28.10.1987
Neðri deild: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

34. mál, aðför

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það undrar mig ekki að bæði hv. 1. þm. Reykv. og hæstv. ráðherra þurfi að ítreka það sem átt hefur sér stað, enda er það nokkur nýjung. Ég vil vekja athygli hv. þm. og herra forseta á því að hér hefur það gerst sem ég hef ekki orðið vitni að hér í þingsölum fyrr í átta ára þingsögu minni, sem er að hæstv. ráðherra fellst á breytingu frá hv. þm. þó að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun. Sú hefur nefnilega verið venja hér í þingsölum að frv. sem til bóta mega verða eru gjarnan, einkum ef þau koma frá stjórnarandstöðu og ég vænti þess að það hefði í þessu tilviki ekki breytt neinu þótt svo hefði verið, afgreidd með því að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun og þess vegna hljóti viðkomandi breyting að bíða þess. Og ég vil minna hv. þm. og herra forseta á mál sem að vísu náði fram að ganga eftir mikla erfiðleika, þ.e. breyting á erfðalögum. Þá var talað um að fyrir dyrum stæði heildarendurskoðun Á erfðalögunum og sú heildarendurskoðun hefur auðvitað ekki farið fram þó að liðin séu ein þrjú eða fjögur ár. Fyrir þinginu liggur frv. til laga um breytingu á almannatryggingalögum og þegar er búið að tala um úr ræðustólum að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni.

Ég vil þess vegna lýsa sérstakri ánægju minni með þau orð hæstv. dómsmrh. að hann muni þola það að breyting sé gerð á einstaka atriðum í löggjöf sem ráðuneyti hans varðar þó að fyrir dyrum standi heildarendurskoðun. Það er nýlunda hér í þingsölum sem ber að fagna og ég vænti þess að þessi vinnubrögð verði höfð í frammi í framtíðinni.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.