11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

227. mál, íslenskur gjaldmiðill

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Hér er í lítilli þáltill. vikið að mjög stóru máli. Ég verð að taka undir orð ýmissa hv. þm. um að menn skyldu nú fara gætilega í hvernig þetta mál yrði þróað.

Stefán Valgeirsson, hv. 6. þm. Norðurl. e., nefndi það m.a. í sinni ræðu að hann hefði allan fyrirvara um hvernig skipan nefndarinnar yrði með tilliti til niðurstöðu. Enn fremur sagði hv. þm. að það hverjir skipuðu nefndina gæti ráðið úrslitum um hver yrði niðurstaðan og þar með hugsanleg stefnumörkun í þessu máli af hálfu slíkrar nefndar. Ég tek undir orð hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Það getur verið mjög hættulegt ef þeir menn skipuðu nefndina sem hefðu ekki ríka eða sterka tilfinningu fyrir íslenskum atvinnuvegum og íslenskum þjóðháttum. Mér virðist að sú þróun hafi orðið síðustu árin að það sé full þörf á því að menn geri sér grein fyrir því í hvaða landi þeir búa.

Í þessari þáltill. er m.a. skorað á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að kanna hvort og þá með hvaða hætti helst kæmi til greina að tengja íslenska myntkerfið við annað stærra myntkerfi. Ég fyrir mitt leyti get fallist á að þetta sé kannað, en mér finnst eins og tillögumenn hafi gefið sér það að þá skuli einnig athugað með hvaða hætti þetta skuli framkvæmt. Í því felst að mínu mati ákveðin stefnuyfirlýsing um að tillögumenn vilji tengja íslenskan gjaldmiðil einhverjum erlendum eða stærri gjaldmiðli sem mundi hafa þau áhrif, eins og hæstv. viðskrh. sagði áðan, að það gæti haft í för með sér framsal á sjálfstæði og ákvörðunartöku Íslendinga um það grundvallaratriði sem er að ákveða sinn eigin gjaldmiðil og þar með innri skipan mála í atvinnu- og efnahagsmálum.

Það er óhrekjanleg staðreynd að gjaldmiðillinn er eitt aðalhagstjórnartækið sem við Íslendingar höfum til að ákveða og ráða innri málum og einnig í því tilliti að setja okkur ákveðin takmörk og stöðu um hvernig við viljum standa sem þjóð í atvinnumálum og efnahagsmálum gagnvart öðrum þjóðum við ýmsar og oft erfiðar og afbrigðilegar kringumstæður sem Íslendingar þurfa að mæta. Þess vegna verður að ræða þetta mál af alvöru og festu og gera sér grein fyrir því að ef of langt er gengið værum við raunverulega, ef þessi leið væri farin að fullu, að afsala okkur ákvörðunarvaldi sem er grundvallaratriði fyrir sjálfstæði íslensku þjóðarinnar.

Í þessu sambandi hefur mikið verið rætt um verðbólgu, hvernig hægt væri að ráða við verðbólguna og önnur atriði, og einnig kom inn í það hjá hæstv. viðskrh. lagaspursmálið. Hann minntist á að í því fælist ákveðinn agi erlendis frá ef Íslendingar væru tengdir erlendri mynt með þeim hætti að við yrðum að lúta því lögmáli sem sú stærri mynt myndi setja okkur. Ég er þeirrar skoðunar og ég held að flestallir Íslendingar séu þeirrar skoðunar að aginn eigi að koma innan frá en ekki erlendis frá. Það er grundvallaratriði fyrir okkur sem þjóð að gera okkur grein fyrir því að við verðum að ráða við okkar eigin mál sjálfir innan frá en ekki að leita ráða með þeim hætti að láta erlenda aðila eða tengsl við erlend ríki hafa þau áhrif að þeir agi okkar um skipan innri mála.

Þess vegna legg ég áherslu á það, þegar verið er að fjalla um þetta mál sérstaklega, þáltill. sem felur þetta í sér, að við gerum okkur grein fyrir því að of sterk tengsl við erlendan gjaldmiðil geta verið sjálfstæði okkar hættuleg eins og þegar hefur komið fram í ræðum annarra.

Hins vegar finnst mér það gott við þessa þáltill. ef hv. þm. og við öll ræðum það út frá því sjónarmiði sem hér er verið að fjalla um hvort umræðan geti upplýst betur og styrkt okkur í viðleitni okkar til að styrkja stöðu íslensks gjaldmiðils og þar með stöðu íslenskra útflutningsatvinnuvega með þeim hætti sem hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson kom inn á áðan í ræðu sinni sem að mínu mati var gott framlag í þá umræðu sem snýr að útflutningsatvinnuvegunum og því sem gera verður þeirra vegna til að styrkja stöðu íslenskra atvinnuvega og íslensks efnahagslífs.

Ef það er megintilgangur þessarar till. að styrkja stöðu íslensks gjaldmiðils og þar með íslenskra útflutningsatvinnuvega get ég fyrir mitt leyti greitt því atkvæði að þessi könnun fari fram, en með þeim fyrirvara sem ég hef þegar getið í minni ræðu.

Hér hefur nokkuð borið á góma Efnahagsbandalagið og hugsanleg tengsl Íslands við það. Eyjólfur Konráð Jónsson, hv. 8. þm. Reykv. og formaður utanrmn., mun hafa lýst því yfir — ég var því miður ekki inni þegar hann gerði það — að hann væri því mótfallinn að Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalaginu. Ég get tekið undir þau orð og staðfest það hér jafnframt, ef það hefur ekki komið fram í ræðu hv. þm., að þó einhverjir sjálfstæðismenn, svo og ýmsir aðrir úr öðrum flokkum, hafi rætt hvort það kæmi til greina að Ísland gerðist aðili að Efnahagsbandalaginu er það ekki gert í umboði Sjálfstfl. því Sjálfstfl. hefur það ekki á stefnuskrá sinni. Ég vil undirstrika það í þessari umræðu sérstaklega.

Það liggur í augum uppi að Íslendingar og Ísland gerast ekki aðili að bandalagi sem mundi hafa í för með sér að erlendir aðilar hefðu greiðan aðgang að íslenskum auðlindum, sérstaklega íslenskum fiskimiðum. Íslendingar ganga ekki í bandalag sem hefur það í för með sér að hér væru frjálsir fjármagnsflutningar og erlendum aðilum væru tryggð hér 100% stofnréttindi í atvinnulífinu. Þetta gefur auga leið og það hentar ekki íslenskum hagsmunum. Það hentar ekki hagsmunum Íslendinga hvað varðar eignarhald í landi sem og á öðrum lífsgæðum sem hér eru fyrir hendi.

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorðari um þetta mál, en vil undirstrika að það ber að fara að með mikilli aðgát hvernig fjallað er um þetta mál.