11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

254. mál, aflagjald til hafna

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svar hans. Mér fannst það svar bera nokkurn vott um að hæstv. ráðherra hefði átt í ákveðnum erfiðleikum með þetta mál, kannski samvisku sinnar vegna, því að eins og hér var vakið máls á af hv. síðasta ræðumanni er þarna um verulega mismunun að ræða í garð sveitarfélaganna.

Hæstv. ráðherra víkur sér undan ákvörðun um þetta efni með því að vísa til frv. sem við eigum von á hér í þinginu og greint er frá í stjórnarmálgagninu Alþýðublaðinu á forsíðufrétt í dag. Þar er þetta mál tengt frv. til l. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem liggur fyrir þinginu, en það er eitthvert mesta hrakningsmál sem fyrir þetta þing hefur komið og alger óvissa um með hvaða hætti það verði afgreitt eða hvort það kemur hér til afgreiðslu.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að það kom stjfrv. í gær inn í þingið um framhaldsskóla, sem gengur alveg þvert á boðaða stefnu ríkisstjórnarinnar í sambandi við verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þar sem gert er ráð fyrir 40% þátttöku sveitarfélaga í kostnaði við framhaldsskóla, en samkvæmt boðaðri stefnu að baki frv. til l. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skyldi ríkið eitt eiga þar hlut að máli. Hér kemur mál sem er varpað yfir inn í þetta samhengi og ég ber ekki mikið traust til hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við þessi samskipti við sveitarfélögin, en ég mun að sjálfsögðu ræða það mál þegar það kemur til umræðu á þingi og það frv. sem hæstv. ráðherra hefur boðað að flutt verði varðandi aflagjöldin sérstaklega. Ég spyr hæstv. ráðherra, inni hann eftir því hvaða rök hann sjái fyrir því að ætla að taka aflagjöldin sérstaklega út úr en fjalla um ákvörðun varðandi vörugjöldin á vegum síns ráðuneytis.