11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Flm. (Elín R. Líndal):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðurnar og góðar undirtektir við till. Þetta er málefni sem brennur mjög á loðdýrabændum nú. Loðdýraræktin er ung atvinnugrein hér á landi og uppbyggingin hefur verið mjög hröð, bæði á búunum sjálfum og fóðurstöðvunum. Fóðurverð er því víða of hátt vegna of mikils fjármagnskostnaðar m.a. og því er atvinnugreinin illa búin undir svona mikla verðlækkun.

Það komu fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. varnaðarorð um sóttkví og aðgæslu í þeim málum. Ég tel nokkuð vel að þeim málum búið í reglugerð um loðdýrarækt og innflutning loðdýra og sé hún svo ströng að það sé hægt eftir henni að fara. En ég tek heils hugar undir varnaðarorð í þessum málum með hliðsjón af fyrri reynslu, t.d. miðað við að þegar flutt var inn á Möðruvöllum stóð tæpt að við fengjum þar sýktan stofn.

En það er með þessa spurningu hvernig á að reikna út gæði skinnanna. Ekki er hægt að reikna þau út með verði. Ég rakti hér að við vorum með næsthæsta verð og það er af þeim tveimur ástæðum að við erum með hlutfallslega verðmeiri litarafbrigði, sem við framleiðum hér, og eins að við seldum sama og ekkert á desemberuppboðinu í fyrra, en mjög mikið í febrúar og mars sem var við mun hærra verði. Það má alveg eins vera að það sé ekki endilega rétt að fara eftir þessu, en þá er spurningin eftir hverju á að fara ef ekki gæðunum sem koma fram í þessu? Við getum ekki mælt gæði á þeim dýrum sem búið er að setja á. En ég sé að þetta kemur ankannalega út. Yfirleitt eru þetta allt högnaskinn af því að það er svo mikill ásetningur.

En ég kom fyrst og fremst upp til að þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið og vænti þess að tillagan fái góða meðferð og velvild á hv. Alþingi.