11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4541 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

257. mál, stefnumörkun í raforkumálum

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það er ákaflega erfitt að taka þátt í umræðum þar sem eru eins konar vaktaskipti. Sumir koma inn í umræðurnar mjög seint en ég skal samt gera tilraun til þess í þessum örstutta ræðutíma sem ég hef.

Það er rétt að Rafmagnsveiturnar eru reknar með halla en þá verður að gæta þess að á móti eru afskriftir. Það eru 400 millj. kr. afskriftir á móti því sem kemur fram í 400 millj. kr. halla.

Það er líka rétt og því verður hv. þm. að átta sig á að þessar skuldir hafa ekki farið út í verðlagið. Hins vegar hafa RARIK og Orkubú Vestfjarða ekki enn greitt af skuldabréfi sem gengið var frá þegar breytingin átti sér stað fyrir tveimur árum. Það mál er í biðstöðu og það safnast þess vegna upp skuldir. Þær hafa ekki farið út í verðlagið á raforkunni.

Hv. síðasti ræðumaður er flm. þessarar till. Hann hefur kosið að birta í till. fskj. frá Rafmagnsveitum ríkisins. Á bls. 4 stendur skýrum stöfum þegar miðað er við byggingarvísitölu að árin 1980, 1981, 1982 og 1983 hafi raforkuverð til húshitunar verið hærra en í dag. Hver var ráðherra 1980, 1981, 1982 og 1983? Það var hv. síðasti ræðumaður. Hann segir það hér í ræðustól að það kosti hann 10 þús. kr. á mánuði núna allan ársins hring að kynda upp húsnæði sitt á Neskaupstað, en á sama verðlagi hefði það kostað hann 13 þús. kr. eða a.m.k. 12 þús. kr. þegar hann var ráðherra og bjó í Reykjavík og einnig fyrir austan. Um það snýst þetta mál. Ég skora á hv. þm. að átta sig á þessu og athuga svo jafnframt hvort hann hafi gleymt að loka glugga á húsnæðinu fyrir austan.