11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3123)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ég held að tillöguflutningur sá sem hér er á ferðinni sé eðlilegur, þ.e. eðlilegur í því samhengi að það ástand sem við búum við í þessum málum er ekki nógu gott. Það er væntanlega undirrót þess að flm. leggja út í tillöguflutning af þessu tagi. Það er erfitt að leggjast gegn því að málin séu skoðuð eða skipaðar séu nefndir til að athuga hlutina og fara ofan í þá, en ég get þó ekki látið hjá líða við fyrri hluta umræðu um till. að gjalda mikinn varhug við því að haldið verði af stað inn á þá braut sem till. í raun stingur upp á þó að vægt sé til orða tekið.

Ég vil þó aftur ítreka að ég skil vel að mönnum finnist nauðsynlegt að leita leiða til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur um gengisskráningu íslensku krónunnar vegna m.a. þess misvægis sem af gengisskráningunni getur leitt í afkomu greina atvinnulífsins í landinu og landsvæða þar með. Ég held þó að aðalatriðið í þessu máli sé í raun og veru að gengið sé rétt skráð, að gengi íslensku krónunnar sé raunhæf ávísun, raunhæfur mælikvarði á þau verðmæti sem liggi að baki í landinu. Ég tel það í raun og veru algjörlega óskiljanlegan hluta af íslensku sjálfstæði að við höfum okkar eigin íslenska sjálfstæða gjaldmiðil. Það er ekkert sem segir að gjaldmiðlar smáþjóða geti ekki verið sterkir ef rétt er að málunum staðið og þær þjóðir búa við þá verðmætasköpun, eru svo ríkar að það geti gefið tilefni til og staðið undir stöðugri gengisskráningu. Um þetta má að sjálfsögðu finna ótal mörg dæmi. Það er reyndar svo að það eru ekki gjaldmiðlar stórþjóðanna og stórveldanna endilega sem yrðu teknir sem dæmi ef menn færu að leita fyrir sér um hvar gengið hefur lengst verið stöðugt í heiminum. Þetta hygg ég að menn fyndu út ef þeir færu og könnuðu þau mál. Það má finna eftir því sem mér er best kunnugt um dæmi t.d. um Asíuþjóðir sem hafa búið lengi við miklu stöðugra gengi en margar af stórþjóðum Vestur-Evrópu.

Menn misskilja oft í þessu samhengi það óhagræði sem vissulega má segja að sé af því að vera hluti smáþjóðar og búa við það úti í löndum að þessi gjaldmiðill er ekki gjaldgengur í viðskiptum hvar sem er á byggðu bóli. Það er hins vegar stórhættulegt að rugla því saman við að það geti ekki gengið prýðilega fyrir sig og þjónað þjóðinni ágætlega að hafa sinn eigin sjálfstæða gjaldmiðil. Menn leysa að sjálfsögðu ekki þetta óhagræði, ef þeir vilja geta verslað og höndlað fyrir hinn íslenska gjaldmiðil hvar sem er í heiminum, öðruvísi en með því að taka upp einhvern af þeim fáu gjaldmiðlum sem njóta þeirra forréttinda. Ég held eða a.m.k. vil í lengstu lög vona að það sé ekki það sem hér er á ferðinni. Ef hins vegar gengið er traust og verðmætasköpunin sem þar stendur á bak við einnig traust verður okkur ekki skotaskuld úr því að verða okkur úti um þann erlenda gjaldeyri, það skotsilfur sem við þurfum til okkar brúks á ferðalögum og annars staðar. Svo fremi sem okkar útflutningsstarfsemi á gjaldeyrissköpun sé næg er það einfalt framkvæmdaatriði sem á ekki að vefjast fyrir okkur. Þessu finnst mér stundum að menn rugli saman og maður heyrir iðulega þann málflutning að það sé ómögulegt að vera með þessa krónu sem hvergi sé hægt að versla fyrir úti í heimi. En það eru nú einu sinni örlög smáþjóðanna og ætli það séu nú ekki miklu fleiri sem búa við sams konar aðstæður og við Íslendingar í þessum efnum.

Ég vil taka undir með frsm. um það að mér hefur leiðst dálítið í umræðu undanfarinna mánaða það dekur sem ég kalla svo og kemur fram í máli ákveðinna aðila varðandi Evrópubandalagið. Ég held að það sé stórhættulegt að ábyrgir aðilar íslenskir séu með dekur í þessum efnum. Við eigum að láta það liggja fyrir alveg skýrt og skorinort að það er ekki á dagskrá á Íslandi að ganga inn í Evrópubandalagið. Það er stórhættulegt að mínu mati að aðilar sem tekið er mark á séu með tvírætt orðalag í þessum efnum. Þess vegna fagna ég því hvernig formaður utanrmn. Alþingis fjallaði um þessi mál áðan.

