10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4414 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð. Ég held að nauðsynlegt sé að hreinsa lagasafnið og það var samþykkt hér eins og fram hefur komið með þáltill. og hefur dregist að framkvæma hana eins og margar aðrar slíkar ályktanir. Við fljótlega yfirferð sýnist mé: að elstu lögin séu frá 1875. Þarna er ekki verið að leggja til að tekin séu hin gömlu lög. Hins vegar finnst mér að það eigi að taka öll lög sem hafa ekki lengur neitt lagagildi. Hins vegar, ef það er álitamál, það þarf að athuga vel hvort þau geta haft lagagildi í dómsmálum, eiga þau náttúrlega að standa áfram. Mér finnst að það eigi reyna að hraða því að ljúka þessu verki og síðan eigi, bæði vegna sögunnar og líka til þess að átta sig á því hvernig lög hafa þróast hér, að gefa það út í einni bók.

Annað hef ég ekki um þetta mál að segja. Það er til óhagræðis fyrir okkur að hafa þetta svona og þess vegna þarf að ganga í það að ýta þessu verki áfram. Þó má ekki kasta til þess höndunum.