10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4430 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. undirtektir við þetta mál, þar á meðal hv. síðasta ræðumanni sem hefur manna bestan skilning á þessu máli en út frá orðum hans hér síðast, að ekki væri hægt að taka lánskjaravísitöluna úr sambandi, er það kannski ekki hægt gagnvart gömlum skuldbindingum, frv. segir heldur ekki fyrir um að það sé gert, en það er hægt að taka hana úr sambandi gagnvart nýjum skuldbindingum eins og frv. segir fyrir um.

Þótt skoðanir séu skiptar um þær leiðir sem frv. bendir á hefur umræðan verið gagnleg. Eftir nánari skoðun og e.t.v. breytingar í nefnd er þess að vænta að það komi hér aftur til umræðu og atkvæða.

Í fyrri ræðu minni gerði ég ítarlega grein fyrir málinu. Ég hvet þá þm., sem fundið hafa að frv. í umræðunni, til að lesa það aftur og lesa betur. Í svari mínu til hæstv. viðskrh. hér á eftir koma og skýringar til annarra sem hafa verið með athugasemdir en hæstv. ráðherra fór ekkert sérstaklega mildum orðum um þetta frv. Ég ætla að svara honum en í engu blíðari tón en hann talaði.

Hæstv. viðskrh. virðist hafa lesið frv. sem er til umræðu líkt og skrattinn er sagður lesa biblíuna. Hann gerir sér ekki grein fyrir því hvað þarna er á ferðinni eða vill ekki skilja það. Ráðherrann hampar mjög lögmálum hagfræðinnar. Mér vitanlega hefur enginn hér í deildinni andmælt þeim lögmálum. Hins vegar er ráðherrann sjálfur hvergi nærri viss í sinni sök um þessi lögmál og því síður er hann nokkur hæstaréttardómari um þau. Ekki eru allir hagfræðingar á sama máli og hann. Sumum piltum sem hlaupa beint af skólabekk inn í æðstu stöður þjóðfélagsins gengur illa að tengja það sem þeir kunna að hafa lært við lífið sjálft, við atvinnu- og viðskiptahætti landsins, einkum ef þeir hafa aldrei komið nærri neinum rekstri eða e.t.v. aldrei difið hendi í kalt vatn eins og sagt er.

Því er ekki einu sinni að heilsa að samræmis gæti í málflutningi ráðherrans. Ekki eru nema nokkrar vikur liðnar síðan hann lýsti yfir í viðtali við dagblaðið Tímann að vaxtabremsan væri haldlaus. Ég sagði hvorki annað né meira en einmitt það í grg. með frv. Við erum þar með sammála um hagfræðilögmálið. Nú gengur hann hins vegar í sig og segir að lánsfé ráðist af vöxtunum. Hann vill sem sagt laga hagfræðilögmálin eftir hentisemi sinni eða geðþótta. Hann bendir á eftirsókn eftir niðurgreiddu lánsfé húsnæðislánasjóðanna. En það lánsfé er bara alls ekki niðurgreitt. Íbúðareigandi og byggjandi borgar nú 26,8% ársvexti, þ.e. 22,3% verðbótaþátt og 3,5% raunvexti af þessum lánum. Ársvextir af húsnæðismálastjórnarláni sem veitt er umsækjanda í dag eru nálega 700 þús. kr. Vaxtakostnaðurinn gleypir þannig ekki aðeins allar launatekjur lágtekjumannsins, 360 þús. kr., heldur hartnær tvöfalda þá fjárhæð. Rauntekjur verkamannsins eru því neikvæðar. Þarf ekki að hafa þær jákvæðar, hæstv. viðskrh.? Þarf ekki að hafa launatekjur lágtekjumannsins jákvæðar eins og vextina? Nei, viðskrh. Alþfl., öreigaflokksins, lætur sig einu varða ef peningamenn fá sitt. Það er hans siðferðiskennd.

Ég þarf ekki að ræða þá gömlu klisju okurkarlanna um sparifé almennings sem hefur brunnið á verðbólgueldinum eins og þeir þrástagast á. Það eru tekjur láglaunamannsins sem hafa verið að brenna á verðbólgueldinum. Í frv. mínu er einmitt séð fyrir því að sparifé haldi verðgildi sínu. Það gengistryggt. Öll langtímaverðbólga í okkar landi endar með gengislækkun og því var þetta gengistryggingarákvæði sett. En hvers vegna eru svo háir vextir haldlausir í því efni að draga úr eftirspurn eftir lánsfé? Það er m.a. vegna lánskjaravístölunnar og þeirrar aðferðar að geyma vextina til seinni tíma, bæta þeim við höfuðstól lánsins.

Ungt fólk tekur húsnæðislán í því trausti að þurfa aldrei að borga okurvextina. Annaðhvort muni verðbólgan lækka fyrir eitthvert kraftaverk ellegar ríkissjóður hlaupa undir bagga með björgunaraðgerðir eins og hann hefur raunar alltaf verið að gera og gerir enn í dag þó í litlum mæli sé.

Ef við hefðum nafnvexti eins og hér hafa tíðkast í ómunatíð, eins og enn tíðkast í öðrum vestrænum ríkjum og eins og lagt er til í frv. mínu borgar hver lántakandi sína vexti árlega, aðeins afborgunum er skipt niður á árafjölda lánsins. Þá mundi enginn húsbyggjandi biðja um lán 2,8 millj. kr. og borga nálega 700 þús. í ársvexti. Þá mundi hávaxtabransinn verka. Hagfræðingurinn Jón Sigurðsson skilur sem sagt ekki lögmál hagfræðinnar um framboð og eftirspurn.

Nafnvextir hækkuðu erlendis, bæði vestan hafs og austan kringum áramótin 1979–1980, um og yfir 20%. Þeir verkuðu og voru brátt lækkaðir. Þeir eru í lágmarki þar núna.

Þá er það einnig alrangt hjá ráðherranum að frv. geri ráð fyrir lögbindingu hámarks nafnvaxta. Vextirnir eru núna taglhnýttir verðbólgunni þar sem þeir fara eftir lánskjaravísitölunni. Engin hámarksákvæði vaxta er að finna í frv. Þeir verði í byrjun jafnir verðbótaþætti að viðbættum raunvöxtum núna. Hins vegar sé stefnt að því að lækka þá í áföngum. Það er nákvæmlega það sama og ráðherrann leggur til núna eftir að hann er byrjaður að sjá að sér, sbr. ræðuna í gær. Hann vill bara nota vaxtalækkunina sem tálbeitu á verkamennina og láta lækkunina bíða uns kjarasamningar hafa verið undirritaðir. Þegar til lengri tíma er litið mega vextir ekki vera hærri en í viðskiptalöndum okkar, eins og raunar Seðlabankanum er ætlað að sjá um skv. 2. mgr. 9. gr. seðlabankalaganna. Ef vaxtaprósentan heldur áfram að vera fjórum sinnum hærri en í löndum sem við keppum við á erlendum mörkuðum verður gengislækkun óhjákvæmileg því að framleiðslan hættir að seljast. Sparifjáreigendur græða ekki á útþynningu krónunnar. Stöðugt verðlag er þeirra mesta og brýnasta hagsmunamál en það næst aldrei meðan vextir og aðrar stærðir í hagkerfinu eru látnar elta verðbólguna. Hávaxtastefnan hefur beðið skipbrot. Það væri þó málsbót fyrir ráðherrann ef hann hefði kjark og drengskap til að viðurkenna það en hann er ekki á þeim buxunum. Hann velur flóttaleiðina og vill í uppgjöf sinni selja bankakerfið í hendur útlendingum.

Hæstv. ráðherrann er víðar á gati í hagfræðinni enda þótt hann gumi sífelldlega af kunnáttu sinni. Hann áttar sig ekki á því lögmáli sem a.m.k. allir athafnamenn kunna skil á, að verðhækkun eins þáttar í hagkerfinu leiðir til hækkunar á öðrum. Vextir eru verð peninga og hækkun þess verðs kemur við sögu í allri verðmyndun. Aukinn fjármagnskostnaður leiðir til aukins framleiðslukostnaðar, aukins vöruverðs, aukins þjónustuverðs og vinnulauna. Í rauninni er tilgangslaust að rökræða við hagfræðinátttröll á borð við hæstv. ráðherrann. Hann skilur ekki sambandið milli lánskjaravísitölu og verðbólgu. Verðbólgan lækkar ekki fyrr en lánskjaravísitalan er tekin úr sambandi. Þetta veit svo að segja hver einasti Íslendingur nema Jón Sigurðsson og fáeinir með honum.

Vitrustu menn hafa sagt að hlutverk hagfræðinga sé að gefa ráð sem stjórnmálamenn eiga að velja eða hafna. Hagfræðingar mega ekki stjórna sjálfir og gera þjóð sína að tilraunadýri fyrir kreddur sínar. Hæstv. ráðherra var þjóðhagsstjóri og gat ekki í eitt skipti gert rétta þjóðhagsspá. En þetta vissu allir og því var maðurinn hættulaus. Hann er það hins vegar ekki í ráðherrastól.

Lífeyrissjóðirnir og aðrir slíkir sjóðir munu klára sig vel við kerfi nafnvaxta. Hins vegar hafa þeir bundið of mikið fé í langtímalánum og ávaxtað of lítið fé á verðbréfamarkaðinum. Það var þeirra yfirsjón og tjáir ekki fyrir þá að kenna lagvöxtum liðins tíma um. Bankar og sparisjóðir eiga að della húsnæðislánum sín á milli. Lífeyrissjóðirnir hafa öðrum hnöppum að hneppa. Að síðustu vil ég segja þetta varðandi fjögur atriði sem hæstv. ráðherra gat um í lok ræðu sinnar í gær:

1. Hlutur banka og sparisjóða í vaxtaákvörðunum er alveg ljós samkvæmt frv. mínu. Vextirnir eru frjálsir en lúta óbeinni stjórn Seðlabankans gagnvart forvaxtaprósentu þess banka og verðbréfaviðskipti hans eins og tíðkast í öllum siðmenntuðum löndum. Ríkisstjórn á einnig að geta haft hönd í bagga með vaxtaákvörðunum. Ef hún hefur það ekki er hún ófær um að stjórna landinu.

2. Engin réttaróvissa ríkir varðandi útistandandi fjárskuldbindingar. Þær haldast óbreyttar nema um annað sé samið. Með lækkandi verðbólgu aðlagast þær skuldbindingar nýjum.

3. Skyldur Seðlabankans eiga að ákvarðast af seðlabankalögum en ekki þessu lagafrv.

4. Að taka upp nafnvaxtaviðmiðun og gengistryggingu langtímaspariinnlána er eina hugsanlega leiðin til að komast út úr þeim verðbólguógöngum sem misvitrir hagfræðingar hafa leitt okkur í.