Ég held að það séu í raun aðrar aðferðir sem liggi nær okkur en þær að tengja gengi íslensku krónunnar við erlenda gjaldmiðla og sem mundu leysa þau vandamál sem ég hef skilið sem hvatann að því að þessi till. er flutt. Ég hef skilið það svo að það sé í sjálfu sér ekki neitt keppikefli flm. sem slíkt að koma á slíkri tengingu, en spurningin er um það: Er það aðferð, er það ráð til þess að komast út úr þeim ógöngum sem við erum í staddir með þessi mál? Það er aðferð en ekki markmið eins og ég hef skilið það. Þar af leiðandi, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, herra forseti, er kannski erfitt að leggjast gegn því að þessi mál séu skoðuð, en ég vil engu að síður að mín varnaðarorð í þessum efnum séu alveg klár.

Auðvitað er það hárrétt að gengisskráningin eins og hún kemur manni fyrir sjónir er óhagstæð framleiðslugreinunum, útflutningsframleiðslustarfseminni, og landsbyggðinni þar með og veldur stórfelldum tilflutningi fjármagns í þjóðfélaginu, flytur til fjármagn í þjóðfélaginu.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri, úr því að það hefur komið fram í þessari umræðu, herra forseti, til að lýsa þeirri skoðun minni og algjörri andstöðu við hugmyndir sem uppi eru um að hleypa erlendum bönkum inn í íslenska efnahagslífið. Ég held að það sé ein af þessum stórhættulegum hugmyndum sem menn dekra nú við, daðra við í máli sínu án þess að fara mikið nánar út í hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íslenskt sjálfstæði og íslenskt efnahagslíf. Við höfum stundum talað um það undanfarin misseri að útlendingar væru að koma bakdyramegin inn í íslensku landhelgina, þ.e. með því að kaupa upp hráefni af íslenskum fiskimiðum óunnið, og má til sanns vegar færa. Ég segi að útlend áhrif gætu nákvæmlega eins komist bakdyramegin inn í íslenska efnahagskerfið með því að erlendir bankar hæfu hér upp starfsemi og umsvif. Halda menn að erlendir alþjóðlegir bankar stundi góðgerðarstarfsemi? Eru það traust rök að halda því fram að það yrði til stórfelldra hagsbóta fyrir okkur Íslendinga þegar til lengri tíma er litið að fá hér inn erlenda banka með sína starfsemi? Ætli það kæmi ekki til kasta okkar sjálfra að borga þeim þá þóknun sem þeir væntanlega ætla sér að fá fyrir sinn snúð? Eða bendi menn mér á dæmin um alþjóðlega erlenda banka sem eru þekktir að því að stunda góðgerðarstarfsemi og þá skal ég fara að ræða við menn um þessi mál. Auðvitað er það fjarstæða og er enginn vafi í mínum huga að með ríkisbönkum og opinberri stýringu á erlendum lántökum njótum við Íslendingar bestu fáanlegra kjara erlendis í lántökum og þannig eigum við að hafa það áfram. Þau kjör koma ekki til með að gera neitt annað en að versna ef við hleypum erlendum bönkum inn í íslenskt efnahagslíf. Þetta tengist allt saman í mínum huga: hugmyndir um að tengja íslensku krónuna erlendum gjaldmiðlum, hugmyndir um umsvif erlendra banka, ég tala nú ekki um daður við að ganga inn í Evrópubandalagið. Allt eru þetta að mínu mati stóralvarleg mál þegar um það er rætt í samhengi við sjálfstæði okkar Íslendinga, sjálfstæði íslensks efnahagslífs og möguleika okkar til þess að vera eigin húsbændur í eigin landi.

Ég vil því, herra forseti, við þessa umræðu koma þessum varnaðarorðum á framfæri og tel í sjálfu sér að það þurfi að fara ákaflega varlega í málið, jafnvel að setja þessi mál á eitthvert könnunarstig því það er svo að menn fara væntanlega ekki að kanna hlutina fyrr en þeim dettur í hug að það gæti verið ástæða til að framkvæma þá. Eins og ég segi: Það mætti mín vegna setja einhverja menn í að skoða hvaða möguleikar væru fyrir hendi í þessum efnum en með fullum fyrirvörum um það, a.m.k. af minni hálfu, að það komi til greina að ganga út á þessa braut.

Ég verð svo, herra forseti, ræðutímans vegna, sem ég geri nú ráð fyrir að sé alveg í þann veginn að ljúka, (Forseti: Ræðutímanum er alveg lokið.) að geyma mér þær umræður sem ég hefði vissulega haft óskaplega mikinn áhuga á og ég tala nú ekki um ánægju að fara ofurlítið út í umræður um „Eykonomics“, sem báru lítillega á góma, en það verður víst að bíða betri tíma.