11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4528 í B-deild Alþingistíðinda. (3137)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Ríkharð Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef mál mitt á því að minna aðeins á það sem þeir eru að tala um hv. síðasti ræðumaður og aðrir, hvað orðið hefur um orkujöfnunargjald og niðurgreiðslur sem hafa verið settar inn í þennan orkugeira. Orkujöfnunargjaldið var fellt niður og niðurgreiðslurnar hafa staðið fastar í krónutölum. Hvort tveggja er dæmi um það að aðgerðir sem gripið er til til þess að leysa úr einhverjum slíkum vanda duga skammt. Fyrr en varir gleymast annaðhvort forsendurnar fyrir því að til aðgerðanna var gripið eða efndirnar. Þarna þýðir náttúrlega ekkert annað en það að reyna að leysa málin í eitt skipti fyrir öll og það verður ekki gert nema á einn afar einfaldan hátt, að þessi virðulega stofnun, Alþingi, ákveði að smásöluverð á raforku skuli vera hið sama um land allt. Það er ósköp einfalt markmið og þegar búið er að setja það og búið að ákveða þetta sameiginlega orkuverð er ekki um neina bráðabirgðaúrlausn að ræða heldur eitthvað sem kalla mætti nær endanlegri lausn.

Það hefur verið borið hérna dálítið saman verð á raforku og olíu til húshitunar og annarra hluta og hæstv. iðnrh. benti réttilega á það að slíkur samanburður getur orkað tvímælis. Og vissulega er svo, olíuverð sveiflast upp og ofan. En þó vil ég einnig benda á annað. Olíuverð, gasolíuverð hefur einmitt þann eiginleika sem ég var að segja áðan að raforkuverðið þyrfti að hafa. Það er sama gasolíuverð um land allt. Það er hætt við því að ef gasolíuverðið ákvarðaðist á sama hátt og raforkuverð, þá yrði ekki ódýrara að kynda með gasolíu út um dreifðar byggðir heldur en með raforku. Einn mikilvægur þáttur í orkukerfi landsmanna er verðjöfnuður og og sé ekki ástæðu til annars en að aðrir ættu að fylgja þar með.

Í þessari ályktun er mælt fyrir því að skipulag orkumála, raforkumála í landinu sé skoðað, m.a. hvernig eigi að skipta þessu upp í orkuveitusvæði eða hvort orkuveitusvæði eigi að vera eitt o.s.frv.

Fyrir nokkrum árum síðan var sú stefna uppi að skipta landinu öllu í orkuveitusvæði sem væru nokkuð sjálfstæð hvert á sínu sviði. Þessi orkuveitusvæði eru til: Orkubú Vestfjarða og Orkubú Suðurnesja. Það þarf ekki annað en að líta á landakortið til að sjá að Orkubú Vestfjarða og Orkubú Suðurnesja eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið, þ.e. fyrri hlutann af nafni sínu. Orkubú Vestfjarða er með geysilega víðlenda byggð. (Iðnrh.: Það heitir Hitaveita Suðurnesja.) Hitaveiturnar koma þarna inn í líka þannig að eftir því sem hæstv. iðnrh. sagði um það hvað raforkukerfið er hagstætt í rekstri á hitaveitusvæðum þá bætist það enn við, sem gerir það að verkum að Orkubú Suðurnesja á nánast ekkert sameiginlegt með Orkubúi Vestfjarða. (Iðnrh.: Það heitir Hitaveita Suðurnesja.) Fyrirgefðu, Hitaveita Suðurnesja. Það er nokkuð það sama. Ég held að þetta hafi verið röng stefna sem tekin var upp á sínum tíma að skipta landinu þannig upp. Þetta er eitt orkuveitusvæði og okkur ber að vinna að því.

Nú stendur svo á í því héraði sem ég á heima í, Borgarfirði, að þar er verið að tala um það að búa til eitt orkubú, Orkubú Borgarfjarðar, eða hvaða nafn sem var nú á því. Ástæðan var sú að vegna þess að á árum áður var lögð mikil áhersla á það að menn kæmu sér upp hitaveitu, þá var sett upp hitaveita sem reyndist síðan mjög dýr, Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar. Hitaveita sem er svo dýr að í smáum sveitarfélögum eins og ég er í, þar sem eru 250 íbúar, þar setjast sveitarstjórnarmenn, hreppsnefndirnar niður og samþykkja alvarlega ályktun um það að taka ábyrgð á 600 millj. jena láni og er þá eins gott að gengið á jeninu er lágt. Það fer svo eftir skopskyni manna hvort mönnum finnst það grátlegt eða kátlegt að 250 manns séu að skipta á milli sín ábyrgð á 600 millj. jena. Það verður hver að meta fyrir sig.

Málefni Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar hafa verið í meðförum hvers iðnaðarráðherrans á fætur öðrum og á endanum fannst sú patentlausn að slá saman Rafmagnsveitum ríkisins í héraðinu, Andakílsárvirkjun, sem er í eign Borgarfjarðarsýslu og tveggja sveitarfélaga, og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og útkoman getur ekki orðið önnur en sú að raforkukaupendur á þessu svæði skuli fá hækkað raforkuverð sitt og borga þannig niður hitaveitukostnaðinn.

Þetta er afskaplega skondin staða að bóndi uppi í Hvítársíðu — og ef svæðið nær lengra jafnvel allt vestur á Snæfellsnes — skuli taka þátt í því að greiða niður orkukostnað Borgnesinga, Hvanneyringa og Akurnesinga. Hvers vegna er þá ekki alveg eins rétt að sá sem býr handan við Snæfellsnesfjallgarðinn, sá sem býr norður í landi eða suður í Reykjavík taki þátt í því að greiða þennan kostnað?

Það er langtímamarkmið að öll orka verði jafndýr fyrir alla landsmenn. Markmiðið getur ekki verið annað. Hins vegar er það skref sem stungið er upp á í þessari tillögu gott sem fyrsta skref. Þarna eru til þess að gera fáir aðilar sem sjá um heildsölu og þess vegna ætti ekki að vera óyfirstíganlegt að það geti gengið hratt fyrir sig að gera landið að einu orkuveitusvæði og hafa sama raforkuverð um land allt.