11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4461 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

249. mál, húsnæðismál á landsbyggðinni

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til aðgerða til að leysa húsnæðisvanda landsbyggðarinnar.

Því er til að svara að eins og kunnugt er af upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins, sem m.a. komu fram í skriflegu svari mínu til Hjörleifs Guttormssonar núna í vikunni um skiptingu umsókna eftir kjördæmum, er ljóst að núgildandi húsnæðislánakerfi þjónar ekki landsbyggðinni til jafns við þéttbýlið hér á suðvesturhorninu.

Á næstliðnum árum hefur verið mikill samdráttur í byggingarframkvæmdum á landsbyggðinni. Ef ekkert verður að gert heldur sú þróun áfram því að samkvæmt þeim umsóknum sem liggja fyrir hjá Byggingarsjóði ríkisins fer megnið af útlánum sjóðsins til höfuðborgarsvæðisins á næstu árum. Miðað við upplýsingar um umsóknir frá 1. sept. 1986 til 15. okt. 1987 má áætla að 74% af öllum lánum vegna kaupa á íbúðum og nýbyggingum fari til Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins.

Í félmrn. hefur verið unnið að undirbúningi aðgerða í þágu landsbyggðarinnar. Frv. um kaupleiguíbúðir, sem lagt verður fram á næstunni, hefur að leiðarljósi sérstakar þarfir og aðstæður í húsnæðismálum á landsbyggðinni.

Þegar undirbúningur að gerð frv. hófst í júlí 1987 var öllum sveitarfélögum og félagasamtökum, sem starfa að húsnæðismálum, sent dreifibréf til kynningar. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um stöðu félagslegra íbúðabygginga, áætlaða þörf fyrir kaupleiguíbúðir og einnig var beðið um ábendingar varðandi útfærslu hugmynda um kaupleiguíbúðir. Viðbrögð við dreifibréfi félmrn. voru mjög jákvæð og ef marka má þau viðbrögð er ljóst að mörg sveitarfélög og félagasamtök telja þennan kost henta vel við núverandi aðstæður í húsnæðismálum landsmanna.

Svör bárust frá yfir 90 sveitarfélögum og sex félagasamtökum. Ábendingar sveitarstjórnarmanna og forráðamanna félagasamtaka, sem fram komu í þessari könnun, voru mjög gagnlegar og höfðu víðtæk áhrif á tillögur frv. um kaupleiguíbúðir. Í svörum þeirra var m.a. bent á nauðsyn þess að opna nýja möguleika á samstarfi sveitarfélaga og einstaklinga eða félagasamtaka og fleiri aðila um lausn húsnæðisvandans á landsbyggðinni. Fram kom að þörf fyrir leiguíbúðir byggðar á félagslegum forsendum væri ekki eingöngu bundin við þá sem af félagslegum ástæðum þurfa aðstoð við húsnæðisöflun heldur og þarfir landsbyggðarinnar og tekur frv. um kaupleiguíbúðir mið af þessum þörfum landsbyggðarinnar. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að sveitarfélög geti boðið leiguíbúðir fyrir aðkomufólk, á þetta lögðu sveitarfélögin sérstaka áherslu, sem ekki er viðbúið því að fjárfesta um leið og það flyst á viðkomandi stað en hefði þann möguleika opinn án þess að þurfa að skipta um íbúð. Jafnframt var ítrekað mikilvægi þess að nýtt fyrirkomulag tæki mið af eðli fasteignamarkaðarins á landsbyggðinni og þeirrar áhættu sem fylgir íbúðarfjárfestingu ef viðkomandi hefur ekki staðfastan ásetning um framtíðarbúsetu á staðnum. Einnig var vakin athygli á þörf sveitarfélaga á leiguhúsnæði til eigin nota fyrir starfsfólk sitt vegna tímabundinna starfa aðkomufólks, vegna ungs fólks sem er að stofna heimili og aldraðra sem vilja aðlaga húsnæðismál sín breyttum aðstæðum á efri árum.

Með kaupleiguíbúðum er verið að ryðja braut nýjum valkostum í húsnæðismálum landsmanna. Í þessu nýja fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að sveitarfélög, félagasamtök og eða samstarfsaðilar þeirra geti boðið íbúðir bæði í almenna og félagslega kerfinu sem íbúar geta leigt eða keypt eftir atvikum.

