11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4466 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

250. mál, félagslegt íbúðarhúsnæði

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Nú liggja fyrir hjá Byggingarsjóði verkamanna umsóknir um framkvæmdalán til byggingar á 949 íbúðum á árinu 1988. Áætlað er að hægt verði að lána úr sjóðnum til byggingar 500–600 íbúða á árinu. Mikið vantar því upp á að unnt sé að fullnægja eftirspurn eftir lánum til byggingar félagslegra íbúða úr Byggingarsjóði verkamanna eins og staðan er nú.

Síðan eru uppi hugmyndir um að útlánareglur félagslega íbúðakerfisins verði rýmkaðar og framboð aukið. Þrýstingur á þetta félagslega íbúðakerfi eykst því stöðugt af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að launaþróun og afkoma launþega hefur leitt til þess að sárafátt venjulegt launafólk getur byggt eða keypt í almenna húsnæðiskerfinu, að hörð krafa er nú gerð til sveitarfélaga, sérstaklega úti á landsbyggðinni, um að þau leysi húsnæðisvandann með byggingu félagslegra íbúða, að uppi eru hugmyndir um kaupleiguíbúðir sem enn eru óútfærðar, að mikil vöntun er á leiguíbúðum í sveitarfélögum úti á landi, að mikill áhugi virðist á byggingu búseturéttaríbúða, að húsnæðisþörf námsmanna er óleyst og réttur þeirra í almenna kerfinu ófullnægjandi, að mikil og vaxandi þörf er fyrir byggingar yfir aldraða, að enn er langt frá því að unnt sé að anna eftirspurn eftir lánum til byggingar verkamannabústaða og verður að stórefla það kerfi. Miðað við þessa stöðu og hugmyndir allar er hins vegar bráðnauðsynlegt að félagslega íbúðakerfið sé tekið til heildarendurskoðunar og slíkri endurskoðun ljúki sem allra fyrst.

Sveitarfélögin gegna þýðingarmiklu hlutverki í hinu félagslega íbúðakerfi. Því er eðlilegt að þau eigi beina aðild að endurskoðuninni og ekki síst sveitarfélög á landsbyggðinni. Jafnframt verður að tryggja að sveitarfélögum á landsbyggðinni sé fjárhagslega kleift að taka þátt í uppbyggingu íbúða eftir þessu félagslega kerfi.

Sveitarfélögin þurfa að mínu mati á landsbyggðinni að fá forgang að félagslega íbúðakerfinu, en slíkt getur hins vegar leitt til þess og það tiltölulega fljótt að hlutfall félagslegra íbúða á mörgum stöðum úti á landi yrði mjög hátt. Í því sambandi og raunar hvort sem er þarf að endurskoða sérstaklega kaupskylduákvæði sveitarfélaganna á svæðum þar sem mikill munur er á endursöluverði og kostnaðarverði og þess vegna spyr ég hæstv. félmrh.:

„1. Hvað líður endurskoðun á lögum um félagslegt íbúðarhúsnæði?

2. Er í þeirri endurskoðun gert ráð fyrir því að sveitarfélög, þar sem endursöluverð íbúðarhúsnæðis er undir kostnaðarverði, verði leyst undan ákvæðum um kaupskyldu?"