11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

255. mál, alnæmi

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Hér er lögð fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. um sjúkdóminn alnæmi, þennan hryllilegasta sjúkdóm sem menn standa agndofa frammi fyrir. Mér er kunnugt um að ráðherrann er nýkominn af ráðstefnu þar sem heilbrigðismálaráðherrar margra þjóðlanda komu saman til þess að fræðast og ræða um hvernig mætti bregðast við þessum ógnvaldi.

Þessi fsp. er í fjórum liðum:

„1. Til hvaða aðgerða hafa heilbrigðisyfirvöld gripið til að hefta útbreiðslu á alnæmi hérlendis?

2. Hversu mörg alnæmistilfelli hafa verið greind hér á landi? Hversu mörg á lokastigi?

3. Hvernig er búið að smituðum og hvaða meðferð fá þeir? Getur heilbrigðisþjónustan og hin félagslega aðstoð hérlendis veitt alnæmissjúklingum næga aðstoð?

4. Er hægt að merkja að þær aðgerðir, sem stjórnvöld hafa þegar gripið til, hafi borið árangur?" Ég held að það sé mikilvægt fyrir Alþingi að fylgjast með þessum sjúkdómi. Það hefur verið sagt að við Íslendingar höfum brugðist betur við en margar aðrar þjóðir, bæði með fræðslunni og ýmsum öðrum vörnum. Þess vegna verðum við að gæta þess að vera í fararbroddi.

Ég minni á að hér er ástæða til að fræða en ekki hræða fólk. Hér er ástæða til að menn, og ekki síst áhættuhóparnir, leiti í mótefnamælingar og að menn sem sýkjast af þessum voðalega sjúkdómi finnist og fái þá læknislegu og félagslegu meðferð sem er mikilvæg.

Það er vonandi að læknisfræðin standi ekki agndofa eða varnarlaus lengi gagnvart þessum sjúkdómi og það finnist sem fyrst lyf eða varnir, en fyrst og fremst verður að hvetja heilbrigðisyfirvöld til að hafa fræðsluna í lagi og varnirnar og fylgjast með því sem aðrar þjóðir eru að gera í þessu máli og hafa varnir og viðbúnað allan í sem bestu lagi í þessu litla þjóðfélagi.