Rétt er að undirstrika tvö atriði í þessu sambandi. Í kaupleigufyrirkomulaginu er gert ráð fyrir að sveitarfélög geti fjármagnað framlag sitt með sölu skuldabréfa, t.d. til staðbundinna lífeyrissjóða. Með þeim hætti getur lífeyrissjóður heima í héraði stuðlað að nauðsynlegu auknu framboði íbúðarhúsnæðis og um leið aukið hlut byggðarlagsins í útlánum húsnæðislánakerfisins.

Hitt atriðið er sú nýjung að sveitarfélög geti byggt leiguíbúðir fyrir almennan markað en ekki fyrir láglaunafólk eingöngu. Ábendingar um þetta komu mjög skýrt fram hjá sveitarfélögunum í könnun félmrn.

Bæjarstjórinn á Ísafirði, Haraldur Haraldsson, undirstrikar einnig nauðsyn á kaupleiguíbúðum fyrir almennan markað í grein um húsnæðisvandann á landsbyggðinni sem birtist í Sveitarstjórnarmálum nýverið, en í greininni kemst bæjarstjórinn að þeirri niðurstöðu að með öflugu kaupleigukerfi sé hægt að finna lausn á húsnæðisvanda landsbyggðarinnar.

Í skýrslu byggðanefndar þingflokkanna, sem gefin var út í júlí 1986, kemur m.a. fram um húsnæðismál að ef unnt væri, t.d. með kaupleigufyrirkomulagi eða einhverjum öðrum hætti, að tryggja auðveldari eignaskipti og jafnara fasteignaverð mundi það hafa veruleg áhrif til byggðajöfnunar.

Erfiðleikar landsbyggðarinnar eru af ýmsum toga og margar ástæður liggja til grundvallar. Þróun atvinnulífs og afkoma byggðarlaganna eru oft mjög sveiflukennd, Áhrif þess eru mun meira afgerandi á fasteignaverð á landsbyggðinni en á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa. Íbúðafjárfesting er því áhættumeiri á landsbyggðinni og því vissulega mikið áhyggjuefni að fólk er tregt til að byggja eða kaupa víða á landsbyggðinni þó svo að afkoma sé góð og tekjur gefi tilefni til þess. Augljóst er að við þessar kringumstæður þarf að leita að fleiri valkostum en nú eru fyrir hendi. Einnig þarf að endurskipuleggja almenna húsnæðislánakerfið og forsendur þess því að núverandi kerfi stenst ekki til frambúðar.

Í þessu sambandi vil ég vekja sérstaka athygli á því að í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að hluti af verkefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins verði færður til bankakerfisins. Með því móti getur þjónusta húsnæðislánakerfisins við landsbyggðina aukist verulega, en einnig er á döfinni að koma á fót skipulagðri þjónustu vegna húsnæðismála á landsbyggðinni.

Ég tel nauðsynlegt að reyna að tryggja eins og hægt er að fá aukna ráðgjöf og húsnæðislán afgreidd í lánastofnunum um land allt. Ég vænti þess að sú aðgerð sem ég hef hér lýst verði til þess að efla stöðu landsbyggðarinnar gagnvart opinbera húsnæðislánakerfinu og til að mæta þeim vanda sem landsbyggðin býr nú við í húsnæðismálum.

Í 2. lið fsp. er spurt hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju sérstakar aðgerðir til að draga úr óhóflegum mismun milli landshluta. Bæði a- og b-liður fsp. tengjast því stóra vandamáli sem upp kemur þegar markaðsverð lækkar niður fyrir kostnaðarverð íbúðanna. Þetta þekkjum við frá stöðum á landsbyggðinni þar sem atvinnustarfsemi hefur dregist saman og fólk flutt úr byggðarlaginu. Svipað mun hafa átt við um stórar eignir hér á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1984 og 1985. Þetta vandamál er sérstaklega afgerandi þegar smærri staðir á landsbyggðinni eiga í hlut.

Á vegum húsnæðismálastjórnar starfar sérstök byggðanefnd sem fjallar um húsnæðisvanda landsbyggðarinnar. Ég hef óskað eftir því við nefndina að hún taki þessi vandamál til sérstakrar athugunar og skoðunar. Ég vil þó undirstrika að þetta mál er mjög erfitt úrlausnar og ljóst að engin auðveld lausn er til á þessu viðfangsefni þótt fullkominn skilningur sé á þessu vandamáli og vilji til úrlausnar.