11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4472 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

251. mál, aðstoð við riðuveikisvæði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir áréttingu hans í sambandi við lánafyrirgreiðslu og vænti að það þýði að sauðfjárbændur sem ætla að bæta aðstöðu sína á jörðum og taka upp búskap á ný að loknum niðurskurði megi vænta forgangs í þessum efnum.

Ég vil einnig taka fram að ég tel að hefðbundin ráðgjafarþjónusta sé ekki nægjanleg í sambandi við þann vanda sem þarna er við að fást. Þess vegna þurfi sérstakar aðgerðir til að koma í þessum efnum til þess að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga, en óvissan er þar því miður mjög mikil um framtíðina.