11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4467 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

250. mál, félagslegt íbúðarhúsnæði

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Spurt er á þskj. 543 hvað líði endurskoðun á lögum um félagslegt íbúðarhúsnæði.

Það er auðvitað öllum ljóst að heildarendurskoðun félagslega íbúðakerfisins er viðamikið og vandasamt verk sem vinna verður í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, samtök sveitarfélaga og almannasamtök sem eiga eða reka félagslegt húsnæði. Áður en formlegt starf við endurskoðun félagslega kerfisins getur hafist þarf að afla mikilvægra upplýsinga um félagslegar íbúðir hér á landi sem ekki eru nú fyrir hendi. Undirbúningur að þeirri upplýsingaöflun og þar með endurskoðun á félagslega kerfinu hófst á haustmánuðum þegar félmrn. óskaði eftir því við Húsnæðisstofnun ríkisins að hún hefði umsjón með upplýsingaöflun í þessu skyni sem ég hér nefni. Í því sambandi sendi ráðuneytið bréf til Húsnæðisstofnunar ríkisins, það var í októbermánuði á sl. ári, þar sem tekið var fram að samkvæmt starfsáætlun ríkisstjórnarinnar væri í undirbúningi endurskoðun á uppbyggingu og fjármögnun félagslega íbúðalánakerfisins. Liður í þeirri áætlun væri úttekt á stöðu félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Félmrn. óskaði því eftir því að Húsnæðisstofnun ríkisins tæki að sér öflun og úrvinnslu upplýsinga um félagslegar íbúðir sem fjármagnaðar hafi verið af Húsnæðisstofnun ríkisins. Í þessu sambandi lagði ráðuneytið áherslu á eftirtalin atriði:

1. Að fá fram fjölda, stærð og aldur íbúða á vegum stjórnar verkamannabústaða svo og sveitarfélaga og félagasamtaka.

2. Fá fram fjölda íbúða í verkamannabústöðum sem eru í leigu og tíðni íbúðaskipta.

3. Fá fram upplýsingar varðandi félagslega stöðu íbúanna, svo sem hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð, aldur og efnahag.

Þessi atriði tel ég öll mjög mikilvæg við þá endurskoðun sem fyrirhuguð er á félagslega kerfinu, einkum það að fá fram fjölda íbúða í verkamannabústaðakerfinu sem eru í leigu og tíðni íbúðaskipta, félagslega stöðu og efnahag, þ.e. hvort um sé að ræða umtalsverðan fjölda eigenda í verkamannabústaðaíbúðum sem e.t.v. eru langt yfir þeim tekjumörkum sem gilda í verkamannabústaðakerfinu. Allar þessar upplýsingar tel ég mikilvægar við framtíðarskipulag félagslega íbúðakerfisins.

Ráðuneytið hefur lagt áherslu á það við Húsnæðisstofnun að þetta verk verði unnið í samráði við stjórnir verkamannabústaða og sveitarstjórnir. Það er skemmst frá því að segja að þetta verk er vel á veg komið. Í desember var þetta starf eflt með ráðningu starfsmanns sem mun hafa þetta sem annað aðalverkefni sitt hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í byrjun árs voru um 1700 íbúðir óskráðar í félagslega kerfinu. Nú er unnið að því að ljúka skráningu íbúðanna og annarra nauðsynlegra upplýsinga. Þegar því er lokið verður hér um að ræða fyrsta heildaryfirlit um félagslegar íbúðir á Íslandi. Síðan tekur við úrvinnsla og störf þeirrar nefndar sem með aðild aðila vinnumarkaðarins fær það verkefni að gera tillögur varðandi uppbyggingu og fjármögnun félagslega íbúðalánakerfisins.

Ég vil einnig nefna að í tengslum við endurskoðun félagslega hluta húsnæðislánakerfisins er áformað að gera áætlun um umbætur í húsnæðis- og vistunarmálum aldraðra og fatlaðra.

Í öðrum lið fsp. er spurt: „Er í endurskoðun félagslega kerfisins gert ráð fyrir að sveitarfélög þar sem endursöluverð íbúðarhúsnæðis er undir kostnaðarverði verði leyst undan ákvæðum um kaupskyldu?"

Því er til að svara að kaupskylda sveitarfélaga er bundin við félagslegar íbúðir sem voru byggðar eða keyptar í því skyni að leysa húsnæðisþörf láglaunafólks. Lán til slíkra íbúða eru eins og kunnugt er bæði hærri og hagstæðari en almennt gerist. Til að tryggja að verkamannabústaðir og aðrar félagslegar íbúðir, sem seldar eru, haldist í félagslegri eign og þjóni áfram upphaflegum tilgangi sínum er kaupskylda sveitarfélaganna á þessum íbúðum bundin í lögum. Ég tel því ekki rétt að hverfa frá þessum markmiðum húsnæðislöggjafarinnar.