mörgu leyti gallað. Ef við lítum fyrst á L gr. er um hana að segja að hún er ákaflega lík að orðalagi og 2. mgr. 9. gr. laganna um Seðlabankann, sem ég vitnaði til áðan, nema hvað þarna koma nafnvextir í stað raunvaxta og út hafa verið strikuð orðin „að jafnaði“ á eftir orðunum „til að tryggja að nafnvextir af útlánum verði eigi hærri en þeir eru“. Í gildandi lögum stendur „að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands“ o.s.frv. Þessi munur, að setja þarna inn nafnvexti, gerir greinina að mínum dómi algjörlega óraunhæfa því að þarna væri verið að ætlast til þess að við lækkuðum vextina til jafns við það sem gerist að meðaltali í okkar viðskiptalöndum þar sem verðbólga er nú kannski á bilinu 2–10%. Þetta er ógerningur að mínu viti nema efnahagslegar ástæður á Íslandi breytist þannig að þetta fái staðist.

Vaxtamunarákvæðið í þessari 1. gr. er alveg samhljóða því sem er í gildandi lögum og reyndar mætti segja, eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Vesturl., að Seðlabankinn hafi þegar umboð sem sé mjög skylt því sem er í 1. gr. og því vafasamt að það þurfi að setja það að nýju með sérstökum lögum. Hitt er svo annað mál að þegar kemur að 2. og 3. gr. frv. þá er í raun og veru stigið yfir 1. gr. og farið að ákveða með lögum hvert vera skuli hámark vaxta í nokkrum flokkum útlána. Það er hins vegar ekki mikið skeytt um innlánin fyrr en kemur að 4. gr. og mun ég víkja að því nokkrum orðum.

2. og 3. gr. fela hins vegar í sér bein lagafyrirmæli um það hvað vextirnir eigi að vera, en þó þannig að það er svo laust skilgreint að ég tel ógerning að komast þar að einni niðurstöðu hvaða vaxtatala þetta ætti að vera. Þetta ýtir í raun og veru ekki aðeins til hliðar þeim ákvæðum í lögum nr. 13/1979 og lögum nr. 36/1986, sem nefnd eru hér í 6. gr. frv., heldur líka ákvæðum viðskiptabankalaga og sparisjóðalaga um vaxtaákvarðanir þessara stofnana. Reyndar er mér mjög til efs að unnt sé að skipa vaxtamálum með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 2. og 3. gr. fyrir þá sök í fyrsta lagi og þegar af þeirri ástæðu að þetta vísar ekki á hverjir ákveði vextina eða hverjir þeir skuli vera. Þar vantar reyndar hvort tveggja.

Ég ætla ekki að segja mikið meira um formhlið málsins. Um efnishliðina vil ég segja að ef þessi ákvæði 1., 2. og 3. gr. verða tekin bókstaflega, eða 4., mundu þau við ríkjandi verðbólgu hér á landi leiða til mikillar lækkunar raunvaxta, lánsfjáreftirspurn mundi því aukast til muna sem annaðhvort hlyti að leiða til aukinnar þenslu, þar á meðal aukinnar verðbólguhættu, eða skömmtunar útlána. Það má varla á milli sjá hvort væri verra. Það er hætt við því að nýting lánsfjár verði léleg ef hægt er að fá lán með neikvæðum raunvöxtum. Ef slíkt lánsfé er fest í fasteign, birgðum eða öðrum eignum, þarf ekki að vanda valið mjög til þess að uppskera verðbólguhagnað. Lánþeginn getur hagnast enda þótt ráðstöfun fjárins væri svo óskynsamleg að hún ylli honum tapi ef engin væri verðbólgan og vextirnir núll. Arðbær verðmætasköpun í þjóðfélaginu hlyti því að minnka og tekjur einstaklinganna líka ef lánsfé er varið á þennan hátt. Það má benda á það líka að tekjutilfærsla til lánþega sem í þessu felst er ákaflega handahófskennd. Hún fer eftir duttlungum og sveiflum í verðbólgunni. Það er líka hætt við því að sparnaðurinn í landinu dytti niður.

Ég tek undir það með mörgum fyrri ræðumönnum hér í þessari umræðu að viðvarandi ástand hárra vaxta með þeirri eignatilfærslu sem í því felst er ekki æskilegt ástand. En að stofna til þess með opin augu væri okkur til skammar. Ekki meira um 1,–3, gr.

