10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4414 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessu framtaki viðskrh. til lagagrisjunar. Það hefur verið rætt hér á þingi oft og iðulega að mikil þörf væri á því að grisja lagasafnið. Lagadeild Háskóla Íslands beitti sér mjög fyrir því að þm. gengju fram í þessu máli sem varð m.a. til þess að 1984 flutti ég þáltill. hér á þingi um lagagrisjun. Hún var samþykkt samhljóða og í framhaldi af þeirri samþykkt var skipuð nefnd, ég hygg fulltrúa allra þingflokka, til þess að fjalla um málið. Og ég vildi endilega vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram hvetja til þess að þessari lagagrisjun verði hraðað eins og unnt er og að hæstv. viðskrh. sem sýnt hefur frumkvæði í þessu máli hafi þá frumkvæði um málið innan ríkisstjórnarinnar. Þetta er mjög brýnt og þeim hv. þm., sem lýst hafa áhyggjum yfir brottfalli ýmissa laga sem nú eru í lagasafni vil ég segja, til glöggvunar að það var hugmyndin í tengslum við lagagrisjunina að þau lög, þótt ekki yrðu í gildi lengur, hyrfu ekki af spjöldum sögunnar, heldur yrðu sett í sérstakt geymslueintak lagasafnsins sem yrði þá fylgirit væntanlega með lagasafninu hverju sinni. Sú hugmynd var uppi að þau lög sem brott falla yrðu ekki uppnumin né færu þau í glatkistuna.

Ég hvet, eins og ég sagði í upphafi, til þess að þessari lagagrisjun verði haldið áfram. Það er allt of mikið af lögum sem þjóna ekki lengur neinum tilgangi og hafa ekkert gildi. Það er ekki eftir þeim farið og ekki á þau litið þannig að þau eru betur geymd annars staðar en í lagasafninu.