11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég hygg að flm. þessarar þáltill. hafi á mörgum sviðum ólíkar skoðanir, enda úr fremur ólíkum stjórnmálaflokkum sem þó allir eiga það sammerkt að styðja ríkisstjórnina um þessar mundir. Ég hygg að það séu áhyggjur af þróun efnahagsmála sem hafa fengið þessa menn til að sameinast um þá ályktun sem hér er lögð fyrir hið háa Alþingi. Í dag búum við Íslendingar við vaxandi viðskiptahalla við útlönd. Lengi vel töldu spakir menn að gengisskráning væri hagstjórnartæki sem væri notað til að jafna samkeppnisaðstöðu innlendra og erlendra framleiðenda. Í dag er útstreymi á gjaldeyri sem mun leiða til efnahagslegra þrenginga áður en varir. Á hverju lifum við Íslendingar, hvað er það sem hér hefur skapað hin góðu lífskjör, er það varan sem við seljum fyrir gjaldeyri eða varan sem við kaupum inn í landið?

Einhvern tímann var sagt: Danskurinn og fjanskurinn á Djúpavog dregur að sér auðinn. Kann það að vera að einhverjir séu í dag að draga að sér auðinn, draga af undirstöðuatvinnuvegunum auðinn inn í sitt veski? Er eitthvað sem bendir til þess að þeir menn sem stunda og stjórna rekstri þess hluta atvinnulífsins á Íslandi sem selur afurðir sínar á erlendum mörkuðum séu lakari rekstrarmenn en hinir sem reka fyrirtækin sem framleiða og þjóna innanlandsmarkaðnum? Nei, allt bendir til hins gagnstæða, að þeir sem heyja harða samkeppni á mörkuðum erlendis standist prófið. Við náum sífellt hærra verði fyrir fiskafurðir okkar og erum vissulega með verðþandar afurðir. En það hefur okkur liðist vegna þess að gæðin á fiski okkar eru slík. En hvenær brestur það? Ýmsar þjóðir leggja nú áherslu á að ná slíkum gæðum. Hvað þá? má spyrja.

Hér var í umræðunni áðan loðdýraræktin og það má spyrja að því þegar hún hrópar á hjálp: Stafar ekki hennar vandi líka af sama toga, gæti ekki munað um það fyrir loðdýrabóndann ef hann fengi kannski, miðað við að gengið væri skráð rétt og því væri aldrei raskað með þenslu innan lands, 400–500 kr. meira í sinn hlut fyrir hvert skinn þegar skipt er yfir í íslenskar krónur?

Flm. hefðu kannski fremur átt að flytja hér till. um að þeir sem gjaldeyris afla mættu selja hann hæstbjóðanda í stað þess að skipta yfir í verðlausar íslenskar krónur. Á gengið að vera frjálst og ákvarðast af framboði og eftirspurn? Að þessu má spyrja. Við búum við mikið frelsi innan lands. Það eru frjálsir vextir, það er frjáls innflutningur, frjáls álagning og samkeppni í algleymingi. En gengið skal vera frosið og fast hvað sem gerist. Það ríkir í dag spákaupmennska og er þensla í efnahagskerfinu. Útflutningsatvinnuvegirnir fá yfir sig kostnaðinn af spákaupmennskunni. Þeir sækja ekki hækkanir í vasa erlendra neytenda. Hvað hjó verðbólgan á síðasta ári stórt skarð í krónuna íslensku? Var það 20–30%? Varð krónan íslenska að 70 aurum? Hvernig á sjávarútvegurinn, ullariðnaðurinn, loðdýraræktin, fiskeldið og samkeppnisiðnaður að mæta slíku? Það er vandaminna hjá verslun og þjónustu að gera slíkt. Borgarstjórinn hérna t.d. fann ráð til að mæta slíku. Hann hækkaði gjaldið í stöðumæla nú á dögunum úr 10–20 kr. upp í 50 kr. Hann spýtti því út í verðlagið og gat látið náungann borga. Það væri t.d. fróðlegt að heyra hvort menn telji líklegt að ein vænlegasta nýgrein atvinnulífsins haldi hlut sínum á þessu ári miðað við allar kostnaðarhækkanir innan lands og fast gengi. Þá á ég við ferðamannastrauminn hingað. Verður skarð í þeirri grein vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á síðasta ári og horfur eru á við óbreyttar aðstæður að haldi áfram?