Í 4.–5. gr. er fjallað um einn þátt í vaxtamun af mörgum og honum skipað með lögum, en hins vegar kemur alls ekki fram hver það er sem ákveða skal sjálfa vextina. Ég bendi líka á það að ef það er tekið bókstaflega sem stendur í 2., 3. og 4, gr., þá fæli þetta í sér mjög verulega neikvæða raunvexti á sparifé almennings. Það getur varla verið vilji löggjafans að stofna til þess með lagaboði. Ég bendi á það tæknilega að öðru leyti að heimildir til að gengistryggja spariinnlán eru þegar í lögum. Það er heimilt að opna innlánsreikninga með gengisviðmiðun. Þetta getur almenningur þegar fært sér í nyt. Slíkir reikningar voru stofnaðir með reglugerð nr. 563/1987 og auglýsingu Seðlabankans 30. des. 1987. Gengistryggingin er eitt form verðtryggingar og þegar litið er til langs tíma á það að geta komið út á eitt hvort fjárskuldbindingarnar eru bundnar innlendri lánskjaravísitölu eða gengisvísitölu með vöxtum sem heyra til því myntsvæði sem við er miðað. Það er líka heimilt og þarf ekki að setja í lög að nýju að gengistryggja spariskírteini ríkissjóðs. Slík skírteini hafa nýlega verið gefin út, ýmist miðuð við SDR eða Evrópumynteininguna, ECU. Þau eru bundin til þriggja ára og bera núna 8,3% vexti.

Ég vildi svo að lokum um einstakar greinar frv. aðrar en þá 6. segja það að hugmyndirnar sem þar er lýst um gengistryggingu á innstæðum, um áhættu ríkissjóðs af gengistryggingum, um að ráðstafa gengishagnaði til þess að svara þessum hlutum, þetta gengur ekkert upp. Allt er þetta með miklum tæknilegum formerkjum eins og yfirferð með bankamönnum mundi fljótt leiða í ljós.

Þá komum við að því sem er kannski veigamesta tillagan í þessu frv. sem er að leggja niður lánskjaravísitöluna. Um það mál má segja, og ég held að það blandist fáum hugur um það, að verðtryggingu hér á landi hafi tekist að forða okkar peningakerfi frá glötun. Peningalegur sparnaður í okkar lánastofnunum hafði dregist mjög saman á 8. áratugnum. Hann er núna byrjaður að vaxa á ný. Hlutfall erlendra lána af lánanotkun í hagkerfinu í heild er farið að lækka en var orðið ákaflega hátt. Geta innlendra lánastofnana til þess að veita lán hefur aukist. Þetta á ekki síst við um löngu lánin.

Það er margt sem finna má að hinum nýju fyrirbærum á lánamarkaðnum, vaxtafrelsinu og hinum nýju fyrirtækjum sem það hafa, en eitt er þó alveg víst: að þau hafa gefið þeim sem vilja varðveita sinn sparnað færi á að ávaxta hann miklu betur en verið hefur. Ég er hins vegar sammála þeim sem hér hafa talað að nú sé orðið tímabært að setja almenna rammalöggjöf um fjármagnsstarfsemi og það verður gert, en alls ekki í því skyni að reyna að snúa þessari þróun aftur í liðna tíð með beinum lagafyrirmælum.

Ég tel það ekki tímabært að fella úr gildi heimildir til verðtryggingar fjárskuldbindinga meðan okkur hefur ekki tekist að draga meira úr verðbólgunni og verðbólguóttanum en raun ber vitni. Ég er hræddur um að þá mundi draga úr framboði lánsfjár af innlendum toga og við lentum aftur í erlendu skuldafeni.

Þetta er kjarni málsins. En það má ýmislegt segja um framkvæmd og viðmiðun verðtryggingar í lánssamningum. Ég tel að þetta ætti að verða í meira mæli en nú er samningsatriði þeirra sem lánssamningana gera eins og hinn meginþáttur lánskjaranna, raunvextirnir, er nú í dag. Þetta stafar m.a. af því að það eru ýmsir gallar á lánskjaravísitölunni. Þegar til lengdar lætur er hætt við að hún mæli meiri verðhækkun en í raun verður í hagkerfinu. Þetta stafar ekki af því að vondir menn hafi ákveðið að hafa þetta svona, heldur einfaldlega af því að vísitölur af þessu tagi eru ófullkominn mælikvarði á verðlagsþróun.

