09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4408 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég klára nú aldrei mína ræðu á fimm mínútum, en þó að svo sé ætla ég ekki að tala mjög langt mál að þessu sinni.

Það gleður mig að hæstv. dómsmrh. skuli þó viðurkenna að þeir vextir sem nú viðgangast í þjóðfélaginu geti ekki staðið til lengdar. Það er þá a.m.k. búið að viðurkenna að það horfi illa. Hann talar um að ég tali af meiri skynsemi nú heldur en hann hefur heyrt í mér þegar ég tala um efnahagsmál. Það er nú alltaf nokkuð afstætt orðið skynsemi. Það má auðvitað deila um það, sjálfsagt bæði um ræður mínar og hæstv. ráðherra, hvenær við tölum um mál af skynsemi og af hvað mikilli skynsemi. Ég hef engan mæli til þess að mæla það. En ég man eftir því að þegar verið var að fá mig til þess að fara í framboð fyrir rúmum 20 árum þá sagði bóndi nokkur í Eyjafirði, sem ég hef alltaf haft miklar mætur á síðan, að stjórnmálamenn þyrftu að reyna að afla sér þekkingar, þeir þyrftu að vera hugvitssamir, þeir þyrftu að hafa réttlætiskennd, þeir þyrftu að hafa dugnað, lagni og hörku þegar á þyrfti að halda. Ég gleymi þessum orðum aldrei.

En ráðherrann var að tala um siðferðisvitund í sambandi við vexti, neikvæðu vextina og það ástand sem nú er og mér skildist, eða ég tók það þannig, ráðherrann leiðréttir mig þá, að þessir vextir væru á þann veg að þeir væru réttlætanlegir. Þeir væru innan þeirra marka sem hann taldi að samræmdist siðferðisvitund, ja kannski hæstv. ráðherra eða annarra, ég veit ekki hverra.

Ég held að þessir vextir séu komnir langt fram úr því. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það var náttúrlega ekkert vit í því hvernig þessir neikvæðu vextir voru. Það er bara allt annað mál. En það er komið út í sömu öfgarnar ef ekki meiri. Ef ekki meiri. Ég bara trúi því ekki að siðferðisvitund hæstv. ráðherra sé á þann veg að hann telji við þetta unandi. Þegar hann gerðist ráðherra bankamála var því lofað að minnka verðbólgu og lækka vexti og menn treystu á það. Nú eru sumir sem fóru í framkvæmdir komnir í þrot, algjör þrot. Ég held að þessir menn, sem þannig stendur á fyrir, telji að ríkisstjórnin hafi ekki starfað eftir eðlilegri siðferðisvitund. Ég verð að segja það. (Forseti: Ég vil benda ræðumanni á að ég mun fresta fundi. Þessari umræðu lýkur ekki í dag. Hins vegar mun ég gefa honum kost á að ljúka sinni ræðu ef hann er ekki með langt mál en ég mun leggja það í vald hans.) Ég mun þá fresta minni ræðu því ég á dálítið eftir.