11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4473 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

253. mál, vörugjald á búrnet til loðdýraræktar

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri fsp. skal það tekið fram að við undirbúning frv. til l. um vörugjald var á sínum tíma ákveðið að leggja vörugjald á vír og net og það sjónarmið sem þar lá til grundvallar var einfaldlega tekjuöflunarsjónarmið. Tollskráin greinir ekki á milli neta eftir því til hvaða nota þau eru og því er það svo að loðdýrabúrnet voru ekki sérstaklega tilgreind í tollskránni. Það er rétt, sem fram kom í máli fyrirspyrjanda, að það var fyrir mistök því að eftir stendur bæði samkvæmt meginstefnu tekjuöflunarfrv., yfirlýsinga fyrri ríkisstjórnar og reyndar þessarar að stefnan er sú að forðast uppsöfnun vegna fjárfestingarkostnaðar í greinum eins og iðnaði og landbúnaði.

Samtök loðdýraræktenda hafa komið til fundar við mig í fjmrn. og rætt þessi mál. Niðurstaðan er sú að það er ekki fyrir hendi lagaheimild til að fella vörugjaldið niður. Hins vegar hefur sú hugmynd verið rædd að ráðuneytið endurgreiði innflutningsaðilum þessara neta og þeir eru þrír talsins það vörugjald sem þeir greiða við tollafgreiðslu netanna til þess að uppsöfnun opinberra gjalda verði ekki í þessari grein.

Þó að lögin geri ekki ráð fyrir þess konar afgreiðslu má segja að þær yfirlýsingar um stefnumörkun sem fyrir liggja um gjaldfrelsi aðfanga t.d. í loðdýrarækt styrki slíka afgreiðslu. Þetta mál var tekið upp til umræðu á ríkisstjórnarfundi nú í morgun og því yfirlýst af minni hálfu að þessari aðferð yrði beitt og á það fallist. Það er fyrirsjáanlegt að í lok þessa árs þarf að leggja fyrir Alþingi frv. til minni háttar breytinga á tollalögum og vörugjaldslögum til að lagfæra nokkur atriði sem fram hafa komið eftir að lögin voru samþykkt sem og til aðlögunar nýju frv. til l. um virðisaukaskatt. Framangreint atriði yrði þá tekið inn í þá hreinsun.