11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

254. mál, aflagjald til hafna

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Flokkur hæstv. ráðherra hefur lengi haft á orði að það beri að auka sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarstjórna. Hvernig snýr það við okkur í dag? Einmitt með þeim hætti sem hv. fyrirspyrjandi hefur hérna gert að umtalsefni í sambandi við hækkun hafnagjalda þar sem sveitarfélögin hafa farið fram á nokkra hækkun á aflagjaldi en ekki hefur fengist framgengt.

Aflagjöldin lækkuðu eins og kunnugt er vegna erfiðrar stöðu útgerðarinnar í sambandi við olíuverðshækkunina á sínum tíma og hafa ekki fengist hækkuð síðan þrátt fyrir að hagur útgerðarinnar hafi verulega batnað. Beiðni um hækkun hefur sem sagt ekki fengist fram.

Hvernig snýr þetta að sveitarfélögunum í sambandi við útsvörin? Alveg með nákvæmlega sama hætti. Sveitarfélögin báðu um 7,5% útsvar. Þau fengu ekki nema 6,7% útsvar. Þetta kemur mjög illa við sveitarfélögin í landinu. Þau ná ekki saman endum í sambandi við gerð fjárhagsáætlunar, sem núna stendur yfir, nema Reykjavíkurborg. Það virðist vera svo, þegar kemur að því að taka ákvarðanir í sambandi við sveitarfélögin, að þá sé eingöngu miðað við hagsmuni Reykjavíkurborgar og ekki litið til annarra staða. Ég fullyrði að forræðishyggjan yfir sveitarfélögunum hefur nánast aldrei verið meiri en einmitt núna.