Ég bendi líka á að það er mjög vafasamt að breytingar á óbeinum sköttum eigi að hafa áhrif á ávöxtunarkjörin með þeim hætti sem nú gerist. Þetta er atriði sem ég er að láta vinna að athugun á og er eitt af því sem vel kemur til álita að megi breyta. En kjarninn er samt þessi: Það einfalda í málinu er að leyfa mönnum að semja um þetta eins og önnur atriði í lánsskilmálunum.

Hæstv. forseti. Þetta er orðið lengra mál en ég ætlaði, en ég ætla því að tæpa á nokkrum atriðum sem gera í stuttu máli grein fyrir því hvers vegna ég tel að þetta frv. eigi ekki að hljóta stuðning þessarar hv. þingdeildar.

Í fyrsta lagi: Hlutur banka og sparisjóða í vaxtaákvörðunum samkvæmt þessu frv. er alveg á huldu. Í öðru lagi: Mikil réttaróvissa mundi ríkja um útistandandi samninga og skuldir manna ef frv. yrði samþykkt.

Í þriðja lagi: Skyldur Seðlabankans samkvæmt þessu frv. eru alls ekki skilgreindar.

Í fjórða lagi: Að taka upp með einföldum hætti nafnvaxtaviðmiðun í stað raunvaxtaviðmiðunar í því sem er núna 2. mgr. 9. gr. seðlabankalaganna gengur ekki upp með nokkrum skynsamlegum hætti.

Í fimmta lagi: Ákvæðin um útlán í þessu frv. eru ekki skilgreind þótt væntanlega sé þá átt við lán frá innlánsstofnunum. En hvað þá með útlán í verðbréfasjóðum og öðrum fjármögnunarfyrirtækjum eins og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson vék réttilega að í sínu máli?

Í sjötta lagi: Þar erum við komin að því sem er kannski stærsti gallinn á þessari tilraun hv. 3. þm. Suðurl.: Frv. virðist beinast eingöngu að banka- og innlánsstofnanakerfinu, fjallar ekki um það sem er veruleikinn á lánamarkaðnum.

Í sjöunda lagi vil ég segja að það má vel hugsa sér að líta að nýju á verðtryggingarákvæði Ólafslaga, en það verður ekki gert nema að undangengnum miklum athugunum og kallar á víðtæk bráðabirgðaákvæði því lánskjaravísitala yrði auðvitað reiknuð út í marga áratugi enn. Hún nýtur réttarverndar og á að njóta hennar.

Eins og þessi orð mín og orð margra sem á undan mér hafa talað sýna glöggt er málið miklu flóknara en svo að það verði leyst með þeim einfalda hætti að segja: Nú lækkum við vextina með valdboði. Lækkun vaxta verður ekki ákveðin með lögum frekar en verðbólgan verður bönnuð með lögum. Það þarf samræmdar aðgerðir sem taka á rótum vandans, hallanum á ríkisbúskapnum, ofætlun í fjárfestingu og á skipulagi fjármagnsmarkaðarins. Þarna þarf að tryggja í senn hagsmuni þeirra sem lánin taka og almenna hagstjórn sem kemur sanngjarnlega við alla. Ef okkur tekst þetta þá mun okkur líka hljótast vaxtalækkun að auki.

Fyrsti áfanginn í þessu mikla máli er þó — og þar með er ég kominn að málefnum líðandi stundar — að það takist nú á næstunni skynsamlegir kjarasamningar sem geti samrýmst hjöðnun verðbólgu. Þegar slíkir samningar eru í sjónmáli mun ríkisstjórnin beita sér af alefli til þess að vextirnir lækki samstiga verðbólgunni. Þá er það ákaflega mikilvægt í þessu máli, eins og reyndar kom sérlega glöggt fram í máli hv. 10. þm. Reykn., að allir þeir sem starfa á lánamarkaðnum sinni betur upplýsingaskyldu sinni, bæði við þá sem fé leggja inn og þá sem lánin taka, um hver sé hinn raunverulegi vaxtakostnaður. Það er upphafið að lausn á vaxtavandanum.