11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég óska hv. flm. þessarar þáltill. til hamingju með málið og þá ræðu sem hér var flutt. Ég hygg að í þessari umræðu hafi verið fluttar tvær jómfrúrræður eins og við köllum þær hér á Alþingi og er það ekki óeðlilegt í sambandi við þann vaxtarbrodd í íslenskum landbúnaði sem hér er til umræðu og menn binda miklar vonir við. En erfiðleikarnir eru líka margir sem kannski er ekki að undra þegar um er að ræða nýmæli af þessu tagi.

Ég tel efni þáltill. vera nauðsynjamál og þó að það þurfi að gæta að því sem hér hefur verið að vikið, m.a. af hv. 2. þm. Norðurl. v., í sambandi við sjúkdómahættu verðum við að reyna að búa að þessum iðnaði eða eigum við að segja búgrein með þeim hætti að við getum talist samkeppnishæfir og þar skipta kynbæturnar og möguleikarnir á að leita í útlenda erfðastofna vissulega miklu máli.

Ég vildi nefna í þessu sambandi þörfina á efldri ráðgjafarstarfsemi í loðdýrabúskap, en ég hef lagt fram fsp. til hæstv. landbrh. þar sem beðið er um skriflegt svar um að skilgreint verði og hann leggi fyrir þingið upplýsingar um með hvaða hætti staðið er að ráðgjöf í sambandi við loðdýrarækt í landinu. En það er kannski ein stærsta brotalömin að mínu mati í sambandi við þessa nýju búgrein að okkur hefur ekki tekist að byggja þar upp ráðgjafarstarfsemi með þeim hætti sem æskilegt væri og líklegast til að skila árangri. Hér hefur réttilega verið sagt að ólíkar aðstæður eru hvað rekstrarstöðu snertir milli minkaræktar og refaræktar, en ég hygg þó að nauðsynlegt sé að við áttum okkur á því að fyrr en varir getum við staðið frammi fyrir mun harðari samkeppni í sambandi við minkaeldið en raun er á nú um sinn þannig að við þurfum að gæta þess að búa okkur undir erfiðari tíma einnig á því sviði eins og við höfum þegar reynt í sambandi við refaræktina.

Ég þakka fyrir það frumkvæði sem hér hefur verið haft með flutningi þessarar till. og vænti þess að hún fái verðuga afgreiðslu hér í þinginu.