11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3082)

248. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skilmerkilegt svar. Hann vitnar til upplýsinga Þjóðhagsstofnunar um meðalútflutningsverð á rækju á árinu 1986 og árinu 1987. Ég ætla ekki að rengja þær upplýsingar, en ég vil hafa á þeim fullan fyrirvara. Ég held að þær segi raunar ekki allan sannleikann nema menn skoði það sem að baki býr.

Staðreyndin er sú að á árinu 1986 var veiði á innfjarðarækju mjög góð. Vinnslurnar borga tiltölulega lágt verð fyrir innfjarðarækjuna, hún er smá. Á árinu 1986 var útflutningsverðið hins vegar hátt og vinnslustöðvarnar fengu þess vegna mjög hátt verð fyrir þessa smárækju. Ástandið varð allt annað á árinu 1987. Þá var eins og kunnugt er algert hrun á rækjustofninum í innanverðum Húnaflóa t.d. og vinnslurnar gripu til þess ráðs að sækja í auknum mæli í veiðar á úthafsrækju sem er miklum mun stærri og rækjuvinnslustöðvarnar verða að greiða hærra verð fyrir. Hins vegar var markaðurinn þannig erlendis að stöðvarnar fengu ekkert hærra verð fyrir þessa stóru rækju en þær höfðu fengið fyrir litlu rækjuna á árinu 1986. Þannig segja meðaltalstölur Þjóðhagsstofnunar ekki allan sannleikann.

Ég held raunar að 10. gr. reglugerðar um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins kveði á um að Verðjöfnunarsjóðurinn eigi að koma til liðs við vinnsluna þegar svona stendur á; þegar svona aðstæður skapast.

Ég fagna hugmyndum ráðherra og þeim hugmyndum sem uppi eru um að nú skuli gripið til þess að sjóðurinn verði endurskoðaður. Ég vil hins vegar gagnrýna að hagsmunaaðilar í þessari vinnslu skuli ekki hafa beina aðild að þeirri nefnd sem á að endurskoða lög um sjóðinn.

Ég er fylgjandi því að Verðjöfnunarsjóður sé starfræktur og að inn í hann renni miklir peningar þegar verðið er hátt, en ég tel hins vegar nauðsynlegt að það sé gripið fljótt til þess að greiða út úr sjóðnum þegar bjátar á í þessum greinum. Ég tel það alveg forkastanlegt að sjóðurinn skuli nú liggja uppi með alla þessa peninga hérna fyrir sunnan, um hálfan milljarð króna, meðan þessi staða er í þessum greinum.