11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4501 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Þessi till. til þál. er allrar athygli verð. Að baki hennar býr sú meginhugmynd að stöðugleiki í gengi geti fært með sér heilbrigðan aga og aðhald, sem er vissulega ekki eftirlætisorð þess sem mælti fyrir till., í íslenskum þjóðarbúskap. En þetta er kjarni málsins.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að halda gengi krónunnar sem stöðugustu. Þessu til áréttingar ákvað Seðlabankinn með samþykki ríkisstjórnarinnar að frá og með 12. okt. 1987 skyldi halda gengi krónunnar stöðugu miðað við vægi gjaldmiðla í viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd. Í þessu fólst nokkur breyting frá fyrri viðmiðun sem var miðuð við skiptingu greiðslna eftir myntum. Í framhaldi af þessari ákvörðun óskaði ég eftir því með bréfi til Seðlabankans að hann kannaði sérstaklega hvaða viðmiðun og gengistilhögun, sem hér er einmitt til umræðu, mætti telja best til þess fallna að tryggja í framtíðinni sem mestan stöðugleika í gengis- og efnahagsmálum. M.a. óskaði ég eftir því að kannað yrði hvernig tenging eða viðmiðun við evrópska myntkerfið, sem hér hefur borið á góma, European monetary system, og mynteiningu Evrópubandalagsins, ECU, mundi orka á íslenskt efnahagslíf og gengismál. Ég óskaði þess að Seðlabankinn hraðaði þessari könnun og hefði samráð við viðskrn. um tilhögun hennar. Þessi athugun stendur nú yfir og er nokkuð á veg komin og fjallar í reynd um sama mál og hér er lagt til að nefnd verði skipuð til að kanna. Þetta mál þarf að kanna mjög vandlega og ég tek undir það með flm. að það er vissulega tímabært að gera slíka könnun.

Í stuttu máli má segja að það sé þriggja kosta völ um gengistilhögun. Í fyrsta lagi núverandi fyrirkomulag sem er tenging við myntkörfu úr okkar eigin viðskiptum en þó háð endurskoðun öðru hvoru. Í öðru lagi að binda íslensku krónuna formlega við einhverja erlenda myntkörfu, t.d. reikningseiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, SDR, eitthvað sem ekki væri háð okkar eigin viðskiptum eða ákvörðunum. Og svo í þriðja lagi einhvers konar aðild eða tenging við evrópska gjaldeyriskerfið sem ég nefndi áðan og kom fram í máli hv. frsm.

Þetta eru þeir þrír meginkostir sem til greina koma því ég tel að það sé varla raunhæfur kostur að láta gengið ráðast hér á daglegum uppboðsmarkaði og mundi reyndar fljótt enda í einhverju af þessu þrennu sem ég hef nefnt. En þegar maður hugleiðir val á gengistilhögun, sem er annað mál en gengisskráningin sjálf eins og hún er á hverjum tíma, er gagnlegt að skoða það frá þremur hliðum:

1. Gefur tilhögunin svigrúm til að beita genginu ásamt öðrum efnahagsaðgerðum til að halda stöðugu og háu atvinnustigi hér á landi, stuðla að hagvexti og jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd?

2. Stuðlar það að stöðugu gengi gagnvart vegnu meðalgengi erlendra gjaldmiðla og dregur það úr gengisóvissu íslenskra fyrirtækja og almennings? Þetta er ákaflega mikilvægt því það er undirstaðan í viðskiptum að geta metið rétt í hvað sé vert að leggja miðað við kostnað og hvað menn búast við að fá fyrir það sem þeir búa til.

3. Hér kem ég aftur að „eftirlætisorði“ hv. flm.: Felur það í sér nægilegt aðhald og aga á innlenda hagþróun, þ.e. stuðlar það að því að jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum án verðbólgu eða með minni verðbólgu en verið hefur?

Þetta eru þessi þrjú meginsjónarmið. Það þarf auðvitað að gera á því ítarlegan samanburð hverju sinni hvernig kostirnir þrír í gengismálum, sem helst virðast koma til greina, gætu dugað þegar á er litið á þennan hátt.

Það er auðvitað mála sannast að gengisskráningunni er ætlað býsna fjölþætt hlutverk í okkar hagstjórn og reyndar í seðlabankalögum. Það er oft sagt að gengisskráningunni sé ætlað að viðhalda stöðugu verðlagi, í öðru lagi að ná jöfnuði í viðskiptum við önnur lönd og í þriðja lagi að tryggja rekstrarafkomu útflutnings og samkeppnisgreina. Þetta eru oft og tíðum ósamrýmanleg markmið og ef sjónarmið stöðugleika í verðlagsmálum er eitt sett á oddinn verður þjóðarbúið að reiða sig á aðrar ráðstafanir en gengisbreytingar til að tryggja fulla atvinnu og jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Það er því miður fáum gefið að slá þessar þrjár flugur í einu höggi og er reyndar varla nokkrum ætlandi. En ef gengisstefnunni er fyrst og fremst ætlað að vera akkeri fyrir verðlagið verða menn að segja það skýrt að þá hvílir meiri ábyrgð á, þá leggst þyngri byrði á fjármálastjórnina og peningamálastjórnina. Það liggur í augum uppi og reyndar tel ég að með slíkri gengisfestu hlyti að fylgja aukið frjálsræði í gjaldeyrisviðskiptum sem að sínu leyti kallar á sveigjanlegri ákvarðanir á vöxtum, meiri tengingu við erlenda fjármagnsmarkaði. Því fylgir margt sem fram kom í máli hv. 3. flm. og ég ætla reyndar ekki að hefja hér almenna umræðu um peninga- og vaxtamál þótt það sé vissulega rétt, eins og fram kom hjá hv. 8. þm. Reykv. og reyndar fleiri ræðumönnum, að þarna er skylt skeggið hökunni, að þarna eru tengingar, en ég kýs, hæstv. forseti, að fresta þeirri umræðu til betri tíma, m.a. um bindiskyldu og lausafjárkvaðir í bankakerfinu.

En eins og hér hefur komið fram hlýtur að fylgja ófrávíkjanlegri gengisfestu að þar með eru menn að takmarka þau tæki sem þeir ráða yfir við stjórn efnahagsmála og er það að nokkru leyti sjálfviljugt framsal eða afsal á efnahagslegu sjálfstæði. Þetta liggur í augum uppi. Slík ráðstöfun mundi líklega stuðla að stöðugra verðlagi, en jafnframt, og það er mikilvægt að menn átti sig á því, auka sveiflur í eftirspurn eftir vinnuafli og á viðskiptajöfnuði. Það er þetta sem við þurfum að hafa í huga þegar við veljum gengistilhögun: Erum við reiðubúin að axla þá ábyrgð sem því fylgir að binda okkur við stjóra á þennan hátt?

Þegar maður kemur að tæknilegri atriðum er t.d. spurningin hvers konar tenging við gengi, hvers konar gengisvog dreifir áhrifum alþjóðlegra gengisbreytinga við þau skilyrði sem nú ríkja á erlendum gengismörkuðum, með miklum breytingum frá ári til árs, og reyndar frá degi til dags, hvernig jafnast þetta best yfir alla þætti í okkar þjóðarbúskap. Ef við bindum gengið einhliða við eina mynt er þeim fyrirtækjum sem stunda viðskipti í þeirri mynt hlíft við óþægindum sem stafa af gengisbreytingum á alþjóðamörkuðum en aftur á móti yrði aðlögunarvandi þeirra sem stunda viðskiptin í öðrum myntum miklu meiri fyrir bragðið. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi erum við með viðskiptaskiptingu sem grundvöll.

Eins og ég hef þegar nefnt koma tveir aðrir kostir helst til greina. Annars vegar evrópska mynteiningin, ECU, hins vegar reikniseining Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, SDR. Ef við veldum Evrópueininguna mundi gengi krónunnar auðvitað verða stöðugra gagnvart Evrópumyntunum, en gengissveiflur gagnvart öðrum þeim mun meiri. Þar með er komin togstreita milli þeirra fyrirtækja sem stunda viðskipti á Evrópumarkaði og heldur vildu vera þeim megin og hinna sem stunda sín viðskipti á Bandaríkjamarkaði. Þetta er mikið matsatriði og ég held að maður geti ekki einhlítt kveðið upp úr um hvað sé nú besta viðmiðunin. En það er auðvitað rétt að utanaðkomandi gengisviðmiðun, sem á engan hátt verður breytt af íslenskum stjórnvöldum nema með ákvörðun Alþingis t.d., myndi auka tiltrú almennings á fastgengisstefnunni. En hvaða aðra kosti slík gengisviðmiðun hefði þarf að vega og meta.

Þar komum við m.a. að því sem kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. og reyndar fleiri og það eru tengslin við Evrópubandalagið. Það er rétt, eins og kom fram hjá 4. þm. Norðurl. e., að aðild Íslands að þessu Evrópubandalagi er alls ekki á dagskrá. Það er e.t.v. þegar af þeirri ástæðu að bandalagið sjálft hefur ekki áhuga á fleiri aðildarríkjum um sinn, en ég tel einnig að fyrir því séu góðar og gildar íslenskar ástæður að við sækjumst ekki eftir því. En hins vegar, eins og kom fram í máli hv. formanns utanrmn. Alþingis, er það mikið keppikefli og hagsmunamál Íslendinga að ná sem hagstæðustum samningum við Evrópubandalagið á mörgum sviðum. Þar er myntsamstarfið, gjaldeyrissamstarfið, eitt svið sem ég tel að við eigum mjög vandlega að fylgjast með, ekki síst af þeirri ástæðu að milli 55 og 60% af okkar utanríkisviðskiptum eru við Evrópubandalagið og þær þjóðir sem það mynda og mynda þetta myntbandalag.

Það er athyglisvert í þessu sambandi að stjórnarformaðurinn í BIS, Bank for International Settlements, sem er eins konar seðlabanki seðlabanka iðnríkjanna, Hollendingurinn Wim Duisenberg, sem er seðlabankastjóri Hollands, hefur alveg nýlega hvatt til þess á ársfundi þessa banka að Evrópulönd tengi myntir sínar við evrópska myntkerfið hvort sem þau eru aðilar að Evrópubandalaginu eða ekki. Þetta mál hefur lengi verið á dagskrá hjá sumum grannþjóðum okkar, eins og Norðmönnum og Svíum. Ég held að við eigum einmitt að hafa augun opin fyrir þessari þróun og þetta sé eitt af þeim málasviðum þar sem við eigum að leita eftir leiðum til að tengjast Evrópu, en með ýmsum þeim fyrirvörum sem fram hafa komið í máli fyrri ræðumanna.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu með örfáum orðum og ég ítreka að mikilvægasta spurningin í þessu máli er sú hvort unnt sé að ná varanlegri hjöðnun verðbólgu með því að gera stöðugleika gengisins að einni meginviðmiðun efnahagsstefnunnar og veita þannig aðhald að þróun verðlags og framleiðslukostnaðar. Þetta hefur oft skort hér á landi á undanförnum árum. Við trúðum því um skeið að sveigjanlegt gengi, þar sem tekið væri tillit til mismunandi þróunar framleiðslukostnaðar hér á landi og í öðrum löndum og sveiflna í viðskiptakjörum og öðrum ytri búskaparskilyrðum, gæti gefið okkur kost á að verjast ytri áföllum og halda hér uppi hærra atvinnustigi en með öðrum þjóðum. Ég held að reynslan hafi sýnt að hin sveigjanlega gengisstefna hafi að ýmsu leyti gengið sér til húðar og hún hafi á liðnum árum stundum leitt til aðhaldsleysis í efnahagsákvörðunum á öllum sviðum þjóðlífsins.

En það er auðvitað undirstaðan fyrir öllum skynsamlegum ákvörðunum í gengismálum, í efnahagsmálum eins og á öðrum sviðum, að menn skilji nauðsyn þess að horfast í augu við staðreyndir atvinnulífsins og viðskiptalífsins yfirleitt og hagi gerðum sínum í samræmi við það. Þegar þróun efnahagsmála hins vegar kemst á það stig að reynt er með sífelldu kapphlaupi verðlags, launa og gengis að velta efnahagsvandanum frá einum hagsmunaaðilanum til annars getur afleiðingin ekki orðið nein önnur en taumlaus verðbólga sem allir skaðast af að lokum.

Sé tekin staðföst ákvörðun um stöðugleika í gengismálum við rétt gengi eins og hér kom fram áðan, því það „varðar mest til allra orða að undirstaðan sé réttlig fundin“, þá getur gengisskráningin átt mikinn þátt í að tryggja að sú raunasaga sem ég drap á endurtaki sig ekki. En föst gengisskráning verður þó aldrei nein endanleg lausn á öllum okkar efnahagsvanda.