10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4426 í B-deild Alþingistíðinda. (3054)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna þess sem fram hefur komið frá því að fyrsti hluti þessarar umræðu fór fram. Ég vil láta það koma í ljós að mér finnst þessi umræða hafa farið nokkuð út um víðan völl og þá kannski einkum og sér í lagi hjá hv. síðasta ræðumanni, en hann taldi sig hafa ástæðu til þess að koma með innanhúsvanda Framsfl. inn í sali Alþingis og fannst mér hluti að því ekki falla undir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um vexti og áhrif þeirra.

Ég sakna þess nokkuð úr þessari umræðu hve lítið hefur verið um það fjallað að vextir eru að margra manna mati verulegur verðbólguhvati séu þeir of háir. Það er augljóst af allri umræðunni sem hér hefur farið fram að menn eru ósammála um orsakir og afleiðingu, annars vegar hvaða áhrif vextir hafa á verðlag og verðbólgu og afkomu fólks og fyrirtækja í þjóðfélaginu og síðan spurninguna um það hvort vextir hækki vegna einhverra annarra ástæðna sem verða til, og það hefur í raun lítill botn fengist í málið.

Ég fagna ummælum hæstv. viðskrh., sem komu fram í hans ræðu hér f gær, um það að hann teldi að vextir væru orðnir það háir að við þetta vaxtastig yrði ekki lengur unað. Ég vænti þess að í framhaldi af þessum ummælum muni hann beita sér fyrir því af fullri hörku að lækka vaxtastigið og fá ríkisstjórnina þá væntanlega til liðs við sig á þeim vettvangi.

Hann lýsti því enn fremur yfir að ríkisstjórnin mundi vinda að því bráðan bug að loknum kjarasamningum, ef þeir væru hagkvæmir að mati ríkisstjórnarinnar, að lækka eða leitast við að lækka vexti eins og ég hygg að hann hafi orðað það.

Í þessari umræðu hefur komið fram eitt atriði sem ég mótmæli eindregið. Það hefur verið sagt að vextir á Ísandi væru síst hærri en gengi og gerðist meðal annarra þjóða. Þetta er algjörlega út í hött. Það kann að vera að raunvextir hjá nokkrum þjóðum séu ögn hærri en hér gerist. Dæmi er um Nýja-Sjáland þar sem vextir eru um 17% en þar er líka efnahagskerfið að hrynja. Þar blasir við hreint og klárt þjóðargjaldþrot. Ég vil líka nefna Brasilíu sem býr við 300% verðbólgu eða hefur gert það. Þar er vaxtastigið vissulega hærra en hér á landi, en þessi samanburður er ekki hagkvæmur fyrir þá vaxtaþróun og þær viðvaranir sem komið hafa fram hér á undanförnum mánuðum og missirum.

Þá vil ég gera að umræðuefni þrennt sem hæstv. viðskrh. nefndi sem ástæður þess að vextir hefðu hækkað á Íslandi að undanförnu. Í fyrsta lagi nefndi hann útgjaldaþenslu sem hefði valdið samkeppni um fjármagnið. Það er hægt að líta á það mál frá mörgum hliðum, hvernig á þessari útgjaldaþenslu stendur. Ástæðurnar eru tvenns konar að mínu mati. Fjármagnið hefur verið sogað frá landsbyggðinni, frá undirstöðu- og útflutningsatvinnuvegunum inn á fjármagnsmarkaðinn hér í Reykjavík þar sem menn hafa getað ávaxtað fjármuni sína á mjög ríflegan hátt. Nákvæmlega sama gildir um ýmsa sjóði á landsbyggðinni eins og lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna sem hafa farið út í það að kaupa skuldabréf á hinum almenna markaði hér í Reykjavík og þannig flutt fjármagnið frá landsbyggðinni, henni til mikils ama og mikils tjóns, inn á Stór-Reykjavíkursvæðið. Í öðru lagi hefur þessi útgjaldaþensla orðið vegna tilverknaðar hins frjálsa markaðar. Hún hefur orðið til vegna þess að hér hafa sprottið upp kaupleigufyrirtæki sem hafa flutt inn geysimikið fjármagn erlendis frá inn í atvinnureksturinn og þá einkum og sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu í verslunar- og þjónustugeirann.

Í öðru lagi nefndi hæstv. viðskrh. óvissuna í efnahagsmálum og verðbólguþróunina á sl. ári. Í þeim efnum má benda á að verðbólguþróunin hefur verið ör á síðustu mánuðum og eru menn ósammála um ástæður þess en ýmsir benda á að þar eigi vaxtahækkanir verulega sök á.

Í þriðja lagi benti hæstv. viðskrh. á það að vaxtafrelsið frá 1. nóv. 1986, sem þá verður að líta til að hæstv. þáv. ríkisstjórn stofnaði til og stóð fyrir, hafi leitt af sér jöfnun lánskjara. Ég hygg að um þetta megi della lengi og rækilega hér á hinu háa Alþingi. Þetta vaxtafrelsi var auðvitað gjörsamlega óundirbúið að öllu leyti og hefur haft meiri áhrif í ólánsátt en flest annað sem hefur verið gert í peningamálum á undanförnum árum.

Á það var minnst að sparifjáreigendur yrðu að eiga kost á að verja sinn geymda eyri. Auðvitað er það hárrétt að þeir eiga fullan rétt á því og það verður að tryggja það að sparifé almennings rýrni ekki. Hins vegar verðum við að spyrja okkur sjálf: Hvað þarf vaxtastig að vera hátt umfram verðtryggingu til þess að það sé réttlætanlegt? Og við verðum líka að spyrja þá menn sem ráða vaxtastefnunni: Hvað eiga menn að fá mikið fyrir fjármuni sína? Hvað á að greiða mikið fyrir það að maður leggur til fjármuni til einhvers verks eða atvinnurekstrar eða leggur fram í einhverjum öðrum tilgangi? Mín skoðun er sú að vaxtastigið sem nú er í gildi hér á landi sé allt of hátt og þjóni í rauninni ekki þeim tilgangi sem að er stefnt vegna þess að hagnaðurinn af fjármagninu, af því að eiga fjármagnið, hann er kominn langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Ég tek það alveg skýrt fram í þessu sambandi að ég tel það höfuðnauðsyn að tryggja fjármagn sparifjáreigenda. Nú eiga allir kost á því að leggja inn á verðtryggða reikninga þó að í ljós hafi komið að auglýsingaflóð peningastofnana, sem líklega kostar tugi milljóna á hverju ári, hefur ekki náð eyrum allra og að það er fjöldi fólks með háar upphæðir inni á óverðtryggðum reikningum sem auðvitað er hin mesta fásinna. En ríkisstjórn eða yfirvöldum verður ekki kennt um það. Það eru einstaklingarnir sjálfir sem þar eiga sök á og mér finnst það hreint með ólíkindum ef sparifjáreigendur hafa ekki orðið varir við að unnt sé að leggja fjármuni inn á verðtryggða sparifjárreikninga.

Ég nefndi aðan vaxtastigið og þá fullyrðingu að vextir væru ekki hærri hér en í mörgum öðrum löndum. Ég bendi á það að menn minntust ekki á vaxtastig dráttarvaxta sem nú er 50% á ári eða 4,30% á mánuði og það þarf að leita víða um heim til að finna jafnháa dráttarvexti og ég hygg að þeir séu vart finnanlegir. Við getum líka litið á vextina á verðbréfamarkaðinum sem geta farið upp undir 100% ef við tökum afföllin með í bréfaviðskiptum sent þar eiga sér stað.

Annað vil ég nefna sem hefur ekki verið minnst á: að raunvextir umfram verðtryggingu eru ekki skattlagðir á Íslandi. Ég átti langt samtal við kunningja minn til margra ára sem starfar hjá hlutabréfamarkaði í Mónakó og hefur gert það lengi og er mikill þekkingarmaður um fjármagn og fjármagnstilfærslur á alþjóðlegum markaði. Ég benti honum á að hann ætti að hvetja viðskiptamenn sína til þess að koma með fjármagn sitt inn á íslenskan markað vegna þess að hvergi fengjust hærri vextir fyrir fjármuni í Evrópu um þessar mundir en á Íslandi. Þegar ég tjáði honum það að með verðbréfakaupum á Íslandi gæti hann tryggt sér 14% vexti átti hann erfitt með að trúa því og spurði þá hversu háir skattar væru á raunvöxtum. Ég sagði honum að hér væru raunvextir ekki skattlagðir og hann kom gjörsamlega af fjöllum, trúði ekki sínum eigin eyrum og benti á að raunvextir í Bandaríkjunum t.d. eru skattlagðir sem nemur allt frá 25 upp í 34–35%. Þetta er auðvitað það sem er að gerast og við höfum ekki áttað okkur á, að þessi vaxtabreyting, þetta vaxtafrelsi, þessi óhefta þróun verðbréfamarkaðar og kaupleigufyrirtækja, hefur leitt til þess að í landinu hefur orðið meiri fjármagnstilfærsla en dæmi eru til í allri sögu íslenska lýðveldisins. Og við erum í raun og veru með opnum augum að horfa upp á það að það er verið að búa til yfirstétt í þjóðfélaginu, fólkið sem á peningana og getur ávaxtað á markaðinum sem nemur milljónum króna á hverju einasta ári. Menn geta velt því fyrir sér hver ávöxtun er hjá manni sem á 10 millj. í lausafjármunum og fer með þessa peninga út á verðbréfamarkaðinn. Ætti hann gæti ekki á auðveldan hátt náð sér í 5–6 millj. á einu ári? Menn geta síðan horft á margföldunaráhrif þessa dæmis og hvað gerist. En hverjir eru það sem líða fyrir þessa vexti? Það eru skuldararnir, þetta venjulega alþýðufólk sem hefur orðið að fara í banka og aðrar lánastofnanir til þess að ná sér í fjármuni til þess að eignast þak yfir höfuðið af því að laun þess eru það lág að þau nægja ekki til þess að fólk geti á sjálfstæðan hátt eignast þak yfir höfuðið, og ég harma það að hæstv. viðskrh. skuli vera farinn.

Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að hér hafi aldrei í sögu þjóðarinnar verið stuðlað að eins miklu misrétti í þjóðfélaginu og á sér stað um þessar mundir. Aldrei. Og það er staðreynd enn fremur að auk þessara háu vaxta er lánskjaravísitalan, eins og hún er uppbyggð, reiknuð út frá byggingarvísitölu og framfærsluvísitölu, að sliga fólkið til viðbótar háum vöxtum. Hún er að sliga það. Svo einfalt er þetta mál. Það er auðvitað skelfilegt ástand þegar fólk er búið af skyldurækni að greiða af nokkrum hundruðum þúsunda króna skuld í banka og fær greiðsluseðil þar sem eftirstöðvar eru stöðugt hærri þó að búið sé að greiða hundruð þúsunda af viðkomandi láni.

Þetta gengur ekki og ég sagði það í fyrsta hluta þessarar umræðu þegar hún fór fram að ef ríkisstjórnin sæi sér ekki fært að gera ráðstafanir til að lækka vextina yrði þingið að grípa í taumana. Ég er enn þá staðfastlega þessarar skoðunar. Þessa skoðun byggi ég á því að það er ekki fólginn í því jöfnuður að halda uppi vaxtastigi sem gerir einn fátækan og annan ríkan. Það getur enginn flokkur sem kennir sig við jafnaðarstefnuna staðið þegjandi frammi fyrir slíkri þróun. Það er ekki hægt.

Ég hvet eindregið til þess að þingið hugsi vandlega um þetta mál að gerðum kjarasamningum. Ef þeir samningar verða hóflegir, eins og menn vonast eftir, liggur fyrir loforð ráðherra og þá væntanlega ríkisstjórnar um það að þegar í stað verði hafist handa um að keyra vextina niður hvort sem það verður gert með handafli eða með lögmálum markaðarins. Ef menn eru almennt þeirrar skoðunar að markaðskerfið eigi að stuðla að mismunun þjóðfélagsþegnanna í enn stærri stíl en ástæða er til er það mín skoðun að það sé vont markaðskerfi og að við eigum að sníða af því agnúana. En við eigum ekki að viðurkenna það sem trúarskoðun að þessi markaðsöfl eigi að fá að leika lausum hala endalaust.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mikið lengur. Við erum búin að fjalla um þetta mál á þremur fundum í hv. deild. Þetta er mikilvægt mál og það frv. sem hér liggur fyrir, þó að umdeilt sé, er innlegg í baráttuna gegn þeirri vaxtaþróun sem hefur átt sér stað og er af því góða fyrir þær sakir. Hins vegar hygg ég að ef menn skoða það nánar sé mjög erfitt að eiga við lánskjaravísitöluna öðruvísi en að reiknistuðull hennar yrði endurskoðaður og honum breytt. Við getum ekki tekið lánskjaravísitölu úr sambandi vegna þess að það er brot á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að framkvæma eignaupptöku. Og eignaupptaka yrði það auðvitað þegar búið er að tryggja verðbréf og annað með lánskjaravísitölu ef hún yrði afnumin þannig að bara fyrir þær sakir einar gengur það alls ekki upp.

Ég vil minna á það í þessu sambandi og sagði það hér í upphafi orða minna að það hefur ekki greinst í þessari umræðu hvað er orsök og hvað er afleiðing í vaxtamálum og peningamálum og þróun þeirra að undanförnu og líklega verður það seint sem við finnum lausnarorðið í þeim efnum. Engu að síður vil ég láta það koma skýrt fram að það eru margar ríkisstjórnir sem hér er við að sakast og líka Alþingi sjálft. Við berum ábyrgð á þessari peningamálaþróun, öll, og getum ekkert skotið okkur undan því. Þess vegna eigum við, þegar okkur þykir misréttið vera farið að ganga út yfir fólkið í landinu, yfir alþýðu landsins, að grípa í taumana og breyta því sem verr hefur farið.