11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

244. mál, launastefna ríkisins

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Mikið er nú dýrmætt að heyra að það skuli vera komin nefnd ofan á nefnd og nefnd til að líta eftir nefnd og nefnd sem á að fylgja þessu öllu saman eftir — og hvenær eiga þessar nefndir að skila einhverjum árangri? Það verður gaman að heyra það. Stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum er skýr. Fólk skal byrja á svona 31 þús. og hjakka eitthvað upp fyrir 40 þús. eftir 18 ára eða heilt ævistarf. Þetta er alveg skýr stefna. Afleiðingarnar eru líka skýrar. Fólk fæst ekki lengur til að vinna á þessum stofnunum. Það er ekki hægt að opna öldrunarstofnanir vegna þess að fólk fæst ekki til þess að vinna þar og á þeim stofnunum sem eru opnar verður fólk hvort sem því líkar betur eða verr að vinna miklu meira en það þolir. Hæstv. ráðherrar vita það alveg eins og ég að á sumum stofnunum ríkisins er miklu hærra greitt fyrir aukavinnu en fyrir dagvinnu og fólkið er að vinna þetta af því að það má til.

Þeir vita líka að launamisrétti er á þessum markaði. Það er gott til þess að vita ef það á að fara að vinna eitthvað í því. T.d. hefur fagvinna kvenna verið miklu lægra metin en fagvinna karla. Þetta hefur alltaf svo verið.

Þetta er fyrirspurnatími og ég má víst ekki fara lengra en þetta, en það væri hægt að tala um þetta mikið mál.