11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4542 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

Tilhögun þingfunda

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér finnst það mjög eðlilegt að virðulegur forseti taki til máls um þetta atriði vegna minnar athugasemdar. Ég er síst að finna að því að þingið starfi lengi, ötullega og vel og ég veit að það er metnaður hæstv. forseta að reyna að þoka málum áfram og auðvitað fer það eftir þátttöku okkar þm. í umræðum sem og málflutningi öllum. Ég hlýt hins vegar að nefna það að þegar okkur þm. í þingflokkum, ég býst við að það gildi um alla þingflokka, voru kynntir nýir starfshættir var okkur greint frá því að það yrði meginregla að þingfundum í Sþ. sem hæfust kl. 10 á fimmtudögum lyki um kl. 13–14. Það yrði svona meginviðmiðun og mér finnst að það sé ekkert óeðlilegt að um það sé fjallað og það sé nefnt hvort þetta eigi að vera gildandi meginregla eða hitt séu undantekningar. Þetta varðar skipulag á störfum okkar utan þingfunda. Ég er síst að ásaka hæstv. forseta fyrir það að hann skuli halda fram fundi svona lengi, en hins vegar væri mjög æskilegt að við vissum það með einhverjum fyrirvara vegna skipulags á störfum okkar þm., utan þingfunda, því að þar höfum við einnig skyldum að gegna. Þess vegna leyfði ég mér að gera þessa athugasemd og ætlast ekki til að hún verði tekin sem aðfinnsla varðandi þetta fundahald eða á liðnum dögum.