11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

244. mál, launastefna ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherrunum tveimur svör þeirra. Og þó að þeir væru tveir urðu svörin ekki þyngri.

Ég segi enn og aftur og tek undir með hv. 16. þm. Reykv.: Það er komið nóg af könnunum og við leysum ekki vandann með könnununum. Við leysum vandann með því að taka mark á niðurstöðum þeirra kannana sem þegar hafa verið gerðar og leita úrbóta. Við vitum að hér á landi býr fólk sem hefur of lág laun. Við vitum einnig að meginþorri þeirra eru konur. Við vitum að það verður æ brýnna og er reyndar orðið óhjákvæmilegt að leiðrétta þetta óþolandi misrétti vegna þess að það bitnar ekki bara á þeim sem eru beinlínis beittar því heldur einnig á fjölskyldum þeirra, störfunum sem þær gegna eða hafa yfirgefið eins og kom fram í máli hv. 16. þm. Reykv.

Óhófleg vinna og lág laun er að verða meinsemd í þessu þjóðfélagi og það stendur upp á þessa stjórn að uppræta þessa meinsemd því að hún getur leitt til alvarlegra vandamála sem ómögulegt verður að uppræta síðar meir. Þessi stjórn vill leggja áherslu á forvarnarstarf á ýmsum sviðum. Þarna er kannski brýnasta verkefnið til að beita forvörnum. Þessi stjórn hefur ráðrúm til þess. Hún hefur enn tíma til þess. Það er ófyrirgefanlegt ef hún ekki beitir því afli sem hún hefur og gerir það átak sem hún segist hafa ætlað að gera. Það mun verða henni til ævarandi skammar.