Ég er orðinn afskaplega þreyttur á því að heyra sífellt í fréttum að vel rekin fyrirtæki í útflutningsgreinum séu á hausnum. Fólk er að flytja frá byggðarlögum sem afla verðmæta sem seljast á hæsta verði í heiminum. Tökum sem dæmi Vestmannaeyjar. Eitt hundrað manns fluttu þaðan á sl. ári. Er það eðlilegt? Ætti ekki þrótturinn og háu launin að vera á slíkum stað miðað við að aðstæður væru eðlilegar? Þá á ég við: Þeir eru að fá hæsta verð á sínum fiski, þeir búa við lægst olíuverð sem við höfum þekkt um áratugi og að auki er engin uppsöfnun á afurðum. Það selst jafnóðum út í veröldina.

Það var einhver verkamaður hjá þjónustufyrirtæki í Reykjavík að segja í fréttunum að hann væri orðinn þreyttur að fá ekki launahækkun hjá sínu vel rekna fyrirtæki af því einhverjir fiskvinnsluskussar úti á landi rækju sín fyrirtæki illa og gætu þess vegna ekki hækkað launin við sína verkamenn. Það er ekki von að hann skilji það manngreyið að það er verðstöðvun af mannavöldum hjá útflutningsgreinunum meðan hinir vísa sínum hækkunum frjálst út í verðlagið.

Alhliða efnahagsráðstafanir eru við núverandi aðstæður mikilvægar, að móta ramma sem markar öllum í landinu frelsi innan marka. Gengisskráning hlýtur að koma inn í þá umræðu eftir það þensluástand sem hér ríkti á síðasta ári. Sjálfsagt er rétt að gengisfelling ein og sér leysir ekki vandann, en gengisskráning er þó viðurkennd sem hagstjórnartæki og hver þjóð hlýtur með kjafti og klóm að verja sitt atvinnulíf, halda fullum þrótti í útflutningsgreinum og gæta þess að samkeppnisgreinar, svo sem iðnaður, standist samkeppni við innflutning og hvers konar framleiðsla fái haldið velli.

Einhvern tímann trúðum við því að hollur væri heimafenginn baggi. Ég er ekki talsmaður þess að taka hér upp höft, en getum við horft á útlendinga með alls konar brögðum og klækjum og lúmskum ríkisstyrkjum leggja að velli okkar framleiðslu á mörgum sviðum? Sjávarútvegurinn er langsterkasti atvinnuvegur Íslendinga og ræður útkoma hans afkomu á landsbyggðinni. Það er enginn vafi að sé gengi erlends gjaldeyris ákveðið þannig að útflytjendur fá of lítinn innlendan gjaldmiðil fyrir erlenda gjaldeyrinn, sem þeir afla miðað við innlendan tilkostnað, er þróttur dreginn úr útflutningsgreinunum og langvarandi mismunur á innanlandsþenslu með rangt skráðu gengi þýðir það eitt að það dregur úr útflutningi og vöruskiptajöfnuður verður óhagstæður eins og við horfum nú upp á. Hitt er svo aðalmálið að ná tökum á verðbólgunni. Það eitt að binda íslenskt myntkerfi við erlendan gjaldmiðil nægir ekki ef verslun og þjónusta halda áfram að ávísa út í verðlagið og ef ríkið og opinberir aðilar halda áfram sinni þenslustefnu. Það eru alhliða aðgerðir sem grípa verður til í efnahagsmálum.

Ég tek undir þau orð að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar stafar nú mesta hætta af þeirri sjálfheldu sem peningamál eru í hér á landi. Í skjóli þeirra innanlandshækkana sem nú viðgangast eiga sér stað eignatilfærslur og eins og ávallt áður í verðbólgu eykst mismunun á launum og aðstæðum manna. Ég vænti þess að menn hugi að þessari þáltill. Hún ætti alla vega að vekja íslensk stjórnvöld til vitundar um að það ástand sem nú ríkir getur ekki gengið öllu lengur. Ef menn réðust í breytingar sem þessar yrðu þeir samhliða að taka á öllum þáttum efnahagslífsins og halda rammanum stöðugum eins og ég hef drepið á.