11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4532 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Flm. (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál sem ég hafði framsögu fyrir. Hér hafa ýmsir talað og mörgum hefur verið mikið niðri fyrir og furðar enginn sig á því vegna þess að hér er um stórt og viðamikið mál að ræða sem snertir marga íbúa landsins, þó með misjöfnum hætti sé.

Ég ætla að byrja á því að víkja örlítið að máli einstakra þm. sem hér hafa talað og sný mér þá fyrst að hv. 5. þm. Norðurl. v. Jóni Sæmundi Sigurjónssyni. Það sem hann las hér upp úr grein Ófeigs vinar míns Gestssonar, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, var ágætt innlegg í þetta mál. Það var mjög gott innlegg í málið þó að það sem þar kom fram hafi ekki verið neitt sérstakt fyrir þann stað eins og hér hefur verið margoft nefnt. Jón Sæmundur kom hins vegar með nokkuð undarlega hugmynd inn í þessa umræðu og ég verð að segja það að hann er fljótur að læra af þeim sem eru hér inni í húsinu. Hann hefur ekki verið hérna nema síðan á haustdögum og hann er strax farinn að fá glýju í augun yfir Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hann nefndi það að hann mundi gera það að tillögu sinni að þetta mál yrði leyst á kostnað Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og það finnst mér vera nokkuð sérkennileg hugmynd.

Staðreyndin er sú að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er notaður til þess að jafna aðstöðu sveitarfélaganna í landinu, en þetta mál er auðvitað miklu stærra en svo að það snerti bara sveitarfélögin ein. Fyrst og fremst snertir það einstaklingana og heimilin í landinu. Ekki bara sveitarfélögin. Þannig að það er ekki nóg að jafna þessa aðstöðu þeirra á milli. Það þarf að jafna þessa aðstöðu milli heimilanna í landinu.

Síðan vil ég víkja örfáum orðum að máli hv. þm. Karvels Pálmasonar. Mér fannst hans ræða mjög góð og gott innlegg í þetta mál. Ég veit að hann talar af mikilli þekkingu um málið. En hann tók það fram að það væri ekki nóg að skipa nefnd og auðvitað er það alveg rétt. Ég tók það reyndar fram glögglega í minni framsöguræðu að það þyrfti að grípa á þessu máli strax og það er sannfæring mín. Hins vegar legg ég jafnframt til að málið verði skoðað með lengri tímamarkmið í huga. Ég held að málið sé það stórt og þess eðlis að það þurfi að gefa sér nokkurn tíma þó að það sé jafnframt nauðsynlegt að grípa strax til aðgerða. En báðir þessir hv. þm. tóku raunverulega mjög efnislega undir allt það sem ég sagði hér í minni ræðu og þess vegna langar mig til að spyrja þessa ágætu þm.: Sáu þeir ekki þennan vanda fyrir? Þessi vandi er löngu síðan ljós. Hvernig stóð á því að þessir hv. þm. tryggðu það ekki í stjórnarmyndunarviðræðunum að þetta mál hefði farsælan forgang, að landsbyggðinni yrði tryggt jafnt orkuverð á við aðra landshluta?

Hæstv. iðnrh. talaði um þetta mál og hann nefndi m.a. að skuldir RARIK væru miklar og var í raun eitthvað að gagnrýna það að ég hefði haldið því fram í minni framsöguræðu að það væru skuldir RARIK sem hefðu valdið hækkun á rafmagnsverði. Ég held að það liggi alveg í augum uppi að ef Rafmagnsveitur ríkisins eru reknar með rekstrarhalla ár frá ári, þá hljóti það að leiða til þess að orkuverðið hækki. Ég get ekki skilið það öðruvísi.

Í öðru lagi talaði hann um það að ef farið væri eftir þeirri hugmynd sem bent er á í tillögunni, að Landsvirkjun yfirtaki háspenntar línur um landið, þá muni koma til samdráttar hjá RARIK. Ég held að það hljóti að liggja alveg í augum uppi og skiptir raunar engu máli í þessu sambandi. Það yrði væntanlega gert með þeim hætti að Landsvirkjun eða starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins úti um land yrðu bara starfsmenn Landsvirkjunar og ég sé ekki að það breyti í sjálfu sér neinu.

Síðan vék hann örfáum orðum að jöfnun á öðrum orkugjöfum og nefndi hitaveiturnar í því sambandi, m.a. hitaveituna á Hvammstanga, og má vel vera að hann hafi eitthvað verið að sneiða að mér í því sambandi, en ég sé að hann hristir höfuðið og það er út af fyrir sig ágætt að svo hefur ekki verið, það er misskilningur hjá mér. En auðvitað er það þannig að hitaveiturnar í landinu eru einnig misdýrar. Hitaveitan hér í Reykjavík er t.d. líklega helmingi ódýrari en hitaveitan hjá okkur norður á Hvammstanga. En það er innlegg í þessa umræðu um orkukostnaðinn hvort ekki eigi að taka hitaveiturnar inn í þá mynd og skoða það með tilliti til þess að það verð verði líka jafnað, verðið frá hitaveitunum.

Síðan gagnrýndi hann það að verið væri að bera saman verð á rafmagni og olíu. Ég held að menn verði samt sem áður að hafa það í huga þegar verið er að fjalla um raforkuverðið í landinu hvað orkugjafar í öðrum löndum kosta og einnig hvað innfluttir orkugjafar kosta. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að menn taki eitthvert tillit til þess þegar þeir eru að verðleggja raforkuna í landinu. Það hlýtur að verða að taka tillit til þess, t.d. í sambandi við afskriftareglur og á hve skömmum tíma á að borga niður lán, t.d. hjá Landsvirkjun.

Mér fannst það koma fram í máli hæstv. iðnrh. að hann hefði skilning á þessum málum og þeim vanda sem lægi fyrir. Hann var raunar að greina frá því að það væru núna í gangi viðræður við fjmrn. um skuldastöðu Rafmagnsveitna ríkisins og auðvitað er það allt af hinu góða. Hann greindi líka frá því að það væri starfshópur að vinna að þessu máli, að endurskoðun raforkumála í heild sinni, ef ég skildi hann rétt. Starfshópur sem væri skipaður fulltrúum frá iðnrn. og Landsvirkjun, Orkustofnun og einhverjum fleiri slíkum. En það er raunverulega allt annað en við erum að leggja til. Þessi starfshópur, þetta er bara hópur embættismanna, einhvers konar elskuvina-klúbbur, og það er aldrei að búast við því að það komi neitt jákvætt í sambandi við þetta mál út úr þeim viðræðum. Við leggjum til að það sé tekið á þessu með allt öðrum hætti, á pólitískum vettvangi og það sé Alþingi sem hafi frumkvæði að því. Út á það gengur till.

Ég vil hins vegar taka mjög undir það sem hér hefur komið fram hjá mönnum að það verður að taka á þessum vanda strax. Það er ekki hægt að komast hjá því, svo geigvænlegur sem hann er orðinn og svo mikið sem misréttið er orðið í þessum efnum. Hins vegar held ég að ef leysa á þetta mál til frambúðar þá verði að endurskoða þessa verkaskiptingu orkuöflunarfyrirtækjanna og það verði best gert með því að skipa til þess nefnd með þeim hætti sem við gerum ráð fyrir í till. og ég vona að hún fái brautargengi hér á hinu háa Alþingi.