11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

238. mál, niðurstöður áfengismálanefndar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Í samræmi við þál. sem samþykkt var á Alþingi 7. maí 1981 og fjallaði um að skora á ríkisstjórnina að láfa nú þegar undirbúa tillögur um stefnu hins opinbera í áfengismálum og er reyndar ítarlega sundurliðuð var skipuð nefnd á vegum heilbrmrh. 19. maí 1983 til að vinna að undirbúningi tillagna um opinbera stefnu í áfengismálum. Starf nefndarinnar átti að verða grundvöllur til að byggja á heildstæða og markvissa stefnu og löggjöf um stjórnun áfengismála, þ.e. um tilbúning og dreifingu áfengis, áfengisvarnir, meðferð áfengissjúkra, rekstur meðferðarstofnana og um upplýsinga-, rannsókna- og fræðslustarfsemi. Nefndin var fjölmenn eins og farið hafði verið fram á og störfuðu í henni 17 og síðar 18 manns. Henni var ætlað að skila áfangaskýrslum til ríkisstjórnarinnar þannig að hún gæti fylgst með störfum nefndarinnar og þetta var gert, bæði í nóvember 1983 og svo í febrúar 1984. Þessar áfangatillögur fjölluðu um sérstakt átak í áfengis- og fíkniefnamálum, en þær vöktu engin viðbrögð hjá ríkisstjórninni og er ekki vitað hvort um þær var fjallað þar. Nefndarmenn voru sammála um efni þessara tillagna, en allir þingflokkar áttu fulltrúa í nefndinni.

Hún hélt áfram störfum sínum þrátt fyrir áhugaleysi stjórnvalda og komst að samkomulagi um lokatillögur sem hún skilaði síðan í janúar 1987. Þær fjölluðu í fyrsta lagi um markmið laga, tilbúning og dreifingu áfengis, í öðru lagi um áfengisvarnir og í þriðja lagi um meðferð og þjónustu við misnotendur og aðstandendur þeirra.

Þetta eru nokkuð ítarlegar og vel unnar tillögur sem sannarlega verðskulda bæði umfjöllun og meiri athygli en þær hafa fengið, ekki síst af hálfu stjórnvalda. Tillögurnar eru unnar í anda þeirrar stefnu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mótað á þessu sviði, enda var nefndinni uppálagt að fylgjast náið með starfi stofnunarinnar og gera endanlegar tillögur sínar með framtíðarlausnir í huga.

Íslensk heilbrigðisáætlun sem var ítarlega rædd á nýafstöðnu heilbrigðisþingi er sniðin í samræmi við stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og markmið hennar í áfengismálum eru mjög samhljóða tillögum nefndarinnar þó að þær séu að sjálfsögðu ítarlegri.

Talsverð umræða hefur nú þegar farið fram á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu um einstakar tillögur um breytingar á áfengislögunum. Mikil umræða hefur einnig orðið um vímuefnavanda barna og unglinga án þess þó að þessar umræður hafi alltaf tengst hvor annarri eða almennri stefnumótun í áfengis- og vímuefnamálum. Það er beinlínis skylda ríkisstjórnar og Alþingis að taka til umfjöllunar niðurstöður þeirra nefnda sem þau setja á laggirnar og fela ærna vinnu. Því hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. sem ég eyði ekki tíma í að lesa upp en vænti svars við.