11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4523 í B-deild Alþingistíðinda. (3134)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Sigríður Lillý Baldursdóttir:

Herra forseti. Á sl. hausti á þingi Sambands ísl. rafmagnsveitna var kynnt starf starfshópsins sem hæstv. iðnrh. nefndi áðan í máli sínu. Starfshópur þessi vinnur að endurskoðun raforkukerfis landsins. Í starfshópnum eru meðal annarra fulltrúar frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitum ríkisins, Landsvirkjun og iðnrn.

Hæstv. iðnrh. lýsti, ef ég man rétt, á þessu þingi yfir að hann vænti mikils af starfi þessa starfshóps og gerði ráð fyrir að niðurstöður hans gætu orðið stefnumótandi fyrir ákvarðanir í raforkumálum hér á landi. Enn sýnist mér hann vera sömu skoðunar. Ég var og er ekki þessarar skoðunar. Ég tel samsetningu starfshópsins vera slíka að ekki megi búast við að menn gætu sæst á leiðir og eftir að hafa hlustað á kynningu á því hvernig þessi starfshópur hafi starfað fylltist ég satt best að segja engri bjartsýni.

Á þingi Sambands ísl. rafmagnsveitna kom m.a. í ljós að safnað hefur verið gögnum um rekstur rafmagnsveitna í landinu og þau borin saman beint án þess að hirt væri um að samræma bókhaldslykla raforkufyrirtækjanna. Einnig voru forsendur þær, sem samstarfshópurinn ætlaði að meta hagkvæmni raforkukerfisins út frá, ekki skilgreindar á þessum tíma og í spjalli mínu við einstaka menn í þessum starfshóp síðar hefur komið í ljós að þeir höfðu æðiólíkar skoðanir á því hvað mætti teljast gott raforkukerfi fyrir alla landsmenn. Raunar fannst mér liggja í orðum þeirra að ekki mætti vænta stefnumörkunar frá hendi þessa hóps heldur fremur söfnunar upplýsinga um það hvernig raforkukerfið er í dag, enda hlýtur það að vera stjórnmálamannanna að marka stefnu í þessum málum og ekki er vanþörf á, slíkur er munurinn á raforkuverði til notenda milli landshluta.

Því fagna ég þessari þáltill., sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, og lýsi yfir fullum stuðningi mínum við hana.