11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

251. mál, aðstoð við riðuveikisvæði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég tel hins vegar að það hafi komið fram að ekki sé unnið að ráðgjöf og aðstoð við þau svæði þar sem gripið hefur verið til niðurskurðar vegna riðuveiki eins og æskilegt væri og nauðsynlegt. Hér er um að ræða í mörgum tilvikum svæði sem eru mjög viðkvæm varðandi röskun og get ég nefnt í mínu kjördæmi svæði eins og Breiðdal eystra og Borgarfjörð eystri, svæði sem ekki byggja á öðru hvað landbúnað snertir að neinu marki nema sauðfjárrækt og því er það undir því komið hvernig byggðin þróast hvort menn geta horfið að sauðfjárbúskap á nýjan leik. Ég hefði talið að það væri þörf á því fyrir landbrn. og samtök bænda og búnaðarsambönd að gera sérstakt átak til að kanna hug manna í þessum efnum varðandi það að taka upp sauðfjárbúskap á nýjan leik og greiða fyrir því að svo geti orðið. Eins og menn vita liggja ekki upplýsingar um viðhorf manna alltaf á lausu jafnvel þótt um granna sé að ræða, en sauðfjárræktin tengist svo mjög samstarfi manna í sambandi við fjallskil og aðra þætti að brestur í byggðinni að þessu leyti getur breytt ákvörðunum einstaklinga um framtíðina sem eðlilegt er.

Hæstv. ráðherra nefndi búrekstrarkannanir. Ég hef lagt fram sérstaka fsp. þar að lútandi og ætla ekki að ræða það hér sérstaklega, en það hefði sannarlega verið þörf á því einmitt á slíkum svæðum að gera slíkar kannanir fyrr en seinna.

Ég tel að venjuleg hefðbundin ráðgjafarþjónusta í þessum efnum skili ekki þeim árangri, sem nauðsynlegt er að ná fram, að styðja við bakið á þeim sveitarfélögum þar sem horfið hefur verið að því ráði að skera niður sauðfé vegna riðuveiki.

3. lið fsp. minna um sérstaka aðstoð við sauðfjárbændur á riðuveikisvæðum svaraði hæstv. ráðherra með því að vísa til fyrirgreiðslu varðandi búháttabreytingar. Ég var, herra forseti, að inna sérstaklega eftir því hvort vænta mætti að þeir bændur sem vilja bæta aðstöðu sína til sauðfjárræktar sérstaklega og þurfa þess í mörgum tilvikum hafi forgang í sambandi við lánafyrirgreiðslu m.a. frá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég tel að hér sé um stórt mál að ræða fyrir þau svæði sem í hlut eiga og ég hvet hæstv. landbrh. til að taka á þessum málum með öðrum hætti en virðist ráðgert ef marka má svör hans við þessari